Náttúrufræðingurinn - 2010, Page 16
Náttúrufræðingurinn
16
verið við gerð válista Alþjóðanátt-
úruverndarsamtakanna árið 2009
töldust 22% hryggdýra (spendýr,
fuglar, skriðdýr, froskdýr og fiskar),
35% hryggleysingja og 70% plantna
vera í útrýmingarhættu.5
Þessi mikli útdauði tegunda á
sér margvíslegar orsakir, sem þó
má allar rekja beint eða óbeint til
umsvifa mannsins, svo sem eyðing-
ar búsvæða, ofnýtingar, mengunar,
loftslagsbreytinga og síðast en alls
ekki síst til áhrifa af framandi
ágengum tegundum.8 Í Þúsaldar-
skýrslu Sameinuðu þjóðanna eru
ágengar tegundir taldar á meðal
helstu ógna við líffræðilega fjöl-
breytni1 og nefnd Alþjóðanáttúru-
verndarsamtakanna um lifun teg-
unda hefur lýst því yfir að ágengar
tegundir séu næststærsta ógnin við
upprunalegar tegundir á eftir eyð-
ingu búsvæða.9 Áætlað er að um
40% tegunda sem tilgreindar eru í
bandarískum lögum um tegundir
í útrýmingarhættu séu þar vegna
áhrifa frá framandi, ágengum teg-
undum.10 Þá bendir nýleg úttekt
til þess að neikvæð áhrif ágengra
tegunda á líffræðilega fjölbreytni
séu vanmetin á heimsvísu og virð-
ast þau fara vaxandi.11
Ágengar tegundir hafa því hlotið
verðskuldaða og vaxandi athygli á
síðari árum, ekki einungis vegna
neikvæðra áhrifa á líffræðilega fjöl-
breytni heldur einnig vegna þess að
rannsóknir á ágengum tegundum
veita mikilvæga innsýn í ýmsa
atferlisfræðilega, vistfræðilega og
þróunarfræðilega ferla og auka
þannig skilning á tengslum lífvera í
tíma og rúmi.12–18 Hlutfall vísinda-
greina sem fjalla um málefni tengd
ágengum tegundum hefur hækkað
ört síðustu tvo áratugi og árleg-
um tilvísunum í þær hefur fjölgað
hraðar en tilvísunum í greinar um
stofnvistfræði og stofnferla almennt,
en þó ekki eins hratt og tilvísunum
í greinar er tengjast hnattrænum
loftslagsbreytingum.19
Hvað er framandi, ágeng
tegund?
Tilfærsla tegunda, þ.e. landnám teg-
unda á nýjum svæðum, getur verið
náttúrulegt ferli. Fjölmörg dæmi
eru um að tegundir nemi ný svæði
af sjálfsdáðum, oft fyrir atbeina
vinda, strauma eða annarra teg-
unda en mannsins.20 Mismunandi
loftslag og landfræðilegar hindr-
anir, svo sem úthöf, fjallgarðar og
eyðimerkur, hafa þó í mörgum til-
fellum takmarkað slíka náttúrulega
tilfærslu og átt stærstan þátt í að
móta tegundasamsetningu sem er
mismunandi eftir svæðum, löndum
eða heimshlutum.21,22
Mikil breyting varð á þessu með
hnattvæðingu mannsins. Menn
byrjuðu markvisst að flytja nytja-
tegundir um verulegar vegalengdir
fyrir um 2.000 árum. Fyrir um 1.000
árum færðist flutningur tegunda í
vöxt með tilkomu verslunar araba
í Austur-Afríku og jókst enn frekar
með nýlenduvæðingu Evrópu-
manna fyrir um 350 árum.23 Segja
má að hnattvæðing manna hafi
byrjað árið 1492 er Kólumbus sigldi
til Ameríku.8 Allt frá þeim tíma hafa
tegundir verið fluttar milli landa
í vaxandi mæli en flutningurinn
tók annað stökk við iðnbyltinguna
og hefur náð alveg nýjum hæðum
síðastliðin 25 ár.24 Flutningurinn
Helstu hugtök í líffræði ágengra tegunda
Upprunaleg, náttúruleg, innlend (e. native, natural, indigenous,
original): Tegund innan náttúrulegs útbreiðslusvæðis, þ.e. sem hefur
þróast þar eða komist þangað eftir náttúrulegum leiðum.
Einlend (e. endemic): Upprunaleg tegund sem finnst aðeins á einu
tilteknu, afmörkuðu svæði og hvergi annars staðar.
Framandi, innflutt, útlend, erlend (e. alien, introduced, exotic, foreign):
Tegund utan náttúrulegs útbreiðslusvæðis, sem komist hefur þangað
fyrir tilstilli mannsins, óháð því hvenær það gerðist.
Með fótfestu/bólfestu (e. established, naturalized): Framandi tegund
sem myndað hefur lífvænlegan (e. self-sustaining) stofn í náttúrulegu
umhverfi.
Ágeng (e. invasive): Framandi tegund í viðkomandi vistkerfi, sem
a) sýnir mikla eða hraða útbreiðsluaukningu af eigin rammleik eða
b) veldur eða er líkleg til að valda minnkun líffræðilegrar fjölbreytni,
efnahagslegu eða umhverfislegu tjóni eða er skaðleg heilsufari
manna.
Innflutningsþrýstingur (e. propagule pressure): Mælikvarði á hversu
oft eða í hve miklum mæli framandi tegund eða tegundir hafa verið
fluttar inn (viljandi eða óviljandi) á ákveðið svæði.
Tregðufasi (e. lag phase): Fyrsta skeið í landnámssögu ágengrar
tegundar, sem einkennist af innflutningi, bólfestu, lítilli stofnstærð,
takmarkaðri útbreiðslu og hægum eða engum stofnvexti.
Vaxtarfasi (e. log phase, growth phase): Annað skeið í landnámssögu
ágengrar tegundar, sem einkennist af örum stofnvexti og aukinni
útbreiðslu.
Móttækileiki vistkerfis (e. invasibility): Mælikvarði á hversu
auðveldlega framandi tegund geti náð fótfestu í viðkomandi
vistkerfi.
Hjálpartegund (e. facilitator): Tegund sem greiðir fyrir afkomu
framandi eða ágengrar tegundar. Hjálpartegund getur verið framandi
eða upprunaleg.
Aðlagað úr 12,14,15,17,33,49,133,144,155
80 1-2#loka.indd 16 7/19/10 9:51:00 AM