Dagblaðið Vísir - DV - 20.01.2012, Page 17

Dagblaðið Vísir - DV - 20.01.2012, Page 17
D V sagði frá því á mánudag- inn að átján ára stúlka þurfti að mæta fyrir dóm þar sem hún var ákærð fyrir brot sem hún er sögð hafa framið með kærastanum. Hann er tólf árum eldri, beið álengdar á meðan hún framdi brotin en ágóðanum skiptu þau á milli sín. Stúlkan er ein af þeim sem lögreglan hefur lýst eftir í blöð- unum, hefur látið sig hverfa og týnst í undirheimunum. DV fjallaði ítarlega um örlög þessara týndu stúlkna á síðasta ári en talsverð breyting verð- ur á þeirra högum þegar þær ná átján ára aldri. Ráða sér sjálfar Guðbjörg Erlingsdóttir, ráðgjafi hjá Foreldrahúsi, segir að það séu vissu- lega dæmi þess að stúlkurnar séu áfram í umsjá barnaverndar þar til þær verði tvítugar en það er háð þeirra samþykki. „Yfirleitt eru það þá stúlkur sem eru í meðferð á vegum barnaverndar þegar þær ná átján ára aldri eða eru í fóstri af einhverjum ástæðum. Þær fá þá mjög fína þjón- ustu og mun meiri eftirfylgd auk þess sem það er einhver sem grípur þær ef eitthvað bjátar á. Svo eru aðrar sem bíða bara eftir því að þær verði átján ára og ráði sér sjálfar. Þá er öllum afskiptum lokið og málinu er vísað til Þjónustumið- stöðvar. Þær eru þá orðnar sjálfráða og velja sína leið. Í mörgum tilfellum fer það mjög illa,“ segir Guðbjörg. Versta tímabilið Í mörgum tilfellum eru stúlkurnar komnar með fíknarsjúkdóm. „Sem verður ekki sjúkdómur fyrr en þú verður átján ára því á meðan þú ert í barnaverndinni er litið á þetta sem félagslegan vanda. Eftir það er þetta hins vegar skilgreint sem sjúkdómur og vandinn tilheyrir heilbrigðiskerf- inu. Stúlkurnar bera ábyrgð á sér sjálfar en geta farið á Vog eða Land- spítalann í meðferð. Þar geta þær fengið eftirfylgd og stuðning en ef þær þiggja það ekki er hann tak- markaður. Lítið er fylgst með því hvað verður um þær.“ Oft er þetta versta tímabilið í þeirra neyslusögu. „Ég veit ekki hvernig á að skýra það, að hluta til felst það í því að þær eru loksins orðnar átján ára, frjálsar og geta gert það sem þeim sýnist. Það er fátt sem foreldrarnir geta gert því þær eru orðnar sjálfráða. Þeir eru kannski orðnir mjög þreyttir á að reyna og sleppa tökunum. Oft er mikið búið að ganga á, sérstaklega þegar þær hafa verið í neyslu frá fjórtán, fimm- tán ára aldri. Þannig að á milli átján og tutt- ugu ára eru þessar stelpur oft í tómu tjóni og gjarna í slagtogi við eldri menn. Þær koma sér yfirleitt í hús hjá mönnum sem eru tilbúnir að kallast einhvers konar kærastar en ég veit ekki hvað á að kalla þá. Mín reynsla er hins vegar sú að um eða upp úr tvítugu öðlast þær yfirleitt þroska til að skilja að nú verði þær að taka sig á og fara að gera eitt- hvað við líf sitt.“ Stelpurnar orðnar harðari Þær leita engu að síður ítrekað eftir hjálp, fara inn á Vog og á 33A. „Þær eru að fara út og inn. Það er bara af hinu góða því þá halda þær allavega sambandi við sína ráðgjafa. Ef maður hefur á annað borð náð sambandi við þær halda þær yfirleitt í þau tengsl þó að þær séu í neyslu eða öðrum vand- ræðum. Það hefur líka verið mottóið hjá okkur að halda þessari leið op- inni. Hringja og láta vita af sér, þó að það sé lítið sem ég get gert til að hjálpa get ég allavega verið til staðar.“ Oft er talað um að strákar stundi frekar glæpi en stelpur bjargi sér með öðrum ráðum. Guðbjörg telur að þessi þróun sé að snúast við og hlutföllin að jafnast. „Stelpurnar eru orðnar ansi kræfar líka,“ segir hún. „Þær eru orðnar harðari og meiri töffarar en þær voru áður.“ Flestar eru í einhvers konar glæpastarfsemi. „Þeir peningar sem eru til fara í neyslu. Ef þær þurfa að velja á milli þess að kaupa mat eða dóp kaupa þær dópið og stela matn- um. Þær stela mat og í raun öllu sem þær vantar, eins og fötum og snyrti- vörum. Stundum finnst þeim út í hött þegar þær eru að stíga sín fyrstu skref í edrúmennskunni að kaupa sér eitthvað sem þær geta stolið. Það heitir ekki einu sinni að stela, þær tala bara um að ná í eitthvað.