Skírnir - 01.01.1948, Page 35
Skírnir
Á ártíð Ara fróða
83
afkomendur hans voru í Þórsnessþingi, á Stað, og virðast
hafa haft mannaforráð, hefur valdið því, að menn hafa
fyrir löngu gizkað á, að Ari hafi flutzt vestur og setzt þar
að, helzt á Stað, og tekið við goðorði forfeðra sinna. Aftur
á móti hefur Halldór Hermannsson nýlega getið þess til,
að Ari hafi verið með Gizuri biskupi, aðstoðað hann í starfi
hans að koma skipun á kirkjusóknir, og ferðazt með hon-
um um landið, meðan á því stóð. Þá hafi hann öðlazt mikla
þekkingu á landinu og fengið fróðleik hvaðanæva að; er
Halldór Hermannsson einn þeirra fræðimanna, sem telja
Ara aðalhöfund Landnámu, og skiptir þá landfræðiþekk-
ing Ara miklu máli. Þessi kenning Halldórs, að Ari hafi
verið með Gizuri biskupi, og hin eldri kenning um að hann
hafi dvalizt vestanlands síðara hluta ævinnar, þurfa vit-
anlega ekki að rekast á. En rétt er að draga engar dulur
á það, að full vissa er ekki um það, hvar Ari hafi alið
manninn síðara hluta ævinnar.
Ef Ari hefur farið með goðorð, hefur hann vitanlega
komið við ýmis mál, en ekki ganga af því sögur. Mikils
háttar maður hefur hann þótt, en frægö sína hefur hann
þó hlotið af fróðleik sínum og ritstörfum, og það veldur
því, að við minnumst hans hér í kvöld. Eitt rita hans er
varðveitt, mjög líkt því sem hann skildi við það. Það er
Islendingabók, fyrsta sagnarit á íslenzka tungu.
Um bók þessa farast Ara sjálfum orð á þessa leið í for-
mála hennar:
„Islendinga bók g0rða ek fyrst byskupum órum Þorláki
ok Katli, ok sýndak bæði þeim ok Sæmundi presti. En
með því at þeim líkaði svá at hafa eða þar viðr auka, þá
skrifaða ek þessa of et sama far fyr útan áttartölu ok kon-
unga ævi, ok jókk því, er mér varð síðan kunnara ok nú
er gerr sagt á þessi en á þeiri. En hvatki es missagt es í
frœðum þessum, þá er skylt at hafa þat heldr, er sannara
reynisk."
Um þennan formála hafa ógrynnin öll verið rituð, og
hafa ekki allir verið á einu máli. Raunar virðist mér hann
3