Húnavaka - 01.05.1961, Side 24
22
HÚNAVAKA
Hann settist við hlið hennar. Þau þögðu bæði nokkra stund, svo
sagði hún og horfði í augu hans.
— Þú ert þreytulegur í kringum augun, Mikki.
— Já, ég hef haft það erfitt.
Hún sagði ekkert heldur starði út í bláinn og virtist annars hugar.
Hann hélt áfram.
— Það hefur verið erfitt síðan konan mín fór frá mér. Eg hef orð-
ið að vera börnunum bæði faðir og móðir.
— Af hverju fór konan þín, hvíslaði Lola.
— Ég var slæmur eiginmaður. Ég drakk og svallaði. Að endingu
gafst konan mín upp. Hún fór eitthvað burtu, hún hreinlega hvarf.
Fljótlega fann ég að ég gat ekki án hennar verið. Viku seinna fór
ég að leita að henni, ekki aðallega mín vegna, heldur barnanna. Við
áttum sex ára dóttur og þriggja ára son. Þau vantaði móður. Þeirra
vegna fór ég til Parísar, að leita konu minnar. Nú er ég hættur að
drekka, og hef heitið að drekka ekki framar.
— Hefurðu leitað lengi?
— 1 mánuð hef ég leitað um París, en nú ætla ég heim að heilsa
upp á börnin.
— Hefur þér ekki dottið í hug að færa börnunum nýja móður.
— Ég hef hugsað það mál, en ekki komizt að niðurstöðu. Vegna
peninganna minna, get ég auðveldlega náð mér í konu, en hvort það
yrði á heppilegum grundvelli, skal ég ekki fullyrða. Mig vantar ekki
konu til að fara með mér í veizlur, eða sýna sig með mér á baðströnd-
inni. Mig vantar ekki gleðikonu. Mig vantar konu, til þess að vera
móðir barnanna, konu, sem ég jafnframt get elskað. Ég vil ekki kaupa
hana.
Lestin brunaði áfram, myrkrið færðist yfir. Það var orðið skugg-
sýnt í klefanum, og hvorugu datt í hug að kveikja. Mikki talaði hægt
og með löngum þögnum. Lola hlustaði á með athygli. Þau voru kom-
in þétt saman, og héldust í hendur. Hann fann að það datt tár ofan
á hönd hans, þá tók hann utan um axlir hennar og hallaði henni að
sér.
Ekki gráta Lola, ég er ekki þess virði að grátið sé út af mér.
— Ég er svo viðkvæm Mikki. Ég hef samúð með þér, og ég held að
það hafi ekki verið þín sök, að konan þín fór frá þér. Ég held að
hún hafi ekki verið góð eiginkona, ekki umburðarlynd og tillitssöm.
- Jú, Lola, ég átti góða konu, en hún átti slæman mann.