Tímarit Máls og menningar - 01.03.1994, Blaðsíða 74
frá Pisgah (bls. 150). Það var frá Pisgatindi sem Móses leit við andlát sitt
fyrirheitna landið sem hann aldrei komst til. Piparmeyjarnar horfa yfir sitt
fyrirheitna land, sem þær aldrei komast til í þeim skilningi að það er ekki
þeirra land heldur undir stjórn Englands, en þær sundlar svo mikið að þær
geta ekki notið útsýnisins. Þá horfa þær upp á táknið fyrir þetta vald sem
undirokar þær, styttuna af Nelson flotaforingja, sem einnig er tákn fyrir þá
kyngetu karlmanna sem þær hafa aldrei notið. Af þessu fá þær ríg í hálsinn,
sitja sem lamaðar og spýta dauðum plómusteinum yfir borgina. Þær verða
tákn fyrir lömun írsku þjóðarinnar, lömun sem er undirstrikuð með því að
um leið og Stephen lýkur sögunni verður straumrof í Dyflinni og öll umferð
lamast (bls. 149).
Sagan sem martröð
Meginástæða þessarar lömunar þeirra Dyflinnarbúa sem við kynnumst í
Eólosi er þrælbinding þeirra á klafa sögunnar og skrúðmælginnar. Þeir eru
of uppteknir af fyrri affekum þjóðar sinnar til að geta unnið nein afrek sjálfir,
of hugfangnir af mælsku og innantómu orðaskrúði til að geta aðhafst
nokkurn skapaðan hlut. Tvær persónur kaflans eru þó ekki undir þessa sök
seldar — Leopold Bloom og Stephen Dedalus. Bloom er raunsær og hagsýnn
í hugsun, fer sínar eigin leiðir og er ekki hlekkjaður af írsku hugarfari og
írskri sögu. Sem auglýsingasafnari þekkir hann brögð mælskulistarinnar og
veit hvernig þau eru notuð til að blekkja, sér í gegnum þau. Hann er
einskonar útlagi í eigin samfélagi.
Hann getur því orðið andleg föðurmynd og leiðarljós fyrir Stephen sem
er að reyna að losa sig undan þessum hlekkjum. f Eólosi sjáum við greinilega
þær freistingar sem verða á leið Stephens og geta beint honum frá settu marki
ef hann fellur fyrir þeim. Hann hefur sjálfur sagt við Deasy skólastjóra:
„Sagan er martröð sem ég er að reyna að vakna af.“ (bls. 34). Þetta rifjast upp
fyrir honum í Eólosi: „Martröð sem maður vaknar aldrei af,“ hugsar hann
(bls. 138) og er eins og hann sé að missa vonina um að geta slitið sig lausan.
Hann lætur líka heillast af skrúðmælginni (eins og áður er getið) og gælir
við þá hugmynd að stunda hana sjálfur, að beita orðsins list í þágu málstaðar
frlands. Meðan Stephen hlustar á MacHugh horfir hann á reykina liðast upp
af sígarettum tilheyrenda og honum koma í hug orð úr Cymbeline Shakespe-
ares: „Og lát hlykkjótta reykina.“ (bls. 143). Orð þessi eru úr ræðu sem enski
konungurinn heldur í lokin þegar hann gengst fúslega undir vald Rómverja.
Hér er vísað samtímis til þeirrar freistingar sem það er fyrir íra að gangast
fúslega undir vald Englendinga, og þeirrar freistingar sem það er fyrir
Stephen að gefa sig írska málstaðnum á vald sem rithöfundur.
64
TMM 1994:1