Tímarit Máls og menningar - 01.03.1994, Síða 38
Guðbergur Bergsson
Eitrun í blóðinu
Þetta gerðist í húsinu þar sem var til gamalt orgel og lúinn sjónauki.
Rétt í því sem ég horfði öfugt í hann og skoða á mér tærnar sem voru
langt í burtu og áttu ekkert skylt við búkinn kallaði konan:
Sko, kemur ekki þarna ríðandi kerlingin hún amma þín með bláa nefið!
Ég fann, án þess að ég hætti að horfa, hvernig sár opnaðist einhvers
staðar í mér því þetta var amma og ég vissi að nefbroddurinn á henni
varð stundum næstum blár á sama hátt og nefið á mömmu. Þótt mér
þætti bláminn ekki fallegur á nefi kom ljótleikinn ekki í veg fyrir að
mér þætti vænt um þær, nærvera þeirra vakti tilfinningar sem eitthvað
sagði að væru fallegar og góðar.
Konan ætlaði að gá betur og tók af mér sjónaukann svo ég sá tærnar
aftur í eðlilegri fjarlægð. Hún leit í hann og sagði:
Jú, sjónaukinn lýgur ekki.
Ég fór að glugganum og þurfti ekki að líta í sjónauka til að sjá að
þarna kom amma dúðuð í sjöl á hestbaki. Þetta var klár sem gekk
varlega niður grýtta hæðina eins og hann vissi að hann bar á bakinu
eitthvað sem var verðmætara en rekaviður og kartöflupokar sem voru
venjulega reiddir á honum. Þótt ég sæi það ekki heyrði ég í brjóstinu
hvernig brast í grjóti undir hófunum.
Konan hló ertnislega og ég hefði viljað að galdur sjónaukans leysti
vandann og þeytti mér út í buskann eða ég færi niður úr gólfinu. Ég
vissi ekki hvort ég ætti að hlaupa út, fagna ömmu, teyma undir henni
eða láta sem ekkert væri og hanga í húsinu annað hvort við að reyna
að spila Gamli Nói með einum fmgri á orgelið eða skoða á mér tærnar
í gegnum sjónaukann, ýmist öfugan eða réttan. Svo ég ákvað að núlla,
láta sem ég væri og væri ekki til uns ég læddist burt.
Konan sagði að kerlingin hún amma léti sjaldan sjá sig á þessum
slóðum, hún feldi sig á fjöllum, enda skynsamlegast fyrir kindina, hún
væri best geymd gegn umtali handan fjalla, hún hefði haldið fram hjá
\
28
TMM 1994:1