Són - 01.01.2015, Blaðsíða 55
ljóðAHljóð 53
undan hljóðstaf með ð-i á eftir, og linu l-in, sem enda atkvæðin „dal“
og „hól“ – alt þetta er sett hér af inni fullkomnustu list. Séu hér aðrir
óþjálli stafir settir, eða orð með öðrum stöfum óþjálli, á sömu staði
í vísuorðunum, og þó jafn-dýrt verði rímið að öðru leyti, þá er alt í
einu horfin öll „músíkin“ úr málinu. En eins og það nú stendur hjá
Jónasi:
„Glöðum fágar röðul-roða
reiðar-slóðir, dal og hól,“
þá velta linstafirnir sér í faðmlögum við hljóðstafina á dúnmjúkum
hljómöldum að eyrum oss og kitla fegurðartilfinning heyrnarinnar
svo óðviðjafnanlega þægilega.
Það er þetta – það er búnings-fegurðin – það er ið listfagra form,
sem Jónas leiðir inn í íslenzka ljóðagerð, og hefir form-hagleikann til
að bera svo mikinn, að hann ber þar af öllum. Við það að Jónas lifði
og kvað, hafa formfegurðar-kröfurnar hækkað hundraðfalt hjá oss.
(Jón Ólafsson 1900:189–190)
Þessa skýringu Jóns Ólafssonar má kalla fyrstu greiningu íslensks ljóðs
þar sem hljómur situr í fyrirrúmi. Um hljómalistina og gildi formsins
fer Jón fleiri orðum:
Ég hefi prédikað það fyrir nærfelt þrjátíu árum, að mest væri í öllum
ljóðskáldskap eða „lýriskum“ skáldskap komið undir þremur atriðum,
og þau væru þessi: fyrsta atriði – formið; annað atriði – formið; og
þriðja og síðasta atriði – formið! …
Að formfegurðin, orðskrúð og hljómur, er svo þýðingarmikill
þáttur í lýriskum skáldskap, það kemur af því, sem nafnið lýriskur
bendir oss á. Lýriskt kvæði er eiginlega harp- kvæði, ljóð, sem sungið
er og leikið undir á hörpu … Eins og músíkin, in hreina tón-list, talar
til tilfinninga vorra gegn um eyrað án meðalgöngu orðanna, þannig
talar ljóðskáldið til tilfinninga vorra gegn um eyrað fyrir meðalgöngu
bæði hljóms og orða.
(Jón Ólafsson 1900:190–191)
Áður hafði Jón Ólafsson, sem var yfirlýstur fjandmaður Einars
Benediktssonar, fjallað um fyrsta verk Einars, Sögur og ljóð, og ekki
fundist mikið til um skáldskap óvinarins – þar til kemur að ljóðinu
HVARF SÉRA ODDS FRÁ MIKLABÆ, sem Jóni finnst vera „…meistarastykki
höfundarins. Það eitt mundi ávalt halda uppi nafni hans sem skálds,
þótt hann hefði ekkert annað kveðið. Mér þykir það eitt með falleg-
ustu kvæðum á íslenzku, og fyrstu þrjú erindin hafa til að bera þá list í