Dagblaðið Vísir - DV - 20.08.2010, Síða 12
12 fréttir 20. ágúst 2010 föstudagur
Konu, sem tengdist Hjálmari W. Hannessyni, fyrrverandi fastafulltrúa Íslands í New York, var falið að selja
íbúð í eigu íslenska ríkisins á besta stað í borginni. Íbúðin seldist fyrir 500 til 600 milljónir króna og því eftir
ríflegri söluþóknun að slægjast. Fastafulltrúinn og fjölskylda hans höfðu ekki hagsmuna að gæta að mati
utanríkisráðuneytisins sem gerði „sterkar athugasemdir“ við Hjálmar W. vegna málsins.
Sendiherra
tekinn á teppið
Utanríkisráðuneytið hefur gert al-
varlegar athugasemdir við Hjálm-
ar W. Hannesson, sendiherra og
fyrrverandi fastafulltrúa Íslands hjá
Sameinuðu þjóðunum í New York, í
tengslum við sölu rándýrrar íbúðar í
eigu ríkisins við Park Avenue. Hjálm-
ar fól konu hjá fasteignasölunni Star
Cities að selja íbúðina. Hún hafði
tengst fjölskyldu Hjálmars og búið
í sömu íbúð og Anna Karin, 34 ára
gömul dóttir Hjálmars, í tæpt ár.
Íbúðin er í fjölbýlishúsi við Park
Avenue, rándýru hverfi í New York,
en ríkið keypti hana árið 1977 og var
hún notuð sem embættisbústaður
fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu
þjóðunum.
Eftir bankahrunið ákváðu stjórn-
völd að losa að minnsta kosti einn
milljarð króna með sölu dýrra eigna
á vegum utanríkisþjónustunnar og
leigja eða kaupa aðrar ódýrari.
Ein þeirra eigna sem ákveðið var
að selja var íbúðin við Park Avenue.
Miklir hagsmunir í húfi
Í svörum utanríkisráðuneytisins við
skriflegum spurningum DV kemur
fram að íbúðin hafi verið seld á 4,4
milljónir dollara eða um 550 milljón-
ir króna á áætluðu sölugengi. „Salan
er liður í áætlun ráðuneytisins um að
afla ríkissjóði allt að eins milljarðs
tekna með sölu nokkurra embættis-
bústaða og kaupum á öðrum ódýrari
í þeirra stað.“
Ljóst má vera samkvæmt þessu að
eftir milljóna króna söluþóknun var
að slægjast fyrir Star Cities og um-
ræddan fasteignasala.
Fram kemur í svörum utanrík-
isráðuneytisins, að fasteignasalinn,
konan hjá Star Cities, hafi orðið fyr-
ir valinu að tillögu fastanefndarinnar
í New York. Hjálmar W. Hannesson,
þáverandi fastafulltrúi hjá Samein-
uðu þjóðunum, upplýsti ráðuneytið
um að hann hefði byggt tillögu sína á
því að hann hefði þekkt til fasteigna-
salans og talið fasteignasöluna Star
Cities trausta og öfluga. Þá hefði um-
rædd kona fengið góð meðmæli frá
aðila sem fastanefndin treysti vel og
hefði áður skipt við umræddan fast-
eignasala. Einnig eru heimildir fyrir
því að íbúðin hafi áður verið skráð til
sölu hjá annarri stærri fasteignasölu
og tugir aðila fengið að sjá hana án
þess þó að gera tilboð.
Óskað skýringa
Svo vill til að umræddur fasteigna-
sali, konan hjá Star Cities, hafði eins
og áður segir búið með dóttur Hjálm-
ars en þau tengsl náðu í það minnsta
fram á árið 2008.
Um þetta atriði segir orðrétt í
svari ráðuneytisins til DV: „Ráðu-
neytið vill af þessu tilefni upplýsa,
að eftir að samningur var undirritað-
ur í desember 2008, en hann gekk í
gildi 2. janúar 2009, barst ábending
frá starfsmanni um að fasteignasal-
inn tengdist fyrrverandi fastafulltrúa
í New York [les: Hjálmari W. Hann-
essyni] fjölskylduböndum. Ráðu-
neytið brást þegar í stað við og leiddi
athugun þess í ljós að fasteignasal-
inn hafði um tíma tengst fjölskyldu
fastafulltrúa. Fram kom að því sam-
bandi hafði lokið næstum ári áður en
fastafulltrúinn benti á fasteignasal-
ann. Jafnframt var ekki hægt að sjá
að fastafulltrúinn eða fjölskylda hans
hefði haft neinn hag af vali fasteigna-
sölunnar Star Cities.“
Málinu var þó ekki lokið þótt sýnt
þætti að ekki væri við fasteignasal-
ann að sakast vegna málsins. „Ráðu-
neytið gerði sterkar athugasemdir við
fastafulltrúann fyrrverandi [Hjálmar
W. Hannesson] vegna þessa þáttar í
ferli málsins, en ákvað að yfirveguðu
máli að grípa ekki til frekari aðgerða,“
segir í svari utanríkisráðuneytisins
við spurningum DV.
