Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Síða 139
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015 139
SIGRÚN AÐALBJARNARDÓTTIR
Með framboði á þessari námsleið í upphafi var brugðist við þeirri umræðu á sviði
menntamála að mikilvæg forsenda skólaþróunar væri að meta skólastarf. Áhersla á
sjálfsmat skóla var meðal annars sett í lög um grunn- og framhaldsskóla árin 1995 og
1996 (Lög um framhaldsskóla nr. 80/1996, VIII. kafli. Námskrár og mat 21. og 23. gr.;
Lög um grunnskóla nr. 66/1995, 49. gr.). Innan uppeldis- og menntunarfræðiskorar
voru því vonir bundnar við að fjöldi fólks sækti sér menntun á þessu sviði. Sú reyndist
þó ekki raunin. Umsóknir ár hvert voru ekki margar en eftirspurn hélst þó stöðug.
Háskólaárið 2001–2002. Ýmsar breytingar á meistaranáminu voru ræddar á næstu
tveimur árum og komu til framkvæmda háskólaárið 2001–2002 (Háskóli Íslands, 2001,
bls. 162–168). Markmið námsins var jafnframt víkkað út:
Markmið námsins er að efla faglega þekkingu og færni á sviði uppeldis- og mennta-
mála á Íslandi með því að búa fólk undir rannsóknar- og þróunarstörf og ýmis störf
á sviði fræðslu-, stjórnunar- og menntamála (bls. 162).
Auk 120e MA-náms með áherslu á rannsóknarfærni var í fyrsta sinn boðið upp á 90e
meistaranám til M.Ed.-gráðu sem var starfsmiðað (lokaritgerð a.m.k. 30e). Í boði voru
þrjú áherslusvið eða námsleiðir til þeirrar gráðu, Mat og þróunarstarf, og tvö ný svið,
Fræðslustarf og stjórnun og Kennslufræði og námsefnisgerð.
Námsleiðin Fræðslustarf og stjórnun var „ætluð fólki sem vinnur við eða hefur
áhuga á að skipuleggja, stýra og meta fræðslustarf og stjórnun í skólum, stofnunum
eða fyrirtækjum“. Markmiðið var: „að nemar öðlist þekkingu og hæfni í að skipuleggja
fræðslu og verði færir um að hafa umsjón með og stjórna fræðslustarfsemi fyrir margs
konar stofnanir“ (Háskóli Íslands, 2001, bls. 163). Tildrög þessa áherslusviðs voru þau
að mikil eftirspurn var eftir liðsinni nokkurra kennara uppeldis- og menntunarfræði-
skorar við að byggja upp fræðslustarf fyrir starfsfólk og þá ekki aðeins í skólum heldur
einnig ýmsum stofnunum og fyrirtækjum. Sýnt þótti því að þörf væri á námsleið á
þessu sviði og var hún vel sótt. Meðal nýmæla var námskeiðið „Konur og karlar sem
leiðtogar og stjórnendur“, sem var eftirsótt innan deildar sem utan.
Kennslufræði og námsefnisgerð, sem var hitt áherslusviðið, var „ætluð til að koma
til móts við vaxandi þörf fyrir sí- og endurmenntun kennara“. Markmiðið var „að gefa
kennurum (og/eða öðrum þeim sem starfa að fræðslu) tækifæri til að fylgjast með
þróun í kennslu sérgreinar sinnar, að kynnast kennslufræði fjarkennslu og kynna sér
helstu leiðir og hindranir í þróunarstarfi“ (Háskóli Íslands, 2001, bls. 163). Tilgangur
námsleiðarinnar var annars vegar að koma til móts við þá framhaldsskólakennara
sem höfðu áhuga á að auka kennslufræðilega þekkingu sína og hins vegar þótti brýnt
að bjóða upp á nám á sviði námsefnisgerðar þar sem námsefnisgerð kennara hafði
færst í vöxt.
Jafnframt var tekin upp sú nýlunda háskólaárið 2001–2002 að bjóða 30e Dipl.Ed.
framhaldsnám. Vakin var sérstök athygli á því að námið til Dipl.Ed.-gráðu væri hægt
að fá metið inn í meistaraprófsnám í greininni (Háskóli Íslands, 2001, bls. 162).
Auk almenns MA-náms í uppeldis- og menntunarfræði (120e) voru því skólaárið
2001–2002 þrjár námsleiðir í boði bæði til M.Ed.-náms (90e) og Dipl.Ed.-náms (30e),
þ.e. Fræðslustarf og stjórnun, Kennslufræði og námsefnisgerð og Mat og þróunarstarf.