Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. janúar 2014 Í næstu viku held ég til Danmerkur, að heimsækja gömlu herraþjóðina. Eitt áhyggjuefni fylgir þessari för og það er hvað skuli borða á meðan á dvölinni stendur. Ég hef haft það fyrir reglu að byrja á því þegar ég kem til Kaupmanna hafnar að fá mér pylsu í einhverjum pylsuvagnanna sem víða má enn finna. Miðað við fréttir af matvælaiðnaðinum bæði hérlendis og í Evrópu má ætla að pylsan mín verði úr rúmensku hrossakjöti eða slóvensku grænmetisfrauði með svínabragði. En alltaf skal ég freistast, þrátt fyrir óvissuna. En maðurinn lifir ekki á brauði og pylsum einu saman. Því er ágætt að finna hentuga veitingastaði sem snæða má á. Einn þeirra sem ég hef áhuga á að komast á heitir Rub and Stub og hefur þá sérstöðu að allt hráefni sem notað er á staðnum kemur, ekki beinlínis úr ruslinu, en er búinn til úr mat sem bændur og stórmarkaðir myndu ellegar fleygja. Staðurinn, sem að mestu leyti er rekinn af sjálfboðaliðum, nýtir matvöru sem er farin að nálgast síðasta neysludag, útlitsgallað grænmeti og önnur hráefni sem annars myndu enda í ruslinu. Markmið staðarins er að draga úr sóun og vinna gegn offramleiðslu. Ekki er ég þó viss um að ég fái að vita uppruna matvælanna sem ég mun vonandi fá að njóta á staðnum. Mér er í sjálfu sér slétt sama um hvort ég fæ að vita uppruna matarins sem ég mun borða í Kaupmannahöfn í næstu viku. Ég tek sjálfur þá ákvörðun að fara í pylsuvagninn og fá mér pylsu af óþekktum uppruna. Ég tek sjálfur ákvörðun um að fara á veitingastað sem býður upp á mat sem annars yrði hent og dettur ekki í hug að heimta upprunavottorðið á kartöflustöppunni sem verður kannski í boði með kjötbollunum. Vilji ég hins vegar fá að vita uppruna þess matar sem ég hyggst neyta, hvort heldur sem er hér á Íslandi eða í Danmörku, finnst mér ég eiga til þess skýlausan rétt. Ég efast stórlega um að ég fái í magann af því að éta piparost sem írskt smjör hefur verið notað í. Ég held ekki að ég sé í hættu með að fá kransæðastíflu ef ég borða innflutt beikon, í það minnsta engu meiri hættu en ef ég borða innlent beikon. Það mun ekki valda mér varanlegum skaða að borða nautakjötslausar kjötbökur, né heldur mun ég steypast út í rauðum ofnæmisflekkjum ef ég ét hollenskan tómat. En, fjandinn hafi það, ég gæti hugsanlega fengið flog af reiði yfir því að matvælafyrirtæki, innflytjendur og verslunin telji það bara sjálfsagt og eðlilegt mál að blekkja neytendur. Skammist ykkar. Upplýsingar eru grundvöllur fyrir ákvarðanatöku neytenda. Þeim er svo í sjálfsvald sett hvernig þeir nýta upplýsingarnar. Ég til dæmis sniðgeng allar vörur frá Ísrael til að mótmæla ólöglegu hernámi Ísraelsmanna í Palestínu. Það hefur ekkert með það að gera hvort ég telji lárperur frá Ísrael heilnæma fæðu. Til þess að geta staðið við þessa ákvörðun mína þarf ég hins vegar upplýsingar, réttar upplýsingar. Það er kominn tími til að fyrirtæki fari að haga sér með ábyrgum hætti í samskiptum við neytendur. Hættið að ljúga, blekkja, svíkja og pretta. Hættið að hækka verð langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Innleiðið samfélagslega ábyrgð í reksturinn. /fr STEKKUR Valkvíði við pylsuvagninn Notuð dekk á netinu: Stofnaði umboðssölu með notuð dekk og felgur eftir að hafa þurft að leita sjálfur – eigandinn hafði aldrei umfelgað dekk áður en fyrirtækið var stofnað Í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði er rekið óvenjulegt dekkja verkstæði. Dekkjasalan er raunar ekki dekkjaverkstæði nema að litlum hluta, heldur umboðssala fyrir notuð dekk og felgur. Þegar gengið er inn í húsnæðið má sjá hundruð dekkja, ýmist stök dekk, tvö saman eða heilan fjögurra dekkja gang. Skrifstofan er óvenju vel búin tölvukosti af dekkjaverkstæði að vera en það er nauðsynlegt þar eð öll dekk og felgur sem koma í sölu hjá fyrirtækinu eru yfirfarin, mynduð og upplýsingarnar ásamt mynd sett inn á heimasíðu fyrirtækisins. Það er viðskiptahugmyndina, sem Valdimar Sigurjónsson fékk fyrir nokkrum árum um að koma notuðum dekkjum og felgum öllum á einn stað, halda skipulega utan um vöruna og gera það einfalt og auðvelt fyrir fólk að finna það sem vantar. Dekkjasalan var stofnuð árið 2010 af Valdimar. „Hugmyndin kviknaði þegar ég var að vinna í Bolungarvíkurgöngunum sumarið 2009 og lenti í að skemma hjá mér dekk og felgu. Ég fór að reyna að leita á netinu og nýta svo tímann þegar ég kom hingað suður í að hafa uppi á dekkjum og felgum. Það fór heilmikill tími í þetta og þetta var óttalegt vesen. Upp úr því ákvað ég að fara af stað með þetta. Ég byrjaði á að leigja hér neðri hæð þangað sem ég tók dekk inn. Svo þurfti ég á meira plássi að halda og leigði efri hæðina hér í húsnæðinu en það var ekki nóg. Þetta hefur verið alveg stanslaus aukning. Nú er þetta orðið þannig að við þurfum að setja sumardekk í gáma og keyra þá burt í geymslu yfir vetrartímann. Við erum komnir með meira og minna allt húsnæði hér í kring undir geymslu á dekkjum og felgum.“ Mikill vöxtur á stuttum tíma Valdimar er lögfræðingur að mennt og segir að það hjálpi verulega í rekstrinum. Hann byrjaði einn með fyrirtækið, sem nú hefur undið verulega upