Tímarit Máls og menningar - 01.05.1986, Side 104
Tímarit Máls og menningar
dvergunum. Ef einn okkar hrasaði og slinkurinn yrði til þess að
eitraða eplið hrykki uppúr afa — og hann myndi banka í kistulokið
og beiðast útgöngu. Eftir á að hyggja er ég ekki viss um að við
hefðum hleypt honum út — þar með hefði dagurinn verið endanlega
fyrir bí og erfisdrykkjan orðið á fölskum forsendum. En við hrösuð-
um ekki og afi beiddist ekki útgöngu, hann lá sem fastast í sinni kistu
og við nálguðumst kirkjugarðinn hægt og sígandi.
Presturinn beið eftir að sýna okkur hvar við ættum að láta frá
okkur kis'tuna og segja okkur að öðru leyti hvernig athöfnin yrði og
hvernig okkar hlutverk væru. Einsog góðum leikstjóra sæmdi. En
hann varð hissa á að við skyldum ekki koma með kistuna í bíl og
spurði um líkbílinn.
Hann valt, sagði stúlkan áður en við hinir gátum opnað munn.
Ha? sagði presturinn og var ekki gáfulegur.
Við reyndum að útskýra hvað komið hafði fyrir, en það gekk
brösótt. Þegar presturinn fór að gera sér nokkra heildarmynd af
atvikinu varð honum fyrst að spyrja um Guðmund, sem mér skildist
að væri líkbílstjórinn. Ég sagði að Guðmundur hefði farið oní bæ.
Og presturinn kinkaði kolli ánþess að spyrja nánar útí það. Fór að
segja okkur hvað við ættum að gera þegar að athöfninni kæmi, gaf
okkur stikkorð fyrir innkomu, stillti okkur upp við kistuna og exit
með kistuna að gröfinni og láta á þartil gerða búkka, köðlum smeygt
í höldin og látið síga.
Nákvæmt handrit.
Presturinn virtist hafa gleymt því að nokkuð óvenjulegt hefði
gerst. Hann var gamall, búinn að þjóna sókninni í rúm þrjátíu ár,
hafði skírt mig og fermt — einu sinni lá við að hann gifti mig líka. Og
hann hafði skalla.
Þegar við komum útúr kirkjunni sáum við að þeir voru að draga
flakið af líkbílnum uppá veginn. Aldraðan ford sem hafði þjónað
álíka lengi og presturinn. Nú var bíllinn ákaflega hjárænulegur,
skakkur og skáldaður, kistuhúsið brotið og allar rúður. Líkt og
slasað gamalmenni. Líkbílstjórinn á þönum í kring og var eflaust að
reyna að gleyma sorg augnabliksins með því að hafa yfirstjórn með
höndum. Virtist hinsvegar ekki vita á hverju hann ætti að hafa stjórn.
Stúlkan með vasadiskóið stóð álengdar og fylgdist með einsog sjón-
varpsmyndavél.
230