Morgunblaðið - 11.03.2015, Page 38

Morgunblaðið - 11.03.2015, Page 38
38 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. MARS 2015 Þegar þú vilt njóta hins besta – steik eins og steik á að bragðast Barónsstíg 11 101 Reykjavík argentina.is Borðapantanir 551 9555 Það þarf engan að undra aðsagan um strákinn BillyElliot hafi slegið í gegnþegar samnefnd kvikmynd var frumsýnd árið 2000 í leikstjórn Stephens Daldrys eftir handriti Lees Halls. Hér er á ferðinni sigursaga stráks sem uppgötvar að hann býr yfir óstjórnlegri löngun til að tjá sig í dansi og fær nauðsynlegan stuðning til að láta draum sinn rætast um að komast inn í Konunglega ballett- skólann þegar ljóst er orðið að hann hefur hæfileikana sem til þarf. Á sama tíma er þetta saga af því hverju faðir er tilbúinn að fórna af hreinni föðurást til að sonur hans geti látið draum sinn rætast. Faðirinn hefur engan skilning á dansinum sem slík- um, en skilur hversu mikilvægur hann er syninum og er því tilbúinn að taka nokkurs konar trúarstökk og styðja hann sama hvað á dynur. Líkt og myndin gerist söngleik- urinn um Billy Elliot árið 1984 á upp- lausnartíma í bresku samfélagi þeg- ar námuverkamenn börðust fyrir störfum sínum í andstöðu við ríkis- stjórn Margrétar Thatcher. Auðvelt er að sjá sterkar hliðstæður milli enskra kolanámuborga og íslenskra sjávarþorpa þar sem ákvarðanir ráðamanna verða til þess að heilu byggðarlögin leggjast af. Samfélags- sagan og barátta verkalýðsins verð- ur mun fyrirferðarmeiri í söng- leiknum en í kvikmyndinni sem helgast vafalítið af því að þannig get- ur allur leikhópurinn miðlað sögunni og tekið þátt í áhrifamiklum dans- og söngatriðum með eðlilegum hætti. Sýningin byrjar af miklum krafti þegar námuverkamenn syngja full- um hálsi á leið sinni upp úr jörðinni. Tónlist Eltons Johns býður kannski ekki upp á marga eyrnaorma, en nær einstaklega vel að skapa ólíkar stemningar milli atriða. Góð tilfinn- ing fæst fyrir róstunum í samfélag- inu sem mynda sterkt mótvægi við ballettskólann sem frú Wilkinson stýrir og áhrifamikið er dansatriðið þar sem námuverkamenn og lög- reglumenn dansa innan um ungar stúlkur í bleikum tútú-pilsum. Mót- vægið við ballettinn fæst ekki í box- inu, líkt og í myndinni, heldur í verkalýðnum og aðstæðum hans. Þannig sækja námuverkamennirnir kol ofan í myrk iður jarðar meðan hæfileikastrákurinn Billy flýgur á vængjum listar inn í ljósið. Hamagangurinn í upphafi verks- ins myndar líka áhrifamikla and- stæðu við fámennari senur þar sem tilfinningarnar ráða ríkjum. Af slík- um senum má nefna samtal Billys við ömmu sína og söngnúmer hennar þar sem hún rifjar upp hjónaband sitt með ofbeldisfullum afanum. Sig- rún Edda Björnsdóttir var yndisleg í hlutverki ömmunnar sem gleymdi öllu í nútímanum en mundi allt úr fortíðinni. Annað áhrifamikið söng- atriði var þegar Billy og frú Wilkin- son sungu upp úr bréfinu sem móðir Billys skrifaði honum áður en hún lést, en móðir hans birtist einnig á sviðinu og tók þátt í flutningnum. Sá söngur fékk tárin til að flæða hjá mörgum í áhorfendasalnum á frum- sýningunni og það alls ekki í síðasta sinn. Sýningin er þannig mjög til- finningarík án þess nokkurn tímann að verða tilfinningasöm eða meló- dramatísk. Jóhanna Vigdís Arnar- dóttir fór afar fallega með hlutverk mömmunnar. Halldóra Geirharðs- dóttir glansaði í hlutverki frú Wilk- inson sem var yfirleitt fremur pirruð og hryssingsleg við dansnemendur sína á sama tíma og hún reyndi að halda uppi stuðinu í tímum. Í sam- spilinu við Billy fékkst mynd af konu sem greint getur kjarnann frá hism- inu og vaxandi væntumþykju hennar í garð Billys gerði Halldóra sérdeilis góð skil. Jóhann Sigurðarson var sannfær- andi í föðurhlutverkinu sem Jackie Elliot. Honum tókst vel að miðla þeirri breytingu sem verður á föð- urnum þegar hann skynjar ástríðu sonar síns og gerir sér grein fyrir að hæfileikar hans geti tryggt honum betra líf. Hilmir Jensson fór vel með hlutverk Tonys, stóra bróður Billys, sem berst á hæl og hnakka fyrir samfélagi sem er að hverfa. Hilmir er orkumikill á sviði og hefur góða söngrödd. Grettir Valsson var frá- bær í hlutverki Michaels, besta vinar Billys. Dansatriðið þegar hann reyn- ir að sannfæra vin sinn um að það sé gaman að klæðast kjól var