Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Blaðsíða 117
116 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
valdamikils höfðingja sem var hátt settur í þjóðfélaginu – slíkar ályktanir
hafa verið dregnar af öðrum skálum erlendis sem á sama hátt voru
óvenjulega stórir, til dæmis Borg í Lófóten í Noregi6 eða Lejre (Hleiðru)
á Sjálandi í Danmörku.7 Hins vegar eru gripir þeir sem fundist hafa á
Hofstöðum fremur venjulegir – þar hefur hvorki fundist mikill fjöldi
gripa né mikið af mjög óvenjulegum eða dýrmætum gripum, svo sem
innfluttum gripum, eins og vænta mætti þar sem búið hefði fólk sem var
hátt sett í þjóðfélaginu. Þetta ósamræmi vekur upp spurningar, einkum
um stöðu byggðarinnar á Hofstöðum í þjóðfélagi þess tíma.
Þeim spurningum verður ekki svarað með því að horfa á Hofstaða-
minjarnar út af fyrir sig, heldur verður að setja þær í stærra samhengi
við aðrar minjar. Sem betur fer er það hægt, þar eð frá því nokkru fyrir
2000 hefur verið unnið að viðamiklu rannsóknarverkefni um landnám
og menningarlandslag. Innan þess verkefnis hafa aðrir minjastaðir í
Mývatnssveit verið skipulega kannaðir, þar á meðal hafa fimm aðrir bæir
verið kannaðir með uppgrefti, að mismiklu leyti (Sveigakot, Hrísheimar,
Höfðagerði, Selhagi og Steinbogi). Með því að skoða saman niðurstöður
uppgraftarins á Hofstöðum og þessi býli, aldur þeirra, staðsetningu,
af komu og efnismenningu, mun fást mun fyllri mynd en hægt er að öðlast
á annan hátt.
Rannsóknirnar á Hofstöðum hófust sem hluti af verkefni þar sem verið
var að skoða og meta vitnisburð fornleifa um heiðin hof. Segja má að það
fari vel á því að þessar rannsóknir hafi breytt um stefnu og farið að snúast
um mun fjölbreyttari efni. Samt virðast Hofstaðir mjög óvenjulegir, eins
og Daniel Bruun áttaði sig á fyrir heilli öld og því kann enn að vera líf
í „hofkenningunni“ – en kannski ekki eins og hún var upphaflega sett
fram. Þegar litið er til tímasetningar rústanna á Hofstöðum – sem ná yfir
„þúsaldamótin“ 1000 – gæti staðurinn hafa gegnt mikilvægu hlutverki í
pólitískum átökum milli heiðinnar og kristinnar hugmyndafræði.
Slíkar hugmyndir hafa verið settar fram um Borg í Lófóten.8 Ef til vill
er það ekki tilviljun að þegar skálinn var loks yfirgefinn skuli bæjarhús
reist að nýju og bænhús þar hjá – spottakorn frá heiðnu minjunum.
Frekari rannsóknir á þeim stað gætu varpað frekara ljósi á það mál.
Þýðing: Mjöll Snæsdóttir.