Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 20

Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. janúar 2014 Grein um lágtæknivirkjanir sem var í Bændablaðinu 31. október vakti töluverða athygli og hefur undirrituðum borist fjöldi fyrirspurna vegna þeirrar umfjöllunar. Margir bændur og landeigendur víða um land hafa aðgang að rennandi vatni sem áhugi er á að nýta til virkjunar, án þess að endilega sé um mikla fallhæð sé að ræða sem hægt er að virkja með hefðbundnum fallvatnstúrbínum. Vegna þessa áhuga er hér orðið við óskum um að draga saman fleiri upplýsingar um þróun í smíði margvíslegra virkjana. Ekki er ljóst hversu mikið afl er virkjanlegt hér á landi með hægrennslisvirkjunum, en fullyrða má að í heild sé það afl verulegt. Í rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða er fullyrt, en þó með fyrirvara um ýmsa óvissuþætti, að nýtanlegt vatnsafl sé í kringum 30-35.000 GWh (gígavattstundir) á ári og jarðhiti til raforkuvinnslu gefi um 25–30.000 GWh á ári – alls á milli 55.000 og 65.000 GWh á ári. Þessar tölur eru hins vegar unnar út frá hefðbundnum viðmiðunum um virkjun fallvatna en ekki út frá mögulegri nýtingu vatnsrennslis án uppistöðulóna. Auk þess er búið að taka þarna út fyrir sviga stóra og umdeilda virkjunarkosti í hefðbundnum vatnsaflsvirkjunum samkvæmt afar huglægu mati um „ásættanleg umhverfisáhrif“. Samkvæmt tölum Orkustofnunar er áætlað að í jöklum landsins sé bundin orka sem nemur allt að 7.600 teravattstundum (TWh.). Þá er úrkoman talin gefa 285 TWh á ári. Þegar uppgufun og afföll vegna skriðjökla og annars eru dregin frá, þá eru að mati Orkustofnunar eftir vatnsorka í rennandi vatni á yfirborði jarðar sem nemur 187 TWh/a. Þar af telst nýtanlegt vatnsafl vera aðeins 64 TWh/a, og er þá miðað við nýtingu í skrefum sem eru minnst 1 MW að afli og með minnst 5 m fallhæð á hverjum 5 km. Eftir verður því veruleg orka í yfirborðsvatni sem telst vera full dreifð til að hún nýtist í nægilega hagkvæmum virkjunum.– „Þó er hugsanlegt að byggja megi smávirkjanir á þessum orkustraumi hér og þar við góðar aðstæður, og hefur verið uppi viðleitni til þess á seinni árum," segir á vefsíðu Orkustofnunar. Gríðarlegt afl rennur enn óbeislað til sjávar Ef undan eru skildar smáár og lækir sem vissulega væri hægt að nýta fyrir smávirkjanir rennur stöðugt til sjávar gríðarlegt vatnsmagn sem virkja mætti með hægstraumsvirkjunum án stíflugerðar. Nægir þar að nefna Markarfljót, Rangárnar, neðri hluta Þjórsár, Hvítá á Suðurlandi og Sogið. Mikinn fjölda annarra öflugra straumvatna á Suðurlandi, Suð-Austurlandi, Austfjörðum, Norðurlandi, Vesturlandi og jafnvel á Vestfjörðum mætti nefna með slíka nýtingu í huga. Þegar talað er um virkjanlegt vatnsafl á Íslandi er þetta afl að mestu utan sviga því skilningur manna á virkjunarkostum hingað til hefur miðast við fallvatnsvirkjanir og jarðhitaorku eins og fyrr greinir. Annars má benda á leiðbeiningarrit um litlar vatnsaflsvirkjanir sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Það miðast þó líka við hefðbundnar vatnsaflsvirkjanir. Virkjanir í neðri hluta Þjórsár, sem Landsvirkjun hefur verið með á teikniborðinu og kallar rennslisvirkjanir, eru í eðli sínu sama fyrirbærið og aðrar