Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Qupperneq 136
Tímarit Máls og menningar
Fjölskylda Karólínu spákonu í Gamla
húsinu er yfirstétt braggahverfisins - að-
all. Það er undirstrikað með tignarheit-
um úr lénsskipulaginu; sögumaður kall-
ar Karólínu „drottningu“ og Tómas er
kallaður „jarlinn af Thúlekampi“ (43).
Sjónarhorn scinni bókarinnar, Gull-
eyjunnar (Mál og menning, 1985), er
oftast hjá íbúum Gamla hússins sem eru
enn meira í sviðsljósinu hér en í fyrri
bókinni.
Sjálfsskilningur fjölskyldunnar, trú
hennar á að eigin velgengni sé jafnframt
hagur annarra, gerir lýsinguna á bragga-
hverfinu fulla af skemmtilegheitum - fá-
tækt og þjáning er ekki til í Thúlekampi
á meðan allt leikur í lyndi í Gamla
húsinu.
Þegar „kerfið" ræðst svo á kampinn
til að jafna hann við jörðu, snýst fólkið í
Gamla húsinu til varnar hverfinu, fullt af
réttlátri reiði og baráttuhug. Þeim til
mikillar furðu standa þau ein, fátækl-
ingarnir flytja fegnir úr bröggunum í
mannsæmandi íbúðir í úthverfunum.
Enginn er tilbúinn til að verja hverfið
eða Gamla húsið - og þá koma líka í ljós
brestir í fjölskyldu Karólínu, sjálfir
innviðirnir eru fúnir.
Gulleyjan byggir á nokkrum grund-
vallandi andstæðum; fjölskylda Karó-
línu skiptist innbyrðis í húsbændur og
hjú, yfirstétt og vinnudýr. Efnahagslegir
og menningarlegir yfirburðir gera fjöl-
skyldu spákonunnar að yfirstétt í Thúle-
kampi og Thúlekampur er í ögrandi and-
stöðu við Reykjavík. Utan og ofan við
allt þetta er svo Ameríka, heimsálfa
hamingjunnar, andstæða alls þess lífs
sem menn þekkja og lifað er á eyjunni. I
spennunni á milli þessara andstæðna
kvikna goðsögurnar til lífsins.
Hér verður fylgt dæmi Atle Kittang (í
bók hans um Hamsun: Luft, vind, ing-
enting). Hann skilgreinir fyrirbærið
„goðsögn" út frá kenningum mannfræð-
ingsins Claude Lévi-Strauss og segir að
hlutverk goðsagnarinnar í daglegu lífi
okkar sé að leiða saman og sætta þver-
sagnir, andstæður sem virðast annars
óskiljanlegar og ósættanlegar. Einmitt
þetta hlutverk goðsögunnar verður
einkar skýrt í Gulleyjunni í draumnum
um Ameríku og í persónu Badda.
Ameríka
Þegar lýst er hugmyndum fjölskyldunn-
ar um Ameríku, fær textinn á sig blæ
ævintýris eða helgisögu:
Fjölskylda spákonunnar í Gamla
húsinu átti þó hlutdeild í hamingj-
unni, útaf þessu, að hún Gógó . . .
var orðin húsfrú og aðalsfrú þarna
fyrir vestan, og allt sem frá henni
kom bar í sér birtu þeirrar sólar sem
upplýsti hennar líf. (7)
Frá Ameríku koma heillandi hlutir:
ísskápurinn mikli sem er svo stór að það
verður að rjúfa dyraumbúnað til að
hann komist inn í venjulegt hús. Þaðan
koma nautatunga og suðrænir ávextir í
dós, Rúdólfur hreindýr, glimmer, palí-
ettur og candyfloss. Notagildi þessara
hluta er takmarkað og upphaflegt tákn-
gildi þeirra, tilvísanirnar sem þeir höfðu
fyrir vestan, er týnt þegar þeir hafna í
Thúlekampi. En það gerir ekkert til,
þeim er veitt fagnandi móttaka sem
táknum - án merkingarmiðs.
„Þetta er Ameríka!" segja íbúar
Gamla hússins og eiga við einhvers kon-
ar glæsibrag, munað, iðjuleysi - eða m.
ö. o. hinn gamla alþýðlega draum um
fyrirhafnarlaust sældarlíf í landi þar sem
smjör og hunang drýpur af hverju strái.
Ibúar Gamla hússins kæra sig ekkert
124