Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Blaðsíða 154
var í nýju útgáfunni enskur útdráttur. Adolf hefur auk þess rannsakað
staðfræði kumla. Frá því 1998 hefur Hildur Gestsdóttir rannsakað bein
úr bæði heiðnum kumlum og kristnum gröfum til að skrá margvíslegar
upplýsingar um þau, bæði aldur, kyn og sjúkdóma og er einnig að vinna
að rannsókn þar sem gerð er greining á ísótópum í beinagrindum. Einnig
eru hafnar ýmsar aðrar rannsóknir, svo sem á fæði og uppruna þessa fólks,
svo enn eru grafir mikilvægt rannsóknarefni.
Kyn og kyngervi meðal varðveittra fornleifa
Hér á eftir verður orðið ‚kyn‘ notað um líffræðilegt kyn einstaklings
sem ráðið verður af mannabeinaleifum. Margvíslegt gagn má hafa af því
að kyngreina beinagrindur og slíkri greiningu er oftar slegið fastri en
gögnin í raun gefa tilefni til. Ýmiss konar ályktanir hafa verið dregnar
af kyngreiningu sem byggir á haugfé og einnig er oft reynt að álykta
um þjóðfélagsstöðu, virðingarröð og verkaskiptingu út frá kynferði. Þess
vegna er mikilvægt að muna að greina milli líffræðilegs kyns og kyngervis.
Líffræðileg kyngreining einstaklinga getur aðeins gefið okkur hluta af
skilningi á því þjóðfélagi sem verið er að rannsaka. Slíkar upplýsingar gera
rannsakandanum kleift að spyrja spurninga sem leiða til aukins skilnings
á tengslum innan þjóðfélagsins. Kynferði einstaklingsins eitt og sér veitir
ekki vitneskju um stöðu, skyldur, tign eða virðingu í sam félaginu. Þær
upplýsingar einar gefa ekki heldur sýn á menninguna í heild. Með því
að notast bæði við kyn og aðra þætti, má vonast til að í ljós geti komið
munur á kyngervum sem byggð eru á kyni og það geti ef til vill varpað
frekara ljósi á það hve mörg kyngervi þekktust í hinu íslenska samfélagi.
Í yfirlitsriti Kristjáns Eldjárns (2000) kemur fram að þá voru þekktir
157 greftrunarstaðir frá því fyrir kristni og þar höfðu alls verið heygðir
yfir 320 manns. Hildur Gestsdóttir (1998a) hefur skoðað bein frá þessu
tímabili og skiptust þau eins og hér segir milli kynja: 48 karlar (25,4%) og
19 konur (10,0%) voru greind til kyns með vissu. Þá voru 27 beinagrindur
taldar líklega karlar (14,3%) og 14 líklega konur (7,4%). Greining þeirra
beinagrinda sem vafi leikur á byggist á því að þær bera flest einkenni sem
nauðsynleg eru til kyngreiningar. Í 75 kumlum (39,7%) var ekki hægt að
greina beinaleifarnar til kyns. Í meira en 2/3 tilfella stafaði óvissan af því að
minna en 30% beinagrindarinnar voru varðveitt. Að lokum voru 6 kuml
(3,2%) ekki tekin með af því að annað hvort var staðsetning þeirra ekki
þekkt eða upplýsingar um hana of ónákvæmar til að notast mætti við þau
hér. Þessi ógreinanlegi flokkur (41%) er þó mjög fróðlegur og væri mjög
gagnlegt ef hægt væri að greina eitthvert mynstur innan hans. Ef sjá mætti
KUML, KYN OG KYNGERVI 153