Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 14

Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. janúar 2014 Í síðasta pistli Matvæla- stofnunar kom fram að færra fólk mun framkvæma eftirlit á sveitabæjum en hingað til. Sex nýir starfsmenn munu sinna eftirliti sem áður var unnið af tæplega 40 búfjáreftirlits mönnum. Ekki verður farið í eftirlit á hvern bæ eins og tíðkast hefur og mun Matvælastofnun beina eftirlitinu þangað sem mest er þörfin, með tilliti til velferðar dýra og matvælaöryggis, þ.e. áhættumiðað eftirlit. Á árinu mun stofnunin vinna að áhættuflokkun í alifugla-, svína, nautgripa-, sauðfjár-, hrossa og loðdýrahaldi og byggja eftirlitið frá árinu 2015 á þeirri flokkun. Á þessu ári verður að beita annarri nálgun til að ákveða hvar mesta þörfin er á eftirliti. Tekið verður mið af þekktri sögu búskapar á viðkomandi bæ, svo sem niðurstöðum skoðunar búfjáreftirlitsmanna, niðurstöðum úr heilbrigðisskoðunum í sláturhúsum, fyrri afskiptum stofnunarinnar og svo framvegis. Auk þess mun stofnunin afla upp- lýsinga hjá þeim sem starfa sinna vegna hafa skyldur til að tilkynna um illa meðferð á dýrum, sbr. lög um velferð dýra, en þar segir m.a. „Sérstaklega er dýralæknum og heilbrigðisstarfsmönnum dýra skylt að fylgjast með meðferð dýra, aðbúnaði dýra, aðgerðum og meðhöndlun dýra, dýrahaldi, aðferðum við dýrahald og útbúnaði dýra eftir því sem við verður komið og gera Matvælastofnun viðvart ef ætla má að aðstæður dýrs séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. 8. gr. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.“ Slembiúrtak og umbun Auk þekktrar sögu tiltekinna bæja mun stofnunin framkvæma eftirlit 2014 á grundvelli slembiúrtaks. Allir geta því átt von á eftirliti. Allir sem fá eftirlit þurfa að greiða fyrir framkvæmd þess. Því kann það að hljóma óréttlátt að bændur sem lenda í slembiúrtaki 2014 þurfi að greiða en ekki hinir sem „sleppa“ við eftirlit á árinu. Því er til að svara að það mun jafnast út næstu árin, ef búskapurinn reynist standast lög og reglur þá fær viðkomandi ekki eftirlit fyrr en að einhverjum árum liðnum. Þetta er kallað „frammistöðuflokkun“ sem er hluti af áhættuflokkuninni. Þeir sem eru með „fyrirmyndarbúskap“ munu fá helmingi minna eftirlit en meðal bú er talið þurfa samkvæmt áhættuflokkun en „búskussarnir“ fá helmingi meira eftirlit. Þannig fá fyrirmyndarbændur fjárhagslega umbun næstu árin (sleppa við eftirlit) og eftirlitinu verður meira beint að þeim sem ekki standa sig. Það er því til nokkurs að vinna að vera til fyrirmyndar, ferfætlingum og tvífætlingum líður betur á fyrirmyndar búum og slík bú ættu að geta markað sér betri stöðu á markaði með sínar afurðir. Eftirlit felst í því að ganga úr skugga um að viðkomandi búskapur uppfylli þá löggjöf sem gildir um starfsemina. Mikilvægt er að bændur þekki skyldur sínar og áríðandi að hagsmunasamtök þeirra stuðli að aukinni þekkingu í sérhverri búgrein. Í gegnum árin hefur eftirlitsmaðurinn (héraðsdýralæknir eða búfjár- eftirlitsmaður) verið hálfgerður ráðgjafi bænda um leið og hann framkvæmdi eftirlitið. Nú er þetta óheimilt, en eftirlitsmanni er þó heimilt að fræða og leiðbeina á almennan hátt. Ráðgjöf sækja bændur til sinna