Skírnir - 01.01.1948, Side 99
Skírnir
Árni biskup Ólafsson
97
ið á sig þessa miklu ábyrgð einungis af vináttu við hann
og velvild til hans.
Loks er ef til vill hægt að marka það nokkuð af bréfi
þessu, hve miklu tekjur konungs af íslandi kunni að hafa
numið um þessar mundir. Skuldarupphæðin, 3000 nobilar,
er að vísu aðeins áætlunarupphæð. En því aðeins hefur
verið á þessa upphæð gizkað, að hún hefur verið talin
nærri lagi. Það hefur verið talið sennilegt, að tekjur kon-
ungs af landinu í þessi sjö ár hafi numið þessari upphæð.
Enskir nobilar voru gullpeningar og voru tvenns kon-
ar. Jafngilti önnur tegundin þriðjungi úr sterlingspundi
(£ 0-6-8), hin hálfu sterlingspundi (£ 0-10-0).*) Talið
er, að gildi peninga á Englandi á 14. og 15. öld móts við
peningagildi fyrir síðustu heimsstyrjöld hafi verið sem
næst 1:39,66.1 2) í bréfi Árna biskups getur þess eigi, við
hvaða tegund nobila miðað sé, en 3000 nobilar hafa sam-
kvæmt þessu jafngilt 1000 eða 1500 sterlingspundum
þeirra tíma, eða 39 600 eða 59 500 sterlingspundum fyrir
ófriðinn. Með núverandi gengi sterlingspunds myndi þetta
nema annaðhvort nálægt 820 000 eða um 1 200 000 íslenzk-
um krónum. Þetta voru áætlaðar sjö ára tekjur, og myndu
þá hreinar tekjur konungs af landinu hafa numið um það
bil 120 þúsund eða 170 þúsund krónum ár hvert, eða ef
miðað er við meðal-kýrverð árið 1937, 520 eða 730 kýr-
verðum á ári. Sennilegt þykir mér, að skuldin sé talin í
hinum verðmeiri nobilum, en rök get ég ekki að því leitt.
Það voru því ekki neinir smámunir, sem biskup skuld-
aði konungi, og satt að segja virðist það nærri óskiljan-
legt, hvernig hann hefur getað komizt í aðra eins skuld,
með hliðsjón af því, sem kunnugt er um fjárafla hans hér
á landi. Vér vitum eigi, hvernig um skuld þessa hefur far-
ið, hvort hún hefur nokkurn tíma verið greidd eða hvort
það var heldur biskup eða ábyrgðarmenn hans, sem greiddu
hana. Skuldabréfið er enn í dag í ríkisskjalasafni Dana,
1) Murray: A new english dictionary (við nobles).
2) G. G. Coulton: Medieval panorama, bls. 73.
7