Skírnir - 01.01.1948, Side 124
122
Jóhann Hannesson
Skírnir
129) endurheimtust margar fornar bækur. Varð Hsien
frægur fyrir söfnunarstarf sitt og var talinn verndari
bókmenntafræðinga og velgerðamaður öðrum fremur.
Hsiian keisari kemur hér einnig við sögu. Árið 51 f. Kr.
kallaði hann saman fjölda lærðra manna til þess að ganga
frá hinum fornu textum. Væri hér of langt mál að rekja
það, en geta má þess, að árið 175 e. Kr. létu Kínverjar
höggva alla texta helgiritanna á steintöflur, og var þetta
gert á fleiri en einum stað í ríkinu, og er sumt af stein-
töflum þessum til enn í dag. Má af þessu ráða, að text-
arnir hafa ekki afbakazt mikið síðastliðin 1800 ár. Legge
telur, að engin þjóð önnur hafi varðveitt jafn-vel og Kín-
verjar texta frá fornöldinni.
Núverandi safn Lí-chí eru 46 „bækur“ eða þættir. Ber
sumt af efninu það með sér, að það er frá Chou-tímabil-
inu fyrir daga Kung-tzu. Sumar bækurnar í Lí-chí bera
það einnig með sér, að þær eru frá dögum hans, en aðrar
eru allmiklu yngri, þ. e. frá dögum Han-keisaranna.
Efni þessa helgirits er að miklu leyti um velsæmi og
helgisiði, en talsvert af því er þó heimspeki og saga. Orð-
ið „lí“, sem hér er notað, hefur bæði trúræna merkingu
(um þjónustu gagnvart andlegum verum) og siðferðilega
(um velvild, réttlæti, velsæmi og samúðarskilning). Hið
trúræna og siðferðilega er hér í afar nánum tengslum;
þetta er einnig skiljanlegt, er vér hugleiðum hina rótgrónu
skoðun í Kína, að samræmi sé æðsta hugsjón lífsins.
Sumir fræðimenn (Legge, Callery) hafa sagt, að Lí-chí
sé hin nákvæmasta og skýrasta mynd af kínverska þjóð-
flokknum, sem hann hefur gefið mannkyninu af sjálfum
sér. Um trúarbrögð Kínverja má sennilega læra meira af
þessu ritasafni en af öllum hinum helgiritunum saman-
lögðum. Að vísu lýsir það að nokkru leyti hugsunarhætti
Han-tímabilsins, en talsvert af efninu er mörgum öldum
eldra. Hér greinir frá fórnum, sem himninum, verndar-
guðunum og forfeðrunum voru færðar. Aftur á móti finn-
um vér ekki kerfisbundnar kenningar um sálarfræði, trú-