Tímarit Máls og menningar - 01.03.1994, Page 39
manninum sínum, það vissu allir, og hrökklast með öðrum í þalla-
skjólið svo hún væri ekki minnt á lauslætið.
Hún hló kersknislega yfir sögunum. Ég hlustaði af athygli en hló
ekki til samlætis af því ég vildi ekki syndga þannig gegn ömmu. Ég réð
ekki nægilega vel yfir orðum til að verja hana og slá konuna út af
laginu, hjartað sló of ört og hún hefði hlegið miklu hærra ef ég hefði
hnotið á orðunum. Hingað til hafði mér líka þótt vænt um konuna og
heillast af orgelinu og sjónaukanum sem færði hlutina ýmist nær eða
fjær. Þetta svarta tól gat líka látið allt vera í móðu á sama hátt og
hugurinn. Ég hafði aldrei snert neitt með sömu eiginleikum.
Sögur konunnar vísuðu mér á augabragði inn í víðáttur grunsins
og veittu sýn inn í leyndarmál sem ég hafði vart hugmynd um og aldrei
var minnst á heima. Samt vissi ég að maðurinn sem amma var gift var
ekki afi minn, svo eitthvað hlaut að hafa gerst, því ég átti afa sem ég
þekkti varla, þótt hann ætti heima næstum í sama húsi, gamlan afa
sem sýndi afskiptaleysi og gekk um hálfblindur með það sem krakkar
kölluðu mannakúk á nefinu en mamma tóbak. Hann hélt því fram
hvenær sem hann nam staðar undir vegg og hitti aðra að hraustir
karlmenn ættu að vera lúsugir. Ég var ekki til fýrir honum. Engu að
síður var þetta afi minn og ég neitaði að hlýða ömmu ef hún tók mig
afsíðis, króaði mig af, gaf mér súkkulaði og sagði:
Kallaðu nú manninn minn afa.
Ég fann hlýjuna frá henni og hvernig ég var fangelsaður milli veggjar
og líkama hennar. Ég varð niðurlútur og skynjaði að tár komu fram í
augun á henni en ég sagði alltaf:
Hann er ekki afi minn.
Hún fór þá að gráta en það hafði engin áhrif á vissuna og ég
blygðaðist mín fyrir hana.
Maðurinn hennar var vænn en hann var ekki afi minn heldur hinn
sem lofsöng lúsina og var með mannakúk á nefinu. Þetta vissi ég. Svo
ég leyfði henni að gráta og reyndi að láta hugann ekki snúast gegn
henni. Mér fannst vænt um hana þótt hún reyndi að fá mig á sitt band
með guðsorði, súkkulaði og tárum.
Þú getur kallað hann „afa“ þótt hann sé það ekki, sagði hún og varð
meyr með líkamann þétt uppi við mig.
Nei, svaraði ég og varð leiður á sama hátt og börn verða leið á
vitleysu hinna fullorðnu.
TMM 1994:1
29