Skírnir - 01.01.1948, Page 129
Skírnir
Um kínverskar fornbókmenntir
127
hina miklu festu, sem hefur verið eitt megineinkenni hinn-
ar kínversku menningar öldum saman. Þetta fasta kerfi
er til orðið á upplausnartímum, eins og kerfi miðalda-
kirkjunnar í Evrópu varð til upp úr upplausn menningar
fornaldarinnar.
Hvað bækurnar fjórar snertir, þá hefur þegar verið
vikið nokkuð að tveim þeirra, með því að þær eru í Lí-chí.
Allar eru þær léttari aflestrar á frummálinu en hin þrjú
elztu helgirit, enda til orðnar á tímabili, þegar mikið var
ritað í Kína. Alþýða manna les þær miklu meira en sjálf
helgiritin, og menn kunna margar frægar setningar úr
þeim utanbókar.
Róttækir Kínafræðingar halda því fram, að Kung-tzu
hafi mótað hin þrjú elztu helgirit mjög mikið. Sennilega
ganga þeir of langt í gagnrýni sinni. Mér finnst sennileg-
ast, að áhrif hans á mótun þeirra hafi einkum verið fólg-
in í því, að sleppa sumu efni, sem honum þótti litlu máli
skipta.
Til helgirita Kung-tzu-stefnunnar hafa verið talin enn
fleiri rit en þau, sem nú eru viðurkennd. Eru þessi rit enn
til. Á dögum Tang-keisaranna á 9. öld e. Kr. er getið um
13 helgirit, sem öll voru letruð á steintöflur, og hafa þær
varðveitzt til þessa. En jafnan var þó kjarninn í helgirita-
safninu þau fimm rit, sem hér hefur verið greint frá. Og
Búddha-stefnan og Tao-stefnan eiga báðar mikið af sí-
gildum ritum, sem hafa ákveðin trúræn og bókmenntaleg
sérkenni. Þrátt fyrir mikil áhrif þessara stefna á kín-
verska menningu jöfnuðust þær aldrei á við þá stefnu,
sem Kung-tzu mótaði.
Um rithátt og framburð kínverskra orða.
I þessari ritgerð er fylgt því kerfi, sem nútíma fræði-
menn nota í orðabókum og vísindaritum, er fjalla um kín-
versk fræði. Þannig er nú ritað Kung-tzu í stað Konfúcíus
áður og Meng-tzu í stað Mencíus. Þetta er í samræmi við
hinn kínverska framburð þessara nafna.