Skírnir - 01.01.1948, Qupperneq 97
Skírnir
Árni biskup Ólafsson
95
fremur hafa ráðið því, að hann fór utan, því að þegar hér
var komið, var hann orðinn stórskuldugur við konung
vegna hirðstjórnar sinnar.
Þrátt fyrir skuldir sínar hélt hann þó enn hirðstjóra-
embættinu.1) Að vísu var Arnfinnur Þorsteinsson hirð-
stjóri á Alþingi 1419, er Eiríkur konungur var hylltur
þar,2) en það mun vera svo að skilja, að biskup hafi veitt
honum hirðstjóraumboð fyrir sína hönd, en sjálfur annað-
hvort verið farinn af landi brott um alþingistímann eða
verið svo í brottbúningi, að hann hefur ekki getað komið
því við að sækja þingið.
Biskupinn lét út í Vestmannaeyjum, á skipi, er hann átti
sjálfur og legið hafði þar afturreka um veturinn. Mun
hann hafa haft skip í förum milli landa árin, sem hann
dvaldist hér á landi. Varð hann vel reiðfari til Björgynjar.
Þar hitti hann Jón Hólabiskup, svo sem áður er sagt.3)
Síðan höfum vér eigi fregnir af honum fyrr en í júnímán-
uði næsta sumar, 1420. Var hann þá staddur á Lálandi í
Danmörku. Hinn 10. júní þá um sumarið gáfu þeir bisk-
uparnir, hann, Jóhannes biskup í Hróarskeldu, Áslakur
í Björgvin, Tómas í Orkneyjum og Andbjörn á Hamri, öll-
um þeim mönnum úr biskupsdæmum sínum 40 daga aflát,
er heimsækja fyrir guðræknissökum og bænagerðar altari
heilags Ólafs konungs í Pálskirkjunni í Saxakaupangi eða
hlýða þar messu eða færa þangað gjafir eða gagnsemd-
ir.4) Er trúlegt, að altari þetta hafi verið vígt þennan dag
og þeir biskuparnir slegizt í för þangað með Sjálandsbisk-
upi, er vígsluna hefur framið, en bréfið er gert þar í Saxa-
kaupangi.
Tólf dögum síðar, 22. júní 1420, gaf Árni biskup út bréf
um skuld sína við konung. Er það einnig gert á Lálandi,
við Vesturskógskirkju.5) í bréfi þessu játar hann sig
1) Dipl. isl. IV., nr. 340.
2) Dipl. isl. IV., nr. 330, sbr. nr. 331.
3) Nýi annáll (1419).
4) Dipl. norv. XVI., nr. 75, sbr. Dipl. isl. X., nr. 17.
5) Dipl. isl. IV., nr. 340.