Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Page 140
140
ungagap væri milli þeirra upplýsinga sem finna má í ljósinu sem berst
skynfærunum og þeirrar þekkingar um heiminn sem við öðlumst með
skynjun. Þarna enduróma hugmyndir Kants þar sem gert er ráð fyrir að
meira sé í höfðinu á okkur en reynslan setur þar inn. Helmholtz setti í
kjölfarið fram kenningu um ómeðvitaðar ályktanir (þ. unbewusster Schluss)
sem væru óaðskiljanlegur hluti af skynferlinu og endurspegluðu reynslu ein-
staklingsins af skynheiminum. Helmholtz ályktaði að sjónskynjunin leiddi
til þeirrar útkomu sem líklegust væri til að vera rétt við tilteknar aðstæður.
Gustav Theodor Fechner lagði grunninn að því sem í dag er kallað
sáleðlisfræði (e. psychophysics). Viðfangsefni sáleðlisfræðinnar eru tengslin
milli ytri áreita og þeirra skynhrifa og skynjana sem þau vekja. Að mati
Fechners eru hugartækin því ekki mælar á magn, en jafnframt skiptir sam-
hengið sem áreitin birtast í máli. Fechner áleit að minnsta greinanlega
muninn á milli tveggja áreita (t.d. hvað þarf að kveikja á mörgum kertum
til viðbótar þeim sem fyrir eru til þess að birtumunur sjáist) mætti nota
sem huglæga mælieiningu. Merkasta framlag Fechners er líklega að hafa
sýnt fram á að unnt væri að mæla og magnbinda sálfræðileg fyrirbrigði
eins og verkan hugartækja þeirra sem Kant fjallaði um.
Í upphafi 20. aldar komu fram áhrifamiklar kenningar skynheildasál-
fræðinnar (e. Gestalt Psychology), sem líkt og sáleðlisfræði Fechners var undir
sterkum áhrifum frá þekkingarfræði Kants. Skynheildasálfræðingarnir
lögðu áherslu á að heildin væri annað og meira en summa partanna. Við
skynjum heiminn á tiltekinn fyrirfram gefinn hátt sem ákvarðast af hóp-
unarlögmálum sem við höfum enga meðvitaða stjórn á.40
Áhrif Kants á skynheildasinna koma meðal annars fram í þeirri áherslu
sem þeir leggja á að við séum með tiltekinn fyrirfram gefinn tækjabúnað
til skilnings á heiminum.41 Gott dæmi um hugsunarhátt skynheildasinn-
anna er áhugi þeirra á sýndarhreyfingu, sem birtist t.d. í kvikmyndum.
Kvikmyndir eru samsafn stillimynda sem „límdar“ eru saman í huganum.
Þar skynjum við einnig hreyfingu sem ekki finnst í áreitinu. Út frá þess-
um hugmyndum komust skynheildasinnar að þeirri niðurstöðu að einföld
greining á áreitunum dygði aldrei til þess að útskýra skynjun.
40 Gaetano Kanizsa, Organization in Vision: Essays on Gestalt Perception, New York:
Praeger Publishers, 1979.
41 Kurt Koffka, Principles of Gestalt Psychology, New York: Harcourt, Brace & World
Inc, 1935.
áRni KRiStjánSSon