Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Page 10
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 201510
VEGFERÐ TIL FULLORÐINSALDURS
regnhlífarhugtakinu „transition to adulthood“; hér verður notað íslenska hugtakið
vegferð til fullorðinsaldurs. Nefndar breytingar hafa orðið með ólíkum hætti meðal
ólíkra þjóða og athuganir á þeim hafa byggst á ólíkum hefðum ólíkra landa. Í ritum
sem birt eru á alþjóðlegum vettvangi er mjög misjafnt til hvaða hefða er vísað þannig
að ekki hefur skapast nein almennt viðurkennd afmörkun alþjóðlegrar umræðu.
Vegferðarhugtakið var upphaflega mótað innan ungmennafræða til að skýra breytta
för ungmenna úr skóla og í vinnu (Roberts, 1968) en smám saman fóru rannsakendur
að tengja þá för við fleiri þætti, svo sem aldur við fyrstu kynlífsreynslu, fyrstu sambúð
og fyrstu barneign, eðli og vægi jafningjatengsla, kyngervi og samfélagslega þátttöku
(Bynner, Chisholm og Furlong, 1997). Við þróun þessara fræða tóku rannsakendur
snemma að efast um að fólk almennt, og einkum þó ungmenni, færi í beinu línulegu
ferli frá einu æviskeiði til annars. Skilin milli skeiða hafi orðið óljós og æ fleiri taki þau
í „vitlausri röð“ eða fari á einhverju tímabili eins og jójó-kefli frá einu skeiði til annars
– stofni kannski heimili ung, en flytji síðan aftur heim til foreldra, eða komi sér fyrir
á vinnumarkaði en fari síðan í nám aftur o.s.frv. (du Bois-Reymond, 1998). Til að geta
lýst síbreytilegu samspili ólíkra þátta í breytilegu lífshlaupi ungmenna í samfélagi
sem breytist hratt þarf sífellt að grípa til nýrra hugtaka og nýrra skilgreininga á eldri
hugtökum, og þættir úr eldri nálgunum hafa oft verið endurvaktir. Vegferðarhugtakið
hefur þó enst vel sem afmarkandi regnhlífarhugtak.
Á Íslandi hafa töluverðar ungmennarannsóknir verið gerðar, einkum undanfarinn
aldarfjórðung. Í flestum þeirra eru mjög afmörkuð atriði skoðuð, og sum þeirra
tengjast spurningum um vegferð, en þær hafa ekki verið settar í samhengi við
breiðari rannsóknarhefðir vegferðar. Hér verður reynt að kynna og ræða ýmsa
helstu strauma á sviði vegferðarrannsókna en efnið er margflókið, og ekki hægt að
benda á ótvíræða kenningaskóla. Því ber að líta á greinina sem tilraun höfundar til
að draga upp heildstæða mynd. Í samantekt og umræðu verður leitast við að draga
fram þær hefðir sem hafa haft mest áhrif, en einnig er bent á minna þekkt skrif sem
greinarhöfundur telur hafa mikið fram að færa. Við könnun sína á umfjöllun hins
alþjóðlega vísindasamfélags um þetta efni hefur greinarhöfundur ekki fundið grein
eða bók þar sem finna má jafn breitt yfirlit yfir vegferðarrannsóknir og í þessari grein.
Greinin hefst á stuttum kafla um ungmennarannsóknir almennt, fram á níunda
áratug 20. aldar, með áherslu á kenningar og rannsóknarhefðir sem síðan hafa þróast
áfram í vegferðarrannsóknum. Þá verður sjónarhornið þrengt og því beint að þróun
vegferðarrannsókna á síðustu 50 árum. Í sérstökum kafla verður loks sérstaða Íslands
og mikilvæg rannsóknarverkefni í ljósi vegferðarkenninga íhuguð, og að lokum
dregnar nokkrar ályktanir.
ÖLD UNGMENNA – RANNSÓKNIR Á FRÁVIKUM,
MENNINGU OG VEGFERÐ UNGMENNA Á 20. ÖLD
Langt fram eftir 20. öld voru rannsóknir á börnum og ungmennum að mestu gerðar
innan vébanda uppeldisfræði, sálfræði og félagsfræði og einkum leitast við að greina
eðlilegan, normatífan þroska og helstu frávik frá honum. Á síðustu áratugum hefur