Skírnir - 01.01.1948, Síða 86
84
Ólafur Lárusson
Skírnir
sú, sem hér verður gerð til að lýsa starfsemi og persónu
Árna biskups, er á þeim byggð, og þó með þeim fyrirvara,
að ítarlegri heimildir myndu, ef til hefðu verið, hafa leitt
til fyllri og e. t. v. réttari skilnings á honum og starfi hans.
Þess sjást engin merki, að Árni biskup hafi beitt sér
fyrir nokkrum endurbótum í kirkjumálum, svo sem varð-
andi menntun klerka, kenningu þeirra eða líferni, eða
regluhald klaustrafólks. Sennilega hefur hann verið meiri
veraldarmaður en hugsjónamaður og ósnortinn af umbóta-
áhuga þeim, er þá var nokkuð farið að gæta innan kirkj-
unnar og leitt hafði til þess, að kirkjuþing var kallað sam-
an í Konstanz í Sviss, en það þing sat á rökstólum einmitt
sömu árin og Árni biskup sat að stóli í Skálholti. Umbóta-
hreyfinga þessara mun og lítt hafa gætt á Norðurlöndum,
en vel mætti Árni biskup hafa fengið nokkur kynni af
þeim í suðurferðum sínum.
Hins vegar lét hann sér annt um að prýða staðinn í
Skálholti og auðga hann að góðum gripum. Er trúlegt, að
manni, sem svo víða hafði farið sem hann, hafi þótt húsa-
kynnunum í Skálholti ábótavant í ýmsu, enda getur þess
í Nýja annál, að hann lét „víða bæta staðinn".1) En þess
getur annálshöfundurinn jafnframt, að mörgum hafi þótt
það gert með hrapaði. Hefur biskup verið fljóthuga og
áhugamikill, en kapp hans verið meira en forsjáin, og
endurbætur hans á staðnum þess vegna orðið endingar-
minni en skyldi og sumar máske misráðnar. Að því er
kirkjuna snertir sérstaklega, er þess getið, að hann hafi
látið gera þar fjögur ölturu, umfram þau, er áður voru.
Ég hef áður getið um silfurbollann mikla, Gestumblíð,
er hann lét smíða. 1 annálnum segir, að hann hafi látið
smíða margt annað, og er tveggja gripa getið sérstaklega,
auk bollans, en það voru stéttarker stórt, er vó níu merk-
ur silfurs, og monstrancium, líklega eitt hið fyrsta, sem
í íslenzka kirkju kom.2) Hafa þessir gripir báðir vafa-
1) Nýi annáll (1417).
2) Nýi annáll (1416, 1417).