Húnavaka - 01.05.1966, Page 92
90
HÚNAVAKA
eyðileggja kvöldið hans og hennar. Hann var orðinn hífaður, sæll
og sigurglaður.
Hann tróðst inn í salinn. Kunningi hans úr Samlaginu, sem sat
einn við borð benti jreim að koma. En sú heppni, ekki hafði hann
pantað borð.
Þessari nótt gleymdi Jói aldrei meðan hann lifði. Þetta var nótt
allra nótta. Morguninn eftir var grár, eða jafnvel svartasti morg-
unn í lífi hans. Samt sat hún við hlið hans í bílnum og hallaði
höfðinu að öxl hans. Jói fann til, eins og hnífur væri rekinn í hjarta
hans. Hann var að skila henni heim. Þórður myndi halda áfram að
horfa á hana eins og kindurnar sínar. Hann yrði að láta sér nægja
að koma að Stað og mæna á hana. Þannig yrði Jrað alltaf. Bara hann
ætti hana, en ekki Þórður.
Þegar þau renndu í hlaðið á Stað, sagði Jói: Mig langar ekki í
kaffi núna. Komdu seinna, elsku Jói. Þakka þér fyrir samveruna
vinur. Báðar mjúku hendurnar hennar lukust um óhreina hendi
hans. Þegar hann leit á hana, sá hann síðast brosið. Það myndi
fylgja honum alla hans ævi. Bíllinn rann niður afleggjarann og út
á veginn. Auglýsingin á hliðarglugganum hafði rifnað og blakti í
morgunkælunni. Jói reif hana niður og kastaði henni reiðilega út
um opna gluggann. Vindurinn tók hana og lék sér að henni, unz
hún hvarf ofan í skorning við veginn. Bíllinn hans Mjólkur-Jóa
hnaut á hörzlinu og braut skænið á pollunum. Það vottaði fyrir hol-
klaka í lægðunum. Vorið var áreiðanlega í nánd.