dýralækna og/eða Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Tvær skýrslur og andmælaréttur Niðurstöður eftirlits Matvæla- stofnunar eru færðar í gagnagrunn og kveður vinnuregla á um að skoðunarskýrslur séu sendar (t-póstur) bændum innan við viku frá því eftirlit var framkvæmt. Skoðunarskýrslur í frumframleiðslu eru tvær, annars vegar skýrsla vegna framleiðslu matvæla og fóðurs og hins vegar skýrsla vegna dýraheilbrigðis og velferðar. Ástæðan fyrir aðskildum skýrslum er aðgreining milli þeirrar löggjafar sem liggur til grundvallar. Bændur fá sem sagt tvær skýrslur og er veittur 2ja vikna frestur til að andmæla innihaldi þeirra og kröfum sem þar kunna að vera settar fram um úrbætur. Þetta er gert til að uppfylla ákvæði stjórnsýslulaga um að þegnum sé gert kleift að tjá sig áður en stjórnvald tekur ákvörðun. Ákvörðun Matvæla- stofnunar (kröfur um úrbætur) kemur síðan fram í endanlegum skoðunarskýrslum sem sendar eru bændum að tveimur vikum liðnum. Við eftirlit eru tiltekin atriði skoðuð og metið hvort þau uppfylla ákvæði laga og reglugerða. Ef svo reynist ekki vera þá metur eftirlits maður hversu alvar legt atvikið er og gefur því einkunnina „frávik“ eða „alvarlegt frávik“. Í grófum dráttum má segja að alvarlegt frávik þýði að málinu verði fylgt fast eftir og endar með stöðvun starf seminnar eða að dýr verði fjarlægð verði ekki brugðist við með fullnægjandi úrbótum. Frávikum er einnig fylgt eftir en úr bótum er gefinn meiri tími og afleiðingar eru ekki eins alvarlegar. Undanfarin misseri hefur ofan greindu fyrirkomulagi verið beitt í eftirliti hjá öllum matvæla- framleiðendum og nautgripa- bændum en öðrum bændum verður þetta framandi. Öll erum við að feta okkur áfram í nýju umhverfi opinbers eftirlits, nýtt fólk og nýtt verklag sem krefst þolin mæði og tillitssemi. Vonandi slípast þetta í framtíðinni á þann veg að allir geti vel við unað, matvæla öryggi og velferð dýra til framdráttar. Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir Áhættumiðað eftirlit ...frá heilbrigði til hollustu Fjárhagslegri endurskipulagningu Moltu ehf. í Eyjafirði lauk nú nýverið, að því er greint er frá á vefsíðu Byggðastofnunar. Félagið náði samkomulagi við stærstu kröfuhafa, sem hafa nú endur- skipulagt fjárhag félagsins. Eftir endurskipulagninguna eru Flokkun ehf. og Byggðastofnun stærstu hluthafar félagsins. Sveitarfélögin á Eyjafjarðarsvæðinu eiga þó yfir helmings hlut, ýmist beint eða óbeint í gegnum eignarhlut í Flokkun ehf. Afkastar 10–13 þúsund tonnum Mikil þörf er fyrir starfsemi Moltu ehf. á svæðinu, en félagið vinnur moltu úr lífrænum úrgangi. Stöðin, sem var formlega opnuð í ágúst 2009, er ein stærsta jarðgerðarstöð sinnar tegundar í Evrópu og er ætlað að taka á móti lífrænum úrgangi á Akureyri, af Eyjafjarðar- svæðinu og úr Suður-Þingeyjar- sýslu. A f k a s t a g e t a stöðvarinnar er 10–13 þúsund tonn en nú fara um fimm þúsund tonn af lífrænum úrgangi árlega í gegnum jarðgerðarstöðina, þar af tæp tvö tonn af sláturúrgangi og 1,2 tonn af lífrænum úrgangi frá heimilum á svæðinu. Fjárhagslegri endurskipulagningu á Moltu ehf. í Eyjafirði er lokið Húnavatnssýslurnar fóru illa út úr skógareyðingu fyrri alda en hafa blessunarlega