Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Blaðsíða 93
grein hafði hann reynt að fá birta í Safni til sögu Íslands, enda þótti honum
hún eiga vel þar heima við hlið ritgerðar dr. Finns. Var því ljúfmannlega
tekið af landsskjalaverði, Jóni Þorkelssyni, en mætti hinsvegar mikilli
mótspyrnu annarstaðar frá að sögn Margeirs.29
Það er athyglisvert að skoða hver hefur verið kveikjan að skrifum
Margeirs. Hann hafði sýnilega orðið fyrir áhrifum frá grein Finns og
taldi mikilvægt að skýra merkingu bæjanafna. Þó segir hann ekki síður
mikilvægt að sporna við afbökun hinnar íslensku tungu: „Ýmislega
undin og aflöguð bæjaheiti finnast mér vera áþekk óhreinum blettum á
fögrum búningi móðurmálsins, blettum, sem ætti að ná sem allra fyrst
burtu.“30 Sem dæmi um þetta nefnir hann þegar fólk segir Grillir en
ekki Grindill, Böggustaðir í staðinn fyrir Böggvisstaðir og Ossabær fyrir
Vorsabær. Þarna er semsagt aðallega um að ræða latmæli, reyndar á
bæjanöfnum sem líklega eru flestum ill- eða óskiljanleg. Annars konar
nöfn minnist Margeir sérstaklega á sem honum finnast ljót, andstyggileg
og jafnvel meiðandi fyrir sanna siðgæðistilfinningu. Flest þeirra eru nöfn
á smákotum eða afbýlum, til að mynda Geldingur, Rembihnútur, Rass,
Snússa, Víti og Viðbjóður. 31 Hann telur að slíkum nöfnum ætti hiklaust
að breyta og oft var það reyndar gert í seinni tíð. Má til gamans geta þess
að árið 1937 var Snússunafninu breytt í Ásatún.32
Aflaganir taldi Margeir að ættu ekki að fá að festast í málinu, enda
væri viðbjóðslegt ósamræmi í slíku, „líkt og saur á svanafjöðrum“.33
Sömuleiðis vildi hann sporna við rangri beygingu og tölu bæjaheita,
jafnvel nokkurra sem fyrir löngu voru orðin föst í málinu eins og Giljar
og Fjósar. Margeir taldi að flestar þessar óhæfur og afbakanir hefðu orðið
til á krappasta kúgunartíma þjóðarinnar og mótist af rænuleysi og deyfð.34
Þannig einkennast verk Margeirs af fagurfræðilegri mál tilfinningu, mál-
hreinsunarstefnu og ættjarðarást.
Ritgerð Margeirs um torskilin bæjanöfn var sett upp á mjög læsilegan
hátt og fékk hvert bæjanafn sem hann tók til skýringar sinn kafla,
yfirleitt a.m.k. eina blaðsíðu. Fyrsta ritgerðin, sú sem birtist í Íslendingi,
virðist hafa náð nokkrum vinsældum. Var gefin út sérprentun af henni
auk þess sem Margeir hélt rannsóknum sínum áfram þrátt fyrir fjárskort
og takmarkaðan aðgang að heimildum. Síðasta ritið kom út árið 1933
og þá voru þau orðin alls fjögur talsins. Þá hafði Margeir fjallað um tor-
skilin nöfn í Eyjafirði, Húnavatnsþingi, Skagafirði og Þingeyjarsýslum.
Hér er aðeins rúm til að gera grein fyrir nokkrum af skýringum hans.
Sumar þeirra eru orðsifjalegs eðlis, t.d. útskýrir hann að Ríp geti merkt
‚hamar‘ eða ‚klöpp‘ og Seyla geti verið ‚kíll‘ eða ‚kelda‘.35 Aðrar
92 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS