Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Blaðsíða 120
120
hreyfingu fí og er oft vísað til hennar sem fí-fyrirbærisins. Algengt er að
fólk ruglist á fí- og beta-hreyfingum og telji jafnvel að fí sé sams konar
sýndarhreyfing og beta (þessi ruglingur er meira að segja algengur í sál-
fræðiritum). En svo er ekki, enda vandséð að rannsóknir Wertheimers
hefðu þótt byltingarkenndar ef hann hefði einfaldlega sýnt fram á fyr-
irbæri sem var þá þegar vel þekkt úr kvikmyndum. Wertheimer og félagar
gerðu sér grein fyrir því að þegar birtingartíminn var styttur nokkuð frá
því sem var í beta-hreyfingunni voru báðar línurnar sýnilegar samtímis en
jafnframt varð einhvers konar „hrein hreyfing“ á milli þeirra, „hlut-laus“
hreyfing (í bókstaflegri merkingu) þar sem línurnar voru kyrrstæðar en
samt sást einhvers konar óræð hreyfing.
Wertheimer taldi fí-fyrirbærið ganga gegn meginsjónarmiðum hinnar
hefðbundnu skynjunarsálfræði. Samkvæmt henni var nærtækast skýra beta-
hreyfinguna með eftirfarandi hætti: Fyrst skynjum við línu við A, síðan
aðra sams konar línu við B. Skynkerfið túlkar þessi skynhrif sem svo að
ein lína færist á milli staðanna A og B. Slík skýring getur ekki skýrt fí-fyr-
irbærið því þar er hin skynjaða „hreina“ hreyfing með öllu ólík áreitunum
sem eru til staðar og getur því ekki falið í sér túlkun skynhrifa. Einn þátt-
takenda Wertheimers lýsti því sem fyrir augu hans bar með þessu orðum:
„Ekki er unnt að segja hvaða hlutur þetta var; ég hef séð kraftmikla hreyf-
ingu (sýnir rétta stefnu) en ég veit ekkert um hlutinn, geri mér ekki grein
fyrir að hafa séð hlut.“41 Munur beta- og fí-hreyfingar kemur kannski skýr-
ast fram í því að í fyrra fyrirbærinu hefur hreyfingin lit og lögun áreitanna
en í fí-hreyfingunni hefur hreyfingin lit og áferð bakgrunnsins en engar
skýrar útlínur.42
Mörgum þóttu lýsingar Wertheimers á fí-fyrirbærinu og öll nálgun
skynheildastefnunnar meira en lítið dularfull. Einn þeirra var Karl Lashley,
prófessor í sálfræði við Harvard-háskóla. Hann innti einu sinni Wolfgang
Köhler eftir því, þegar talið barst að kennisetningum skynheildastefn-
unnar, hvort ekki gæti hugsast að þeir félagar hefðu „falið trúarbrögðin
41 Max Wertheimer, „Experimentelle Studien über das Sehen von Bewegung“, bls.
226, þýð. mín.
42 Einkar greinargóða lýsing á tilraunum Wertheimers er að finna hjá Robert M.
Steinman, Zygmont Pizlo, og Filip J. Pizlo, „Phi is not Beta, and why Werthei-
mer’s discovery Launched the Gestalt Revolution“, Vision Research, 40/2000, bls.
2257–2264.
JÖRGEN L. PINd