Tímarit Máls og menningar - 01.09.1986, Síða 114
Vilhjdlmur Árnason
Réttlæti og trúarsannindi
eða Vegurinn, sannleikurinn og lífið
(Þessi grein vísar til orðaskipta þeirra Eyjólfs Kjalars Emilssonar og Þorsteins Gylfasonar um
sannleika og réttlæti í síðasta hefti.)1
I Villiöndinni dró Henrik Ibsen upp ógleymanlega mynd af miklum „sann-
leikspostula", Gregers Werle, sem einsetti sér að láta sannleikann um
Ekdalsfjölskylduna koma fram. Hann þröngvar sér inn í líf þessa fólks og
linnir ekki látum fyrr en hann hefur lokið verkefni sínu: að eyða þeim
lygavef sem fjölskyldan var flækt í. Auðvitað gekk Gregers gott eitt til.
Hann vildi að þau Gina og Hjálmar Ekdal hæfu nýtt líf í hjónabandi reistu á
sannleika og hreinskilni. En afleiðingarnar af afskiptum Gregers urðu
skelfilegar. Hedvig, litla stúlkan sem líkast til var ekki dóttir pabba síns,
framdi sjálfsmorð. En sannleikurinn náði að koma fram og það var Gregers
fyrir mestu.
Það fer vart á milli mála að í einhverjum skilningi er Gregers Werle
málsvari sannleikans í þessu verki Ibsens, en andstætt t. d. Stockmann í
Þjóðníðingi er hæpið að kalla hann boðbera réttlætis. Relling, læknirinn í
Villiöndinni, telur Gregers haldinn „rettskaffenhetsfeber" sem villi honum
sýn á allt nema hina „háleitu kröfu“ um afdráttarlausa hreinskilni. Hann
skortir hins vegar „rettfærdighetssans" eða réttlætiskennd. Vegna þessa
bjálka telur hann það heilaga skyldu sína að afhjúpa blekkingar annarra,
jafnvel þótt það kosti þá lífið og lukkuna. Svo ég noti orðalag Þorsteins
Gylfasonar, þá tekur Gregers verknaðarskylduna til að „hjálpa" öðrum
fram yfir taumhaldsskylduna að vinna þeim ekki tjón. Þorsteinn telur að þar
sem verknaðarskylda og taumhaldsskylda rekist á, skuli taumhaldsskyldan
ráða: „Ef til vill má rekja þessa reglu til frumreglu um mannlegar dyggðir
sem segði að þar sem réttlæti og kærleikur rekist á skuli réttlætið ráða.“2
Nú hefur Þorsteinn sett fram kenningu um réttlæti sem gengur út á það
að réttlæti sé sannmæli; réttlæti birtist í því að sannleikurinn fái að koma
fram.3 Dæmið af Gregers í Villiöndinni sýndi afturámóti að ofurást hans á
sannleikanum leiddi ekki einungis óhamingju yfir fórnarlömb hans, heldur
einnig óréttlæti. Hann braut í bága við þau almennu sannindi, að „satt má
kyrrt liggja“ þegar önnur og mikilvægari verðmæti eru í húfi. En Þorsteinn
376