fallvatnsvirkjanir. Þar er gert ráð fyrir uppistöðulónum þó „lítil“ séu. Umræður um þessar virkjanir eru því verulega villandi í samanburði við umræðu um raunverulegar rennslis- eða straumvirkjanir sem nýtt geta venjulegt straumflæði ánna. Áætlanir Landsvirkjunar m i ð a s t v ið byggingu uppistöðulóna og virkjun vatnsfallsins með hefðbundnum hætti þó fallhæðin sé ekki mikil. Umhverfisáhrif þeirra virkjana yrðu töluverð, þó umfangið yrði ásættanlegt að margra mati á mælikvarða stóru virkjananna ofar á Þjórsársvæðinu. Mikill áhugi er samt greinilega á að skoða virkjun straumvatnsins án uppistöðulóna. Þó að afkastagetan verði aldrei sambærileg við stærri virkjanir með uppistöðulónum gætu þær fyllilega átt rétt á sér þar sem umhverfissjónarmið vega þungt í afstöðu manna til virkjana. Ekki er alltaf þörf á stíflumannvirkjum Kosturinn við hægstraumsvirkjanir er að rennsli er víða hægt að virkja án þess að stífla árfarvegi og sökkva landi. Því er ekki verið að ráðast í óafturkræfar aðgerðir á náttúru landsins. Gallinn er hins vegar sá að þar sem stöðurennsli er ekki nægt yrði raforkuframleiðsla slíkra virkjana meira háð náttúrulegum sveiflum í úrkomu en hefðbundnar fallvatnsvirkjanir með stórum stíflumannvirkjum. Þetta þarf þó alls ekki að vera galli ef fyrir fram er gengið út frá þessum sveiflum og mögulega verið að framleiða úr orkunni sem þarna fæst orkumiðla á borð við vetni. Það væri síðan hægt að nýta til eldsneytisframleiðslu m.a. úr lífmassa. Með slíku móti væri hægt að geyma orkuna þar til hennar væri þörf. Þess má geta að um 15% af orkuþörf Íslendinga er flutt inn í formi fljótandi eldsneytis sem líklega mætti framleiða að verulegu leyti hér á landi með vistvænum og sjálfbærum hætti. Er vinna einmitt í gangi þessa dagana við að skoða slíka framleiðslu. Einföld undirrennslishjól Einfalt dæmi um hægrennslisvirkjanir er svokallað undirrennslis vatnshjól (e. undershot waterwheel) sem er 3 metrar í þvermál, það situr á flotholtum og er hjólið því alltaf með sama snertiflöt við vatnið sama hversu hátt vatnsyfirborðið er. Slík hjól eru tiltölulega einföld í smíði. Hvaða vélsmiðja sem er ætti að ráða vel við slíkt og líka þokkalega laghentir bændur. Stærð vatnshjólsins ræðst þó bara af straumþunga þeirrar vatnssprænu sem á að virkja. Þriggja metra vatnshjólið sem hér um ræðir er 1,86 metrar að breidd og vegur með flotholtum og öllu um 990 kg. Afkastageta þessa hjóls ræðst af straumhraða. Auðvitað er svo hægt að hafa það slík hjól stærri ef vatnið er nægt. Annað skemmtilegt dæmi um heimasmíðað undirrennslisvatnshjól sem náungi að nafni Allan smíðaði eftir teikningum Ron Shannon í Ástralíu. Má finna nákvæmar upplýsingar um það á vef slóðinni http://www. builditsolar.com/Projects/Hydro/ UnderShot/I%20really%20miss%20 the%20old%20days.pdf. Þetta hjól ætti að gefa nægt afl til að sinna lágmarks raforkuþörf í sumarbústað. Heimasmíðuð túrbína Enn frekari upplýsingar um heimasmíði slíks búnaðar má finna á vefslóðinni; http://www. otherpower.com/scotthydro1.html þar sem rafalinn sjálfur er meira að segja heimasmíðaður. Þar byrjaði viðkomandi á að verða sér úti um trékefli undan rafmagnsvír þar sem endarnir á keflinu voru um einn metri að þvermáli. Síðan varð hann sér úti