Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Blaðsíða 38
38
Aðrir innan hugrænnar bókmenntafræði eru t.d. í samræðu við nýsögu-
hyggju og aðhyllast róttæka efnishyggju. Í hópi þeirra er Mary Thomas
Crane sem hefur meðal annars skrifað um verk Shakespeares. Einn af
merkilegum þáttum í skrifum hennar er að hún kannar menningarein-
kenni er lýsa af máli, sem vitnisburð um breytingar sem eru að verða, en
ekki sem óhagganleg fyrirbæri og hugar þar með bæði að því hvaða hlut
Shakespeare á sjálfur að breytingunum og hvernig þær setja svip á hann.
En hvaða leið sem hugrænir bókmenntafræðingar velja í skrifum um
bókmenntir, sögu og menningu, sýna verk þeirra að lesendum opnast svið
sem bókmenntafræðin almennt hefur vanrækt og tækifæri gefast til að
tengja fyrirbæri á nýjan hátt, draga viðtekinn skilning í efa o.s.frv. Eða
hversu margir lesenda hafa vanist því í umræðu um bókmenntir og menn-
ingu að gengið sé út frá því að hinn líkamsmótaði heili (e. embodied brain)
setji svip sinn á orðræðu, rétt eins og orðræða marki líkamsreynslu, og
samskipti manna móti formgerðir heilans?99 Og hversu mörgum hefði
dottið í hug, þó ekki væri nema fyrir tuttugu árum, að uppgötvanir í tauga-
vísindum gætu – ásamt öðru – breytt sýn á bókmenntasögu svo um mun-
aði?100 Ítrekað skal að þeir sem frekast fást við sögu og menningu í hug-
rænni bókmenntafræði vilja jafnframt auðga skrif um bókmenntir með
umfjöllun um þann „ómissandi tilvísunarramma taugaferla er menn upp-
lifa sem huga“.101 Þeir setja þá oftar en ekki á oddinn að hugurinn er kvikur
og getur sífellt brugðist við á nýjan hátt og markað umhverfið í víxlverkan
sinni við það. Og að því leyti eru þeir ólíkir æði mörgum bókmenntafræð-
ingum sem berast með öðrum straumum.
Nýleg greinasöfn má taka sem frekari vitnisburð um að hugræn sögu-
hyggja er að sækja í sig veðrið og að hugræn menningarfræði er tekin að
krefjast nokkurs rúms. Í ritgerðarsafni, sem Herman stýrir, The Emergence
of Mind, vinna níu höfundar þétt saman að því að gefa yfirlit yfir birting-
armyndir vitundarinnar í enskum frásögnum um 1500 ára skeið, og á slík
99 Mary Thomas Crane, Shakespeare’s Brain: Reading with Cognitive Theory, Princeton
2000: Princeton University Press, bls. 7.
100 Prýðilegt dæmi um verk af því tagi er bók Alans Richardson, The Neural Sublime:
Cognitive Theories and Romantic Texts, Baltimore: John Hopkins University Press,
2010. Í henni stefnir hann t.d. saman taugafræði, sálfræði, hugrænum málvísindum
og uppbroti (e. deconstruction), svo að eitthvað sé nefnt – og kannar hvaðeina í við-
eigandi sögulegu samhengi.
101 Antonio R. damasio, Descartes’ Error, bls. xvi.
BERGljót Soffía KRiStjánSdóttiR