Skírnir - 01.01.1948, Page 88
86
Ólafur Lárusson
Skírnir
vísitatíuferðir um landið, en engin máldagabók er til frá
hans hendi og fátt einstakra máldaga eða máldagagreina,
er honum verði eignað.1) Nýi annáll getur þess, að hann
hafi, veturinn síðasta, sem hann var hér á landi, 1418-
1419, farið um Austfirðingafjórðung allan og aftur hið
nyrðra um Norðlendingaf jórðung og svo til Borgarf jarðar
og heim aftur í Skálholt.2) Það mun sjaldan hafa komið
fyrir, að biskupar vísitéruðu um Austurland að vetrarlagi,
og bendir þetta til þess, að Árni biskup hafi verið ötull og
röskur ferðamaður. Um röskleika hans í ferðalögum hef-
ur og sú sögn gengið, að hann hafi eitt sinn riðið á degi úr
Skálholti, á hjarni norður Kjöl, að Hólum í Hjaltadal,
verið um morguninn við óttusöng í Skálholti, en komið til
Hóla fyrir aftansöng, „þá hringt var til Salve regina“.3)
Þetta eru vitanlega miklar ýkjur. Það er óhugsandi, að
þessi langa leið hafi verið farin á svo skömmum tíma,
18 klukkustundum, en varla hefði sögn þessi orðið til, ef
eigi hefði það orð af Árna biskupi farið, að hann hafi
stundum verið óvenjulega fljótur í förum. Maður, sem
haft hefur í jafnmörg horn að líta sem Árni biskup, hefur
og hlotið að ferðast mikið um landið, enda bera bréfa-
gerðir hans þess vitni, því að bréf hans eru rituð á ýms-
um stöðum víðs vegar um landið.
Flest bréf þau frá biskupsárum Árna biskups hér á
landi, sem hann varða, lúta að fjárafla hans og fésýslu.
Er augljóst, að hann hefur verið mjög umsvifamikill í
þeim málum, og má þó gera ráð fyrir, að oss sé nú eigi
kunnugt nema um lítið brot af þeim viðskiptum hans. Hon-
um hefur orðið gott til fjár hér á landi. í Nýja annál get-
ur þess, að hann hafi komið heim í Skálholt haustið 1415,
úr fyrstu norðurför sinni, „með miklum fjárafla, bæði
brennds silfurs, smjörs og sláturs“. Árið 1418 segir ann-
1) Dipl. isl. IV., nr. 332.
2) Nýi annáll (1419).
3) Annálar 1400—1800, I., bls. 52 (Skarðsárannálar); Jón Espó-
lín: íslands árbækur, II., bls. 14. — Björn á Skarðsá virðist hafa
þessa sögn úr eldri skrifaðri heimild, sem nú er glötuð.