Krafist endurgreiðslu á skatti
Í svörum ráðuneytisins kemur fram
að á meðan íbúðin við Park Avenue
var í eigu íslenska ríkisins var farið
með hana í samræmi við reglur og
venjur sem gilda um fasteignir utan-
ríkisþjónustunnar erlendis. Hún var
seld á bandarískum fasteignamark-
aði í samræmi við reglur sem þar
gilda og ákvæði Vínarsamningsins
frá 1961 um stjórnmálasamband.
Sú spurning var einnig lögð fyr-
ir ráðuneytið hvort utanríkisráðu-
neytið hafi þurft að greiða söluskatt
eða önnur opinber gjöld í Bandaríkj-
unum vegna hagnaðar af sölu íbúð-
arinnar við Park Avenue. Í því sam-
bandi vísar ráðuneytið til almennra
reglna í alþjóðasamskiptum og í
krafti þeirra hafi íslensk stjórnvöld
gert kröfu um að salan yrði undan-
þegin sköttum og öðrum opinber-
um gjöldum. Bandarísk skattyfir-
völd hafa fallist á að söluandvirði
fasteignarinnar sé undanþegið 10
prósenta fjármagnstekjuskatti sem
nemur þá um 55 milljónum króna.
„Í samræmi við það hefur verið gerð
krafa um endurgreiðslu á 8 prósenta
fjármagnstekjuskatti til New York-
ríkis (State Tax).“
Ámælisverð vinnubrögð
Össur Skarphéðinsson utanríkisráð-
herra vill ekki tjá sig um málið og vís-
ar til skriflegra svara ráðuneytisins
við spurningum DV.
Aðfinnslurnar við Hjálmar W.
voru gerðar eftir að Össur tók við
embætti utanríkisráðherra af Ingi-
björgu Sólrúnu Gísladóttur snemma
árs 2009, en ákvörðunin um að selja
íbúðina við Park Avenue var tekin í
utanríkisráðherratíð hennar.
Eins og áður segir telur utanrík-
isráðuneytið engar efnislegar ástæð-
ur til þess að draga í efa vinnubrögð
Star Cities við sölu á íbúð íslenska
ríkisins við Park Avenue í New York.
Ekkert verður heldur sagt um hvort
íbúðin hafi verið seld á hæsta mögu-
lega verði. Á það er að líta að íbúðin
var seld skömmu eftir fall Lehman-
bankans og dýfu undirmálskrepp-
unnar svonefndu síðla árs 2008 sem
kann að hafa haft neikvæð áhrif á
markað fyrir dýrar íbúðir á þeim
tíma. Star Cities hafði haslað sér völl
sem ung fasteignasala á Manhattan
en hafði einnig umsvif í Hollandi.
Hins vegar voru vinnubrögð
Hjálmars W. Hannessonar sendi-
herra talin ámælisverð þar sem fjöl-
skyldutengslin við umræddan fast-
eignasala voru ekki tekin fram við val
á fasteignasölu. Eftir því sem næst
verður komist er unnið að því inn-
an utanríkisráðuneytisins að skýra
siðareglur sem draga eiga úr hættu
á árekstrum við persónulega hags-
muni í utanríkisþjónustunni.
Hjálmar W. Hannesson sendi-
herra var fastafulltrúi Íslands hjá
Sameinuðu þjóðunum í New York
frá árinu 2003, en hefur nú látið af
því starfi.
Ábending barst frá starfsmanni
um að fasteignasalinn
tengdist fyrrverandi
fastafulltrúa í New York.
Fastafulltrúinn
fyrrverandi
Dóttir Hjálmars W.
Hannessonar og
konan, sem seldi íbúð
íslenska ríkisins í New
York, bjuggu saman
um tíma.
Park Avenue Íbúð íslenska ríkisins við Park Avenue í New York seldist fyrir um 550 milljónir króna.
jÓHAnn HAuKsson
blaðamaður skrifar: johannh@dv.is
„sterkar athugasemdir“
Utanríkisráðuneytið undir
stjórn Össurar Skarphéð-
inssonar gerði alvarlegar
athugasemdir við Hjálmar
W. Hannesson vegna
verklags hans við sölu
íbúðarinnar.