Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Blaðsíða 90
Um Beitistaði: „Beiti-, eflaust nafnið Beitir.“17
Um Selstaði: „af mannsn. selr (viðurnefni).“18
Um Kukkstaði: „svo er ritað á báðum stöðum í AM [Jarðabók Árna
Magnússonar] (J hefur á öðrum staðnum Kúk-, á hinum Kúkshús eftir
AM, en það er rángt), og kemur því af kukkur, sem ef til vill er s. s.
kúkur, sbr. nýno. kukka (= kúka), og er því eflaust viðurnefni.“19
Niðurstaða Finns, sem hann gaf sér reyndar fyrirfram ef marka má formála
kaflans, er sú að fyrri liðir staðanafna séu að langmestu leyti nöfn manna
og kvenna eða viðurnefni. Er viðurnefnaflokkurinn jafnvel ennþá stærri
og mætti kalla hann afgangsflokk, þ.e. örnefni sem erfitt er að skýra á
nokkurn annan hátt fá þann dóm að vera líklega dregin af viðurnefnum.
Hér verður að geta þess að árið 1907 hafði komið út löng ritgerð eftir
Finn, „Tilnavne i den islandske oldlitteratur“.20 Þar flokkaði hann
viðurnefni sem finnast í fornritum eftir merkingu. Þannig var einn flokkur
fyrir ættartengsl (t.d. amma, drengjamóðir, Aðalsteinsfóstri), annar fyrir
aldur (forni, gamli) og þriðji fyrir fæðingarstað (álfdæll, jamti). Ljóst er af
hinu stóra viðurnefnasafni Finns að flokkurinn er ekki aðeins fjölbreyttur
heldur jafnvel sundurleitur. Finnur taldi að þau viðurnefni sem varðveist
hefðu í sögunum væru aðeins brot af þeim sem hefðu raunverulega verið
til. Þótt hann fjalli ekkert um örnefni í grein sinni um viðurnefni sést að
þær vangaveltur hafa haft mikil áhrif á örnefna skýringar hans.
Þrátt fyrir að grein Finns um íslensk bæjanöfn sé barn síns tíma og
lituð af hugmyndum úr skyldum fræðum telst hún merkt frumkvöðlaverk.
Hann reyndi fyrstur manna að flokka nöfnin og benti að auki á ýmislegt
áhugavert hvað varðar ójafna dreifingu þeirra, t.d. að merkilegt sé hve
gerðisnöfn séu algeng á Norðurlandi og Kirkjuból mörg á Vestfjörðum.21
Þetta varð vafalaust innblástur fyrir fræðimenn sem á eftir komu, t.d. ritaði
Ólafur Lárusson seinna bæði um Kirkjuból og byggðanöfn, m.a. gerði.22
Deilur Hannesar Þorsteinssonar og Finns Jónssonar
Í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1923 birtist hátt í 100 síðna
grein eftir Hannes Þorsteinsson sem þá var aðstoðarmaður í Þjóð-
skjalasafni en varð þjóðskjalavörður árið eftir. Langur og ítarlegur
formáli er að greininni þar sem Hannes útskýrir aðdraganda verksins.
Jarðaryfirmatsnefndin hafði upphaflega komið að máli við Guðmund
Helgason, fyrrum prófast í Reykholti, og beðið hann að athuga íslensk
bæjaheiti. Tilefni þess var útgáfa á nýju jarðamati, Fasteignabókinni, sem
tók gildi 1922. Verkefnið fólst í að rannsaka gömul skjöl og heimildir og
BÆJANÖFN BROTIN TIL MERGJAR 89