“ Engan langar í meðferð Hún segir að það sé þó lítið sem hægt er að gera. Ekki einu sinni foreldr- arnir ráða við þetta ef stúlkurnar eru staðráðnar í að fara þessa leið. „Þó að foreldrar myndu svipta þær sjálf- ræði og senda í meðferð er ekkert úrræði sem heldur þeim inni. Það er hægt að loka fólk inni á geðdeild en það er ekki boðið upp á neina áfeng- is- og vímuefnameðferð þar sem fólk er gegn vilja sínum. En ef þú hugsar um það þá vill enginn fara í meðferð. Stundum klúðrar fólk málum svo illa að það neyðist til að fara í með- ferð. En í raun skiptir það ekki máli af hverju þú ferð í meðferð heldur hvort meðferðaraðilum tekst að ná sam- bandi við þig.“ Hún segir að það vanti langtíma- meðferð fyrir ungmenni sem hafa náð átján ára aldri. Það sé til dæmis mikill munur á því að fara í meðferð á Laugalandi sem er langtímameð- ferð úti í sveit eða á Bangsadeild- inni á Vogi. „Það er innlögn á spít- ala þar sem reynt er að afeitra fólk, fá það til að vilja að taka á sínum málum og koma því í lágmarksjafn- vægi svo hægt sé að gera eitthvað. Það er fyrsta inngrip til að fá þær til að stoppa og hugsa og getur virkað til lengri tíma litið. Mín reynsla er hins vegar sú að þú nærð engu meðferð- arsambandi við þessa unglinga fyrr en eftir nokkrar vikur. Það er ekki hægt að ná því á tíu dögum á Vogi.“ Vantar langtímameðferð „Að því sögðu vil ég taka það fram að SÁÁ er með mjög flott prógramm. Eftirmeðferðin byggist hins vegar á því að einstaklingurinn vilji hana sjálfur. Sveiflurnar eru meiri hjá ung- lingum, þeir eru kannski til fyrir há- degi en ekki eftir hádegi og það flækir málin. Laugaland er aftur á móti úti í sveit og verður þeirra heimili um nokkurra mánaða skeið. Þar læra þær að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Þetta er rosalega flott pró- gramm. Oftast fara þær þangað gegn sín- um vilja en ná samt árangri. Það getur þó tekið tíma, þær strjúka og hringja heim til að kvarta undan því hvað allir eru vondir við þær en með tímanum breytist það því þeim líð- ur vel þarna. Þeim er mætt þar sem þær eru og þeirra þörfum er sinnt. Þar sem SÁÁ hefur skamman tíma til að vinna með er gert ráð fyrir því að allir passi í sama mótið en þarna er boðið upp á einstaklingsmiðaða meðferð sem tekur lengri tíma. Við þyrftum að fá svoleiðis meðferð fyr- ir eldri unglinga. Það væri allavega minn draumur.“ Hægt að ná til flestra Að lokum vill Guðbjörg árétta að hægt sé að ná til flestra sem feta þessa braut. „Þegar unglingar fara í neyslu fer eitthvað ferli í gang sem tekur oft nokkur ár. Á þeim tíma eru þær að ná alls konar árangri og litlum sigrum. Flestar stúlkur finna svo leiðina aftur heim. Úrræðin eru fjölmörg og yfirleitt er vel staðið að málum, þótt það sé alltaf hægt að gera betur. Ég hef líka verið hugsi yfir því hvernig árangur er mældur. Það er alltaf þessi krafa um að unglingar fari í meðferð og verði edrú en full- orðnu fólki tekst það ekki alltaf, hvað þá unglingum. Yfirleitt er það óraunhæf krafa, því þær hafa ekki þroska eða getu til þess. En ef þeim tekst að vera edrú í fjórar vikur líða fjórar vikur án þess að þær séu í af- brotum, að selja sig eða taka of stóra skammta. Það er heilmikill árangur og við verðum að muna eftir því.“ Það er einnig mikilvægt að for- eldrar fái viðeigandi stuðning í gegnum þetta ferli, bæði af því að það er þeim þungbært og eins vegna þess að þeir ráða ekki alltaf við aðstæðurnar sjálfir. Stundum eru fjölskylduaðstæðurnar flóknar. Þetta er mjög erfitt. „En ef tekst að styðja foreldrana getur það skipt sköpum í meðferð unglingsins. Ég held að það sé orðið tímabært að í meðferðarstarfi sé almennt unn- ið með alla fjölskylduna, bæði for- eldra og systkini, því svona mál hafa áhrif á alla.“ Foreldrar í vanda geta fengið stuðning í Foreldrahúsi og eins er SÁÁ með þjónustu fyrir alla fjöl- skylduna. Fréttir 17Helgarblað 20.–22. janúar 2012 Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir blaðamaður skrifar ingibjorg@dv.is „Ef þær þurfa að velja á milli þess að kaupa mat eða dóp kaupa þær dópið og stela matnum. Þær stela mat og í raun öllu sem þær vantar, eins og fötum og snyrtivörum. n Afskiptum Barnaverndar lýkur og þær ráða sér loks sjálfar n Oft erfiðasti tíminn í neyslusögunni n Leita skjóls hjá eldri mönnum, eru í neyslu og stunda glæpi Lenda í vanda þegar þær verða átján ára Týndar stelpur Leita skjóls hjá eldri mönnum, eru í neyslu og fremja glæpi en ráðgjafi hjá Foreldrahúsi segir að stelp- urnar séu orðnar harðari en áður. SViðSETT mynd: SigTRygguR ARi

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.