verið lausar við hina miklu gróður- og jarðvegseyðingu sem eytt hefur öllum gróðri og jarðvegi á stórum svæðum á Íslandi. Bergsveinn Þórsson, svæðisstjóri Norðurlandsskóga í Skagafirði og Húnavatnssýslum, fjallar um skógrækt í grein á vef Norðurlandsskóga og segir þar að ekki sé með vissu hægt að tímasetja hvenær síðustu náttúrulegu skógarnir hafi horfið úr sýslunum. Seinni hluta 20. aldar hafi heimamenn stundum talað um „tréð“ í Vatnsdalnum, en á þeim tíma hafi varla verið um annað tré að ræða í öllum Húnavatnssýslum en eina reynihríslu sem óx hátt uppi í grjóturð í Vatnsdalsfjalli. „Þessi reynir stendur þarna enn og svo illfært er að hríslunni að hvorki menn né kindur geta sótt í hana með góðu móti,“ segir Bergsveinn í grein sinni en getur þess að þegar kom fram yfir aldamótin 1900 hafi áhugi margra á að reyna trjárækt vaknað. Húnvetningar plöntuðu margir hverjir trjám heima við hús þegar líða fór á öldina og einnig urðu til nokkrir skógarreitir í eigu ungmennafélaga, einstaklinga og skógræktarfélaga. Skógræktin hafi þó verið fremur smá í sniðum ef frá er skilinn skógurinn á Gunnfríðarstöðum á Bakásum. 1900 ha teknir undir skógrækt Nú hafa 27 jarðir í Húnavatnssýslum gert samning við Norðurlandsskóga og alls hafa um 1.900 ha verið teknir til skógræktar. Búið er að gróðursetja í rúmlega helming þessa svæðis, eða um 1.000 ha. Allar helstu trjátegundir sem reynst hafa vel í skógrækt á Íslandi hafa verið gróðursettar en mest hefur verið plantað af lerki og birki. „Nú kann að vera að einhverjir sem ekki hafa kynnt sér kosti skógræktar telji að þarna sé verið að þrengja að hefðbundnum landbúnaði en svo er ekki. Húnavatnssýslurnar er láglendar og vel grónar, land undir 400 m hæð yfir sjávarmáli er alls um 304.000 ha svo þeir tæplega 2.000 ha sem er búið að taka undir skógrækt er eins og pálmatré í Sahara, snjókorn á jökli, dropi í hafi, Íslendingur í Kína,“ segir Bergsveinn. Hann nefnir að veðurfar í Húnavatnssýslum hafi verið nefnt sem ástæða fyrir því að sleppa skógrækt í Húnavatnssýslum og vissulega sé það rétt að sýslurnar myndu seint teljast með heitustu svæðum landsins. Bergsveinn hefur skoðað hitafarsgögn fyrir sumarmánuðina fimm, tímabilið frá maí og til loka september, en þeir skipta mestu varðandi vöxt trjágróðurs. Hiti fer hækkandi Tímabilið sem hann skoðaði er frá árinu 1982 til 2012 og fer hiti hækkandi eftir því sem líður á, eða nálægt 1,5 °C frá 1982 og er meðaltal þessara fimm mánaða nú nálægt 8,7 °C. „Ef leitnin er reiknuð á sama hátt fyrir Akureyri sést að hitinn hefur líka hækkað þar og er nú nálægt 9,4 °C fyrir þessa fimm mánuði,“ segir Bergsveinn í grein sinni. Þar í bæ var hitinn í kringum 8,7 °C árið 1990 líkt og hann er nú á Blönduósi. Á þeim tíma hafði skógrækt í Eyjafirði verið styrkt í áratug, því talið var að á því mætti rækta skóg með góðum árangri. Húnvetningar standi nú í sömu sporum, en bæði hitatölur og reynsla sýni að hægt sé að stunda skógrækt með góðum árangri í Húnavatnssýslum. Bændablaðið Smáauglýsingar 56-30-300 Hægt að stunda skógrækt með góðum árangri í Húnavatnssýslum: Búið að gróðursetja í rúmlega helming 1.900 hektara skógræktarsvæðis -

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.