Són - 01.01.2015, Blaðsíða 64
62 Þórður HelgAson
í-ið er hér það sérhljóð sem mest er áberandi en þetta er haustvísa og
efnið vinnur gegn öllu indæli. Þessi dæmi sýna enn frekar hve erfitt er að
ákvarða einu hljóði sess, án samhengis við ljóðið í heild.
Í SÓLSETURSLJÓÐI Jónasar Hallgrímssonar sjáum við hvernig í-hljóðið
verður eins konar stef ljóðsins: Þýða, síg, skínandi, broshýr, blíða, lýðum,
dýrar, syngja, Hníg, blíðlega, Hníg, rís, þýður, hníg, hvílu, hríð, hlýjum,
vorblíða, dýrðarhönd, Hníg, rís, þýður, hníg, hvílu, hríð, blíðu, skrýð, blíðu,
líður, Hníg, rís, blíður, þýður (Jónas Hallgrímsson 1989:140–145).
Þessi í-hljóð mynda eins konar hryggjarstykki ljóðsins með sínu
indæla hljóði, studd rödduðum samhljóðum sem enn auka áhrifin, ekki
síst ð-in, l-in, g-in (önghljóðin), raunar öll önghljóð, hliðarhljóð og
nefhjóð auk klasanna ng og nd. Hörð lokhljóð eru fá.
Það á vel við, þegar óveðrum er lýst, að láta hina dimmu sérhljóða
og tvíhljóða, o, ö, ú, á, ó leika aðalhlutverkið. Hér sést hvernig Hannes
Hafstein byrjar ljóð sitt ÓVEÐUR (Hannes Hafstein 1951:64):
Steypir sér af nákaldri, naktri klettaborg
norðanstormur þindarlaus, hvín með rokuhlátrum,
Ryðst hann um við björgin og rekur svo upp org
svo rymur við og dynur þungt í svörtum skútalátrum.
Blístrar gjóstur í gjá
og við grátennta rönd,
stendur stundum á önd,
strýkst svo hvínandi hjá.
Þá heyrast raddabýsn svo að blöskrar öllum mönnum,
sem bergtröll opni gin og láti þjóta í skögultönnum.
Hljómur sérhljóðanna leynir sér ekki, en þeir eru ekki einir á ferð. Með
þeim fara r-in sem setja sterkan svip á hljóminn, auk samhljóðaklasa
sem undirstrika hrikaleikann: st, ktr, kl, rð, rm, tr, rg, str, gr. St-hljóðið
í Blíst og gjóst í 5. línu eru hér áberandi hljómur sem málar stormhvininn
svo tala má um hljóðgerving í því samhengi. Að st-hljóðinu verður vikið
síðar.
Grímur Thomsen nýtir sér hin dimmu hljóð í ljóðinu ÓLAG og virðist
henta efninu vel enda eru þau áberandi í rímatkvæðum og víðar (Grímur
Thomsen 1969:203):