Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Blaðsíða 170
GUÐMUNDUR ÓLAFSSON
BALDURSHEIMSKUMLIÐ OG
TEIKNINGAR ARNGRÍMS
GÍSLASONAR
Á árunum 1860 og 1861 blés upp fornt kuml á holti austan við bæinn
Baldursheim í Mývatnssveit. Að frumkvæði Sigurðar Guðmundssonar
málara, sem langaði til þess að fá nánari upplýsingar um fundinn, fór
Arngrímur Gíslason þangað til að kanna staðinn og teikna myndir af
gripunum sem komið höfðu í ljós. Arngrímur skrifaði skýrslu um ferð
sína og birti Sigurður frásögnina með athugasemdum í Þjóðólfi 1862.1
Frásögn Arngríms af fundi og fundaraðstæðum er mjög skilmerkileg og er
endurbirt hér:
„Vorið 1860 fundust í Baldrsheimi við Mývatn leifar af dysi (að
öllum líkindum frá heiðni); það er blásið upp úr holti hérumbil 200
faðma beint austr frá bæjardyrum, og sást fyrst höfuðkúpa af manni sem
er 17 þuml. að hríngmáli og fanst þá um leið spjót, sjá myndina nr. 11;
en vorið eptir nl. 1861 fanst sverð mjög riðgað, sjá nr. 2; Var þá farið
að grenslast eptir meiru (en því miðr af eptirtektalitlum únglingum),
og var því óreglulega mokað upp dysið, svo ekki verðr sem nánast sagt
frá, hvernig leifar þessar litu út. Dysið snýr frá austri til vestrs, höfuð í
austr, svo beint horfði móti dyrum, og spjótið til hægri handar, og tafl.
sjá nr. 3, og 24 beintöflur, sjá nr. 4; líka lítr út fyrir, að skjöldr hafi legið
til þeirrar handar, og sjást ekki aðrar leifar hans, en naglar, og lítið eitt af
tré í kring.
Til vinstri handar lá sverðið, og sneri oddr niðr; nokkur smástykki
komu þar af járni, er auðsjáanlega eru af umgjörð meðalkaflans, slétt en
bjúg, með lítið barð á röndinni. Sverðið hafði verið í tréslíðrum. Og
sjást leifar þess utan á sverðinu báðu megin, hjá því lá lítið brýni með
gati í annan enda og lítil glertala brotin, með gyllingu auðsjáanlegri.
Beinin lágu rétt, handleggir niðr með hliðum og fætr réttir, og má kalla,