Són - 01.01.2015, Blaðsíða 92
90 Þórður HelgAson
Dæmin eru eru harla lýsandi. Einkennið, sem Kristján lýsir, á hins vegar
við um öll hljóð sem hefjast á aðblæstri, þau sem í rituðu máli eru kk, tt,
pp og auk þess p, t, k (pp, tt, kk) sem taka á eftir sér l og n. Sannarlega
nýttu íslensku skáldin sér þetta einkenni til hlítar, einmitt til að ná því
sem Kristján lýsir; hraða, snerpu, léttleika og fjöri. Eftirtektarvert er að
gjarna er ll (dl) látið taka undir og ljóst er að þar er samvinnan góð.
Hér er dæmi úr Göngu-Hrólfs rímum Bólu-Hjálmars þar sem hart er
barist (Hjálmar Jónsson 1949c:46):
Víða hrukku horfnir lukku
hátt þá stukku Löndungs bál,
til náskrukku sumir sukku,
súra drukku banaskál.
Sigurður Breiðfjörð notar kl-hljóðið (aðblásturinn) í Rímum af Núma
… í orðunum stikla, mikla, sprikla og hnykla auk aðblástursins í bretta til
að lýsa ferð á úfnu hafi og nær þannig að mála aðstæður fyrir áheyranda
(Sigurður Breiðfjörð1903:84):
Ferjur stikla á fljótið mikla, og ferðir jóku;
bárur sprikla, og brýr í hnykla bretta tóku.
Ekki vantar fjörið í ljóðið NORÐUR FJÖLL eftir Hannes Hafstein, og er þar
þriðji kafli ljóðsins SPRETTUR ekki undanskilinn en honum lýkur þannig
(Hannes Hafstein 1951:46):
Hve hátt 'ann lyftir hnakka,
hvessir brá
og hringar hreykinn makka.
Horfið á!
Sko, faxið flaksast til!
Grundin undir syngur söngva
slétt við Léttis hófaspil.
En læg nú sprettinn, Léttir,
líttu á,
við eigum brekku eftir,
hún er há.
Nú æjum við fyrst ögn,
áður söng og hófa hljóði
förum rjúfa fjallaþögn.