Són - 01.01.2015, Blaðsíða 82
80 Þórður HelgAson
Jón Thoroddsen yrkir einnig undir dróttkvæðum hætti og eins og Bólu-
Hjálmari þykir honum sem r-in falli vel að vetrarríkinu og líkt og síðasta
línan ber með sér er Jóni ljóst gildi r-anna. Ljóðið er ÞORRI, ort um
þorrann 1857 (Jón Thoroddsen 1919:85):
Þræll var þorri að öllu,
þreyta réð hríð og bleytu,
kafalda báru af kulda
köld nef röskir höldar.
Grátlegt teljum vér Góu
grey, en forðast heyja
óðum fer um að sneyðast,
errin ef reynist verri.
Blísturshljóðið s
s-hljóðið nota skáld í ýmsum tilgangi. Það minnir á hvísl, en getur
einnig ómað sem rennandi vatn, jafnvel verið eins konar hljóðgervingur
fyrir það. s-ið er þó fyrst og fremst í ljóðum skálda milt hljóð og ljúft
og notað sem slíkt. Raunar getur það á stundum túlkað hvin óhugnaðar,
eins og sýnt verður fram á, og stundum veðrahvin, ekki síst ef s-ið er
langt. Í þriðja erindi GULLFOSS Hannesar Hafstein er s-ið áberandi og
hugsanlega eins konar útmálun vatnsins í fossinum (Hannes Hafstein
1951:58):
Efldar öldur geysast,
æstar sem til víga,
ótt, sem örskot, reisast
eflast, sigra, hníga,
rísa upp í úðamökkum ljósum
öldusálir, baða sig í rósum.
Sólin fléttar ljósan litaskrúða;
ljós er allt í fossins helgum úða.
Og eftirtektarvert að síðustu tvær línur ljóðsins styrkja hlutverk s-ins:
„Sálu minni sökkvi ég í fossinn, / seilst upp í friðarboga kossinn.“
Valdimar Briem gerir sér greinilega mat úr s-hljóðunum í LETRIÐ Á
HALLARVEGGNUM. Þar lýsir hann gleðskap í glæsilegri höll sem hann út-
málar fagurlega í tveimur fyrstu erindunum. Í þriðja erindinu skyggnist
hann inn í höllina (Valdimar Briem 1896:363–364):