um plaströr sem má vera 30 til 40 sentímetrar í þvermál. Rörið er sniðið niður í réttar lengdir og síðan sagað eftir endilöngu. Einnig stálöxul (3/8“), tvær legur, tennt hjól fyrir keðju. Í ruslahaug fann hann síðan gamlan 48 volta rafal úr Chevrolet sem gaf 12 amper til að hlaða straum á 12 volta rafgeymi. Kostnaðurinn hjá þessum einstaklingi fólst aðallega í hans eigin vinnuframlagi og útsjónarsemi. Yfirrennslishjól með meiri orkunýtni Yfirrennslishjól (e. overshot waterwheel) eru af svipuðum toga en þó á föstu landi. Þá er vatnið leitt um pípu eða stokk og látið falla efst á hjólið. Hægt er að ná allt að tvöfalt meira afli út úr slíkum búnaði en sambærilegu undirrennslishjóli samkvæmt töflum Greenenergy Research Center. Ekki er þó þörf á uppistöðulóni við slíka virkjun. HydroCat-túrbína Annars konar útgáfa af fljótandi undirrennslistúrbínu er HydroCat, sem áður hefur lítillega verið minnst á í Bændablaðinu. Slíkar orkustöðvar munu hafa verið hannaðar í ýmsum stærðum. Fleiri útgáfur af svipuðum toga má finna víða um heim og eru Kínverjar m.a. öflugir á því sviði. Hydrovolt-skurðatúrbína Enn ein útgáfa af hægrennslisvirkjun er hönnun fyrirtækisins Hydrovolts eða svokölluð skurðatúrbína, „Canal Turbine“. Hún er ekki stór, eða um 4 metrar að breidd, um 1,80 á hæð og tæpir 2,5 metrar að dýpt. Hún vegur um 2,7 tonn og getur skilað nærri 13 kílóvöttum af raforku miðað við þriggja metra straumhraða á sekúndu. Áætlaður líftími er 20 ár. Orkustöðvar af þessari gerð eru til frá 100 vöttum upp í 16 kílóvött. Francis-, Kaplan- og Pelton- túrbínur Á vefsíðu fyrirtækisins Hydro Energy, sem er m.a. einn af samstarfsaðilum Orkuvers í Kópavogi, er hægt að finna ýmislegt um mismunandi gerðir túrbína sem fyrirtækið framleiðir. Þar eru t.d. Francis-, Kaplan- og Pelton- túrbínur, sem hver um sig hæfir ákveðnu hlutverki. Með einföldum hætti má segja að Francis-túrbínur, þar sem vatn er leitt að þeim í snigli, ráði við mjög fjölbreyttar aðstæður í vatnsbúskap. Kaplan-túrbínur, sem eru eins og skipsskrúfa inni í röri, eru hins vegar hannaðar til að framleiða raforku þar sem vatnsrennsli er tiltölulega mikið en fallhæð lítil og þar með lágur þrýstingur. Pelton-túrbínur, með skófluhjólum sínum, nýtast aftur á móti vel í fjallalendi þegar vatn er tiltölulega lítið eða notast er við uppistöðulón en fallhæð og þrýstingur mikill. IREM-smávirkjanatúrbínur Kapparnir hjá Orkuveri í Kópavogi hafa mikla þekkingu og líka reynslu af uppsetningu og rekstri virkjana. Annar samstarfsaðili Orkuvers er ítalska fyrirtækið IREM, sem á sjötta áratug síðustu aldar hóf að framleiða búnað fyrir smávirkjanir eða „örvirkjanir“ Mikill áhugi landeigenda og bænda á smávirkjunum af ýmsum toga: Ýmsir möguleikar eru fyrir hendi í virkjun á vatni án uppistöðulóna Orkumál Þær þurfa ekki alltaf að vera stórar í sniðum virkjanirnar þótt þær geti samt gert sitt gagn. Einföld útgáfa af virkjun með undir- rennslishjóli. Önnur útgáfa af Hydrovolt-túrbínu. Minnsta gerðin af IREM Pelton einfasa 230 volta og 50 rið. Stærri túrbínurnar af sömu gerð gefa 230/400 volt. Hér sést innvolsið í IREM Pelton- - Fljótandi HydroCat-túrbína. Hörður Kristjánsson hk@bondi.is

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.