Gripla - 20.12.2011, Page 24
GRIPLA24
yrkja um tengdamann sinn. Kvæðið er persónulegra en hefðbundin erfiljóð.
Það mærir ekki hegðun og félagslega stöðu hins látna og fjallar hvorki um
ætterni hans né afrek. Þetta gefur til kynna að persónulegt samband hafi
verið á milli hins látna og annaðhvort skáldsins eða þess sem hugsanlega
pantaði kvæðið hjá skáldinu. Þó mætti búast við að það kæmi fram í kvæð-
inu eða fyrirsögn þess ef einhver annar en skáldið hefur gefið fjölskyldunni
kvæðið. Ekki er hægt að fá úr því skorið með fullri vissu hvernig það kom
til að Hallgrímur orti um Vigfús, en það gerði hann.
Varðveisla kvæðisins
Hvernig stendur á því að kvæði Vigfúsar er aðeins að finna í handriti sem
varðveitt er í litlu sérsafni í Uppsalaháskóla? Það gefur augaleið að fjöl-
skyldunni á Stórólfshvoli hefur verið gefið kvæðið, hvort sem Hallgrímur
(eða sá sem fékk hann til þess að yrkja kvæðið, ef hann var fenginn til
þess af öðrum) hefur sent það skömmu eftir lát Vigfúsar eða mætt með
það í jarðarför hans, og þá væntanlega lesið það upphátt eða látið lesa það
eða syngja. Kvæðið hefur að vísu ekki lagboða í fyrirsögn en það er ort
undir algengum sálmahætti (sami háttur er til dæmis á 36. passíusálmi27).
Líklegt má telja að fjölskyldan hafi varðveitt kvæðin sem ort voru til heið-
urs Vigfúsi og er svo um erfiljóðið sem Hannes Helgason orti. Það er
varðveitt í ÍB 380 8vo, eins og kemur fram hér að framan, sem skrifað var
af sonarsyni Vigfúsar. Það er einnig í Lbs 1158 8vo, sem hefur að öllum
líkindum einnig tilheyrt fjölskyld unni því að í því eru einnig erfiljóð um
Katrínu Erlendsdóttur, konu Vigfúsar, Gísla Hákonar son, föður hans,
og Árna Oddsson lögmann, tengdaföður sonar hans. Líklegt er því að
handritið Lbs 1158 8vo hafi tilheyrt þeim legg sem kominn er út af Jóni
Vigfússyni Hóla biskupi.28 Kvæðið sem Hallgrímur orti er aftur á móti ekki
í þessum handritum og ekki varðveitt víðar en í Ihre 77, svo kunnugt sé.
Þó er ekki loku fyrir það skotið að kvæðið sé uppskrifað í fleiri handritum
því að íslensk kvæðahandrit hafa mjög lítið verið efnisskráð. Ef svo er þá
er líklegast að enginn höfundur sé tilgreindur. Þá er vert að geta þess að
erfiljóð eru sjaldan varðveitt í mörgum handritum, oftast aðeins einu til
27 Ég þakka Kristjáni Eiríkssyni fyrir þessa ábendingu.
28 Kvæði Hannesar Helgasonar um Vigfús Gíslason er einnig uppskrifað í handritinu Lbs
2030 4to II, en það er uppskrift dr. Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar eftir Lbs 1158 8vo.