Skírnir - 01.01.1948, Side 108
106
Jóhann Hannesson
Skírnir
er kostur að fylgja hinni klassisku skiptingu, með því að
þá verða helgiritin öll í einum flokki. En þess ber að gæta,
að bókmenntasögulega er hún ekki góð, með því að mikið
af efni því, sem er að finna í Lí-chí, er frá tímabilum eftir
daga Kung-tzu. Þegar þetta er athugað, mun láta nærri,
að telja meginefni þriggja elztu helgiritanna fyrir daga
Kung-tzu, en efni bókanna fjögra er annaðhvort frá
hans dögum eða yngra. Aftur á móti er meginefni „Vor-
og haust-annálanna“ fyrir daga Kung-tzu, þar sem hér er
um sögu Lú-ríkisins að ræða.
1 bókmenntasögu Kínverja gerðist mjög örlagaríkur
viðburður á tímabilinu 221-209 f. Kr. Þá komst ný keis-
araætt til valda í Kína, Chin-ættin, en í raun og veru var
hér aðeins um einn keisara að ræða, Shih-hwang-tí. Sagt
er, að nafn Kína sé runnið af orðinu Chin (Sinim, China).
Þessi keisari sameinaði ríkið og braut á bak aftur vald
aðalsmanna og smákonunga, en áður höfðu þeir verið
meira eða minna sjálfstæðir þjóðhöfðingjar. Shih-hwang-tí
lét einnig byggja múrinn mikla og lagði undir sig ný lönd.
Hann var mjög mikilhæfur keisari. En hann kemur við
bókmenntasöguna af þeim ástæðum, að hann skipaði svo
fyrir, að lífláta skyldi alla bókmenntafræðinga og brenna
öll fornrit og allar bækur, nema þær, sem fjölluðu um
akuryrkju, spásagnalist og stjörnufræði. Segir sagan, að
hann hafi látið jarða hina lærðu menn lifandi og sent er-
indreka sína um allar jarðir til að útrýma bókum. Þessi
ofsókn hefur eflaust haft sínar ástæður. Bylting keisar-
ans var róttæk, en bókmenntafræðingarnir voru íhald-
samir; þeir nutu verndar aðalsmanna og smákonunga,
sem keisarinn varð að brjóta á bak aftur. Hinir lærðu
menn voru keisaranum þrándur í götu. En sennilegt er
einnig, að ofsóknin hafi verið trúræns eðlis. Keisarinn var
hjátrúarfullur, og Chin-ættin virðist hafa barizt fyrir
fjölgyðistrú, en áður höfðu menn hneigzt til eins konar
frumeingyðistrúar jafnframt forfeðradýrkuninni (menn
höfðu að vísu trúað á tilvist margra guða, en undir yfir-
valdi eins guðs, henotheismus).