Skírnir - 01.01.1948, Blaðsíða 20
18
Halldór Hermannsson
Skírnir
líklegt, að Gissur biskup hafi viljað koma á framfæri
slíkri löggjöf, en ekki enzt aldur til þess. Þorlákur hefur
því sennilega tekið til að semja kristinrétt strax er hann
kom frá biskupsvígslu 1118. En á næstu árum mun ekki
hafa verið tiltækilegt að fá hann lögtekinn vegna óáranar
og ófriðar í landinu og dauða Jóns Hólabiskups. Ketill
Þorsteinsson var kjörinn biskup á Alþingi 1121 og fór
utan samsumars. Hann hlaut biskupsvígslu af Össuri erki-
biskupi seint í janúar 1122 og kom út sumarið eftir. Þá
hafa þeir biskuparnir líklega hafizt handa að koma krist-
inréttinum á framfæri og á Alþingi 1122 beðið Ara að
semja sögulegt yfirlit yfir löggjöfina. Sennilegt er því, að
Ari hafi skrifað fyrstu gerð íslendingabókar milli þinga
1122-23. í henni hefur líklega ekki staðið nafn Goðmund-
ar Þorgeirssonar, því að hann tók lögsögu 1123. Má kann-
ske ráða það af kaflanum, sem tekinn er upp í Sturlungu
(Reykjavíkurútg. 1909, II, bls. 20) og Kristnisögu (kap.
XVI), þar sem nafni Goðmundar er sleppt. Sumarið 1123
hefur svo Ari sýnt biskupunum og Sæmundi fróða rit sitt.
Þeim féll það í geð, en vildu þó gera á því nokkrar breyt-
ingar, eins og áður hefur verið getið. Fyrir því hefur Ari
tekið að semja seinni gerðina, líklega veturinn 1123-24.
Þá var Goðmundur orðinn lögsögumaður, og því hefur
nafni hans verið bætt inn í, en ekki getið um embættisár
hans, því að það hlýtur að vera seinna innskot. Ég hygg,
að seinna en 1124 hafi bókin ekki verið rituð, því að, eins
og áður hefur verið tekið fram, hefði Grænlands líklega
ekki verið getið þar, ef- það hefði verið kunnugt á Islandi,
að biskupsdæmi hefði verið sett þar á stofn. Það var gert
1124, og kom hinn nýi biskup til íslands 1125 og dvaldi
næsta vetur hjá Sæmundi í Odda. Kristinrétturinn hefur
þá líklega ekki heldur verið lögtekinn, því að þess hefði
þá sjálfsagt verið getið.
Ég gat þess fyrstur til í innganginum að útgáfu minni
af íslendingabók (Islandica, XX, 1930), að samband
mundi vera milli hennar og Kristinréttarins. Og einmitt
sama árið kom Guðmundur Finnbogason fram með sömu