Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Blaðsíða 157
verið frá venjubundnum kynhlutverkum. Það er ekki hægt að útiloka það
að vopn kunni að finnast í kvenkumli eða snældusnúður í karlkumli.8 Til
dæmis, eins og Stalsburg bendir á í rann sókn sinni á kumlum norrænna
kvenna, var talið árum saman að verslun hafi eingöngu verið stunduð af
körlum. Ástæðan var sú að viðskipti við ókunnuga og ferðalög voru talin
of hættuleg fyrir konur, og það væri í verkahring karla en ekki kvenna að
sjá um varning og greiðslur. Nú hafa rannsóknir Stalsburg greinilega sýnt
fram á hið gagnstæða þar eð lóð og metaskálar finnast í fjölda kvenkumla.9
Ef notast er við fornleifafræðilega greiningu og nútímahugmyndir getur
það breytt mjög túlkun þessara gagna.
Af þeim íslensku gögnum sem fyrir liggja virðist mega sjá greinilegt
samband milli kvenkumla og ýmiss konar skartgripa (þ.e. sörvistölur,
nælur, prjónar o.s.frv.). Þó eru nokkrar undantekningar frá þessu mynstri.
Til dæmis er vitað um 3 kuml karla sem í voru a.m.k. 3 sörvistölur eða
fleiri. Í einu kumlinu voru 14 sörvistölur og í öðru 28, sem er töluverður
fjöldi. Þetta er greinilega ekki í samræmi við venjulegar hugmyndir um
slíka gripi í kumlum karla. Þetta gæti þótt mikill fjöldi af sörvistölum í allt,
en reyndar eru bara 47 sörvistölur í karlkumlum á Íslandi eða 5,3%. 432
sörvistölur hafa fundist í kumlum kvenna (49,1%) og 400 sörvistölur hafa
fundist í kumlum þar sem ekki var hægt að kyngreina beinin (45,6%).10
Þetta ætti samt að verða til þess að fræðimenn hugsi sig tvisvar um áður en
því er slegið föstu að meira en 3 sörvistölur í kumli hljóti að þýða að það
sé kuml konu. Sama má segja um vopn, ekki er víst að þau séu ævinlega
í kumlum karla, og má íhuga hve vel sú hugmynd fellur að íslensku
kumlunum. Ef sverð eru svo örugg vísbending um karlkuml, af hverju
eru þá aðeins 16 dæmi um sverð meðal a.m.k. 75 karlkumla? Aðeins 4 af
þeim 16 sverðum sem fundin eru í kumlum lágu með beinum sem hægt
var að greina. Bara í tveimur tilfellum var hægt að greina beinagrindurnar
sem karla, í hinum tveimur voru þau ógreinanleg. Svipað má segja um
meira en 50 spjótsodda sem fundist hafa í kumlum. 21 var í kumlum þar
sem voru beinaleifar til að rannsaka. 10 voru greind sem karlkuml, 1 sem
kvenkuml og þau 10 sem eftir voru urðu ekki greind til kyns. Eins er
með axir, 9 hafa fundist í kumlum, þar af voru 5 beinagrindur karla og
4 ógreinanlegar. Stundum er ranglega litið svo á að hnífar séu gripir sem
einvörðungu tilheyra körlum og ekki hugsað til margvíslegra nota sem
konur geta einnig haft fyrir slíka gripi. Meðal íslenskra kumla má finna 12
karla og 5 konur með hnífa. Nú má benda á að það getur verið efnahagur
landsins sem endurspeglast í því hve vopn eru fá, til dæmis gætu sverð hafa
gengið í arf í stað þess að vera grafin með eiganda sínum. Ljóst virðist þó,
156 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS