Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Blaðsíða 98
98
Þeir tóku Ymi og fluttu í mitt Ginnungagap og gerðu af honum
jörðina, af blóði hans sæinn og vötnin. Jörðin var gjör af holdinu,
en björgin af beinunum. Grjót og urðir gerðu þeir af tönnum og
jöxlum og af þeim beinum er brotin voru … Af því blóði er úr sárum
rann og laust fór, þar af gerðu þeir sjá þann er þeir gyrtu, og festu
saman jörðina og lögðu þann sjá í hring utan um hana …6
Annars konar þróun sem einnig má tengja hugsun Merleau-Pontys um
líkamann, átti sér stað á sjöunda áratugnum þegar naumhyggjan, eða
minimalisminn, fór að ryðja sér til rúms. Listamenn urðu þá uppteknir
af rými og samspili hluta og rýmis og þeirri hugmynd að listaverkið yrði
að nokkru leyti til í þessu samspili. Áhorfandinn færi inn í verkið í stað
þess að standa utan við það. Með þessu voru listamenn að taka listaverkið
niður af helgum stalli módernískrar hugsunar þar sem litið var á það sem
einangrað fagurfræðilegt fyrirbæri sem ætti einungis að lúta eigin eigind-
um, eins og helsti kenningasmiður formalisma í myndlist tuttugustu aldar,
Clement Greenberg, orðaði það.7 Minimalistarnir vildu gera áhorfand-
ann meðvitaðan um eigin tilvist sem líkams- og rýmisveru og sóttu þar í
smiðju Merleau-Pontys. Þetta sjónarmið virðist þó hafa einskorðast við
samband listaverks og áhorfanda en ekki náð til sambands listamanns og
verks. Minimalistarnir leituðust þvert á móti við að afmá úr verkum sínum
öll ummerki um líkamlega aðkomu listamannsins að þeim – þegar kemur
að sambandi listamanns og listaverks virðast þeir líta á sig sem hreinar
hugverur, það er hugur listamannsins sem skapar verkið en ekki hönd
hans. Þetta er í nokkurri mótsögn við Merleau-Ponty, sem bendir á að
hugurinn geti ekki málað án þess að til komi líkami. Á hinn bóginn eiga
minimalistarnir þakkir skildar fyrir að halda áfram áróðri Greenbergs um
að hreinsa skyldi burt ryk frásagna og táknfræði og láta verkin snúast um
eigin verund í stað þess að vísa út fyrir sig. Útlistun Greenbergs á því hvað
aðskilur list frá skreyti er mjög áhugaverð. Þótt hann sé full dómharður og
að margra dómi þröngsýnn er skilgreining hans á sjálfsgagnrýni listmiðils-
ins enn í fullu gildi:
Kjarni módernismans liggur að mínu viti í því að beita einkennandi
aðferðum listgreinar til að gagnrýna listgreinina sjálfa, ekki til þess
6 Snorri Sturluson, „Gylfaginning“, Ritsafn I, Reykjavík: Mál og menning, 2002, bls.
15.
7 Clement Greenberg, „Modernist Painting“, Art in Teory 1900–2000, ritstj. Charles
Harrison & Paul Wood, Oxford: Blackwell 1992, bls. 773–779.
BjaRni SiGuRBjÖRnSSon