Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Page 28
Tímarit Máls og menningar
ástæða væri til að vanda sig. Auk þess var ástæða til að hafa í huga að einu
útlendingarnir sem mögulega gátu lesið grein Helgu, og aðra gagnrýni af því
tagi, eru þeir sem sýnt hafa áhuga og lit á að þýða íslensk verk. Þeir menn höfðu
fram til þess ekki haft ástæðu til að ætla að þeirra störfum væri minnsti gaumur
gefinn, en urðu nú áþreifanlega varir við hið gagnstæða. Er engin furða þótt
sumir þeirra kipptu að sér hendinni og spyrðu sjálfa sig þeirrar spurningar hvort
þeir gætu hér eftir fremur en hingað til átt von á nokkru nema illindum af
íslendinga hálfu ef þeir héldu áfram þessu þýðingastússi. Og til að fyrirbyggja
þann misskilning að þetta væru óþarfa áhyggjur vegna þess að þeir sem
vönduðu sitt verk þyrftu ekkert að óttast, þá lét ég í ljós þá skoðun að þrátt fyrir
að gagnrýni Helgu kynni að vera rétt í meginatriðum, þá gengi hún of hart fram
í leit að villum; smásmygli í þeim efnum gæti gert hina bestu þýðendur
tortryggilega. Þeirri fullyrðingu til stuðnings benti ég á að eftir sambærilega
rannsókn hefði þýðing Halldórs Laxness á Vopnin kvödd eftir Hemingway
fengið sannkallaða falleinkunn í nýlegri tímaritsgrein.
Astráður Eysteinsson getur sér þess réttilega til að þarna hafi ég verið að vísa
til greinar hans Bókmenntir og þýðingar, í Skírni, 158. árg. 1984. Hann bregst
illa viðjjessari athugasemd, segir að hún sé „rislág . . . og mari raunar öll í hálfu
kafi.“ Astráður gefur fyrst í skyn að líklega hafi ég ekki lesið grein sína; örstuttu
seinna slær hann því föstu, og er þá kominn með tilefni til að áminna mig
stranglega um að draga ekki ályktanir af því sem ég hafi ekki lesið. Síðan hreytir
hann í mig allskyns skætingi sem engin ástæða er til að endurtaka hér, enda er sá
æsingur fyrst og fremst kjánalegur.
Eg veit ekki af hverju Astráður hefur dregið þá ályktun að ég hafi ekki lesið
grein hans. Astæða þess að ég tók hana ekkert sérstaklega fyrir var sú að hún
kom því ekki beinlínis við sem ég var að tala um, heldur vísaði ég bara þarna til
þessarar greiningar á Hemingwayþýðingu Laxness til að benda á að það væru
fleiri en einhverjir fúskarar sem gætu átt von á yfirhalningu. Og ætla ég þarmeð
að láta lokið öllu tali um ágreining okkar Astráðs, og ekki fjölyrða frekar um
kennimannlegar umvandanir hans vegna minna orða.
Hinsvegar get ég ekki látið hjá líða að benda honum á, í fullri vinsemd, að
hinn föðurlegi og strangi leiðbeiningartónn sem hann hefur tamið sér í skrifum
virkar oft mun hallærislegar en þegar hann er að lesa jafnöldrum sínum pistilinn.
Því er reyndar ekki að neita að virðingarleysi fyrir öllu átoríteti getur verið
þarfur hlutur og sjarmerandi, en maður sem slær því allsstaðar föstu, með
þreytulegum og lífsreyndum tón, að þarsem þeir Halldór Laxness séu ósammála
um stíl eða orðalag hljóti það að stafa af vanþekkingu skáldsins eða klaufaskap,
verður að hafa ansi mikla innistæðu í eigin persónu ef hann vill ekki gera sig að
fífli. Umrædd þýðing Halldórs er frá 1941, þegar hann hafði nýlokið við
Heimsljós og var að búa sig undir átökin við Islandsklukkuna. Það mætti ætla
að menn væru yfirleitt sammála um það núorðið að þótt hann skrifaði öðruvísi
en flestir aðrir íslendingar, þá sé ástæða til að ætla að hann vissi í stórum
16