meist- aralega vel útfært með öllu sínu glimmeri og glysi. Viktoría Rós Antonsdóttir var skemmtileg sem Debbie, dóttir frú Wilkinson, sem sveiflast milli þess að hæðast og hríf- ast af Billy. Senuþjófur kvöldsins var hins vegar hinn fimm ára gamli Hilmar Máni Magnússon sem sýndi ótrúlega nákvæmni í öllu látbragði og bræddi hreinlega hjörtu leikhús- gesta. Uppfærslan stendur og fellur með Billy. Sölvi Viggósson Dýrfjörð, sem lék Billy á frumsýningunni, er líkt og fæddur inn í hlutverkið. Hann hefur mikla útgeislun á sviði, söng afar vel og dansaði eins og engill. Sölva tókst mjög vel að sýna ferðalagið sem Billy fer í gegnum þegar hann þarf að yfir- vinna eigin fordóma gagnvart dansi, en hann er mótaður af samfélaginu þar sem álitið er að ballett sé bara fyrir stelpur og homma. Einnig tókst honum vel að sýna framför Billys á danssviðinu með afar eðlilegum hætti. Hápunkturinn fyrir hlé var þegar Billy fór í vonleysi og reiði yfir aðstæðum sínum að steppa uppi á borði og endaði með því að dansa við hóp lögreglumanna og kastaði sér á skildi þeirra sem sjá má sem tilraun hans til að sprengja utan af sér fjötra samfélagsins. Eftir hlé var áhrifa- mikið að sjá dans Billys við sitt eigið eldra sjálf, sem Karl Friðrik Hjalta- son dansaði frábærlega, og dans hans fyrir dómnefnd Konunglega ballettskólans. Billy Elliot er, ólíkt flestum öðrum söngleikjum, ekki verk með dönsum heldur verk um dans. Eðli málsins samkvæmt á og þarf dansinn því að vera í aðal- hlutverki. Danshöfundurinn Lee Proud á heiður skilinn fyrir áhrifa- miklar og flottar danssenur sem miðla sögunni vel áfram og hreyfa kröftuglega við tilfinningarótum áhorfenda. Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri sýndi hvers hann er megnugur þegar kemur að uppsetningu stórra og flókinna söngleikja þegar Borgar- leikhúsið sýndi Mary Poppins fyrir tveimur árum með miklum bravör. Bergur Þór vinnur, í samstarfi við listræna stjórnendur sína og sam- starfsfólk, sannkallað þrekvirki í uppsetningunni á Billy Elliot. Hér smellur allt saman og skilar sér í stórkostlegri sýningu. Snilldin liggur ekki síst í því hvað allt virðist áreynslulaust, hvort heldur snýr að leiknum, söngnum, dansinum eða umgjörðinni. Leikmynd Petrs Hlou- šeks og búningar Helgu I. Stefáns- dóttur skapa rétta tíðarandann. Senuskiptingar ganga algjörlega snurðulaust fyrir sig þegar leik- myndin rennur líkt og töfrum líkast inn á svið eða upp úr gólfinu. Mynd- bönd Petrs Hloušeks eru notuð með áhrifaríkum hætti, ekki síst þegar heimur Billys bókstaflega splundrast í upptakti að lokadansi fyrir hlé. Lykilþema Billy Elliot snýr að því að sýna hversu mikilvægt er að leggja rækt við hæfileika svo ein- staklingurinn nái að blómstra. Upp- færsla Borgarleikhússins á Billy Ell- iot er skýr vitnisburður um hversu vel fjölmargir foreldrar hafa stutt við börn sín og hvatt þau til að leggja stund á listir hvort heldur er í dans- skólum landsins, tónlistarskólum eða leiklistarskólum. Sú ræktarsemi hef- ur skilað fjölda hæfileikaríkra barna sem fá að blómstra á Stóra sviðinu og eiga án efa eftir að auðga íslenskt menningarlíf mun meira í framtíð- inni. Þar sem hlúð er að hæfileikum Ljósmynd/Grímur Bjarnason Snilld „Hér smellur allt saman og skilar sér í stórkostlegri sýningu. Snilldin liggur ekki síst í því hvað allt virðist áreynslulaust,“ segir m.a. í rýni. Borgarleikhúsið Billy Elliot bbbbb Eftir Lee Hall. Tónlist: Elton John. Ís- lenskun á lausu máli og bundnu: Karl Ágúst Úlfsson. Leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson. Danshöfundur: Lee Proud. Leikmynd og myndband: Petr Hloušek. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Hljóð- hönnun: Gunnar Sigurbjörnsson. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir. Tónlistarstjórn: Agnar Már Magnússon. Leikarar: Sölvi Viggós- son Dýrfjörð, Halldóra Geirharðsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Hilmir Jensson, Grettir Valsson, Sigrún Edda Björns- dóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Karl Friðrik Hjaltason, Halldór Gylfason, Örn Árnason, Álfrún Helga Örnólfsdóttir og fleiri. Frumsýning á Stóra sviði Borgar- leikhússins 6. mars 2015. SILJA BJÖRK HULDUDÓTTIR LEIKLIST

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.