Tímarit Máls og menningar - 01.03.1994, Page 40
Ég varð máttvana í leiðanum en hljóður og engin leið að mjaka mér.
Nú reið amma þarna á gamla hestinum með flúraða brúna fallega
sjalið á herðunum yfir hinu sjalinu sem var einlitt, blágrátt og úr
þykkri ull. Hún sat sem hraukur á hestbaki og ég skammaðist mín
fyrir að hlaupa ekki út og teyma hestinn undir henni.
Ætlarðu ekki að taka á móti henni ömmu og skoða fjólubláa nefið?
spurði konan.
Mér skildist að hún vildi að ég stykki burt en ég valdi á milli þeirrar
löngunar og annarrar og ég valdi þá erfiðu, að vera kyrr í mátulega
langan tíma; síðan færi ég hvenær sem ég vildi sjálfur.
Þegar ég kom heim sat amma á stól í eldhúsinu. Hún var að drekka
kaffi úr rósabolla og mamma var feimin í návist hennar. Amma átti
einhvern veginn ekki heima á öðrum stað en heima hjá sér á meðal
fjallanna. Hún fagnaði mér sljólega og úr öðrum heimi. Hún var að
segja mömmu engar fréttir því ekkert gerðist hjá henni nema það að
hún hafði rifið fingur á ryðguðum nagla og fengið blóðeitrun. Nú var
hún komin til að leita sér lækninga og bretti upp hægri peysuerminni
og sýndi okkur æðina, hvernig eitthvað blátt líkt og aukaæð læsti sig
undir skinninu upp á miðjan handlegg.
Er blóðeitrun svona? spurði ég.
Já, ef blái ormurinn kemst inn í armholið og nær til hjartans þá dey
ég strax, sagði hún.
Við horfðum á æðina og biðum eftir dauðanum.
Ef ég hefði átt grásalva heima mundi ég hafa borið hann á eitruðu
æðina og blóðið hefði hreinsast, sagði amma.
Ég vissi að þannig áburður var í lítilli blikkdós í efstu hillunni í
bollaskápnum, ef við skyldum fá lús eða ætluðum að verða sköllótt,
því hann drap lýs og jók hárvöxt. Ég sagði henni það.
Nú gagnast ekki grásalvi, sagði amma. Blóðeitrunin er komin það
langt upp eftir handleggnum.
Svo steig hún aftur á hestbak og fór til læknisins. Hún kom seinna
um daginn og lagðist í rúmið annað hvort til þess að deyja eða vakna
til nýs lífs næsta morgun.
Ég þorði varla að sofa svo annað hvort batinn eða dauðinn færi ekki
fram hjá mér. Amma svaf aftur á móti vært. Hún vaknaði næsta
morgun og leit á handlegginn og ákvað að eitrunin hefði numið staðar
og mundi bráðum liðast úr handleggnum undan nöglunum. Þá steig
30 TMM 1994:1
J