Húnavaka - 01.05.1966, Page 63
INGÓLFUR JÓNSSON frá Prestbakka:
Jrfaustlaufin falla
Fallandi lauf og fölgrár himinn,
— flogin er heiðlóa um sæ,
hrímperlur kaldar daggir dala,
drifhvítum skarta tindar snæ.
September-dagur dvelur í landi,
dimmur og kaldur í sveit og bæ.
Nú eru sumarsins söngvar allir
sungnir að fullu, bróðir kær.
Nú sigla ekki lengur sólfleyin okkar
á svifléttum skýjum nær og fjær,
því vetrarkvíðinn um völdin situr,
hann vakir og bíður unz marki nær.
Nú vefja skuggarnir vængina svörtu
um víðáttu hvolfsins og byrgja sýn,
og margir þeir, sem lögðu frá landi,
þeir liggja í vari, unz myrkrið dvín,
en aðrir villast á vegleysum hafsins
og vita ekki leiðina heim til sín.
Og svo kemur vetur, og valkesti hleður
úr vonum, er sumarið ól,
en vængfarar smáir, sem villast í stormi,
þeir vita þó oftast um skjól.
Og bíðum rólegir, bróðir, að lokum
mun birta að nýju frá sól.