Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Blaðsíða 60
tonn af kolum.36 Í umræðum á Alþingi um Tungunámuskýrsluna er hins
vegar talið að teknar hafi verið úr henni 1430 smálestir af kolum. Þar
kemur fram að langmest af þeim fór annars vegar til Reykjavíkur, 310
tonn, og hins vegar í byggðirnar næst námunni. Í Þingeyjarsýslu fóru 300
tonn og Eyjafjarðarsýslu og Akureyri 275 tonn. Því næst koma Skaga-
fjarðar sýsla og Norður-Múlasýsla með 60-65 tonn, Húnavatnssýsla með
35 og Suður-Múlasýsla með 15.
Náman var rekin fram á haust 1918 en ekki er ljóst hvenær vinnslu var
formlega hætt.
Köld vist en sæmileg
Víkjum nú að námunni sjálfri og þeirri starfsemi sem þar fór fram.
Eitt fyrsta verkið var að reisa hús fyrir starfsemina. Það þurfti að hýsa
verkamennina og verkstjórann, vera matsalur, skrifstofa og geymsla fyrir
verkfæri og annað sem þurfti til rekstursins. Auk þess þurfti að smíða
bryggju svo hægt væri að skipa kolunum út.
Egill Sigurjónsson tók í fyrstu að sér að byggja hvort tveggja fyrir
námuna og samkvæmt fyrstu áætlun átti að reisa skúr sem væri 8-10 álnir
og klefa fyrir utan fyrir kolaeldavél. En þær áætlanir áttu eftir að breytast.
Á endanum var það Einar Erlendsson trésmíðameistari sem byggði húsið
og var það fullgert í síðari hluta janúar 1918. Þá var það 13 x 17 m á
lengd og breidd, 4 m á hæð og klætt tjörupappa. Kjallari var undir, 5 x 8
m og 2 m hár, hlaðinn úr grjóti. Hann var með einu timbur skilrúmi og
gólf steypt að hálfu. Á húsinu voru 16 gluggar. Við aðra hlið hússins var
skúr, 4 x 4 m og 2 m hár. Á honum voru tveir gluggar. Húsið skiptist í
eina borðstofu, 5 x 6 m á stærð, 11 íveruherbergi og gang. Það var þiljað
með panel og var pappi á milli. Í húsinu voru þrír reykháfar hlaðnir úr
steyptum steinum, átta ofnar og þrjár eldstór. Vatnsleiðsla var í húsinu og
skolprenna frá því. Það var virt að brunabótamati á 33 þús. kr. en kostaði
40.151 kr. fullbyggt.37 Þegar mest var um að vera í Tungu námu urðu
þó sumir verkamannanna að búa í tjöldum eða vista sig á nær liggjandi
bæjum, Ísólfsstöðum, Hringveri og Ytri-Tungu.38
Að jafnaði unnu 35 til 40 manns við námuna en þeim fækkaði nokkuð
eftir að vegamálastjóri tók við rekstrinum. Samkvæmt úttekt Alþingis fyrir
umræðurnar 1918 höfðu verkamenn við námuna 60 til 70 aura á tímann
eða 6-7 kr. á dag um sumarið en kaupið lækkaði um veturinn niður í 50
aura á tímann að meðaltali. Auk þess fengu þeir ókeypis fæði, þjónustu
og húsnæði. Að mati skýrsluhöfunda var fæðis kostnaður 3,20 kr. á dag.39
Theódór Friðriksson segir að nokkur munur hafi verið á kjörum þeirra
HOLLUR ER HEIMAFENGINN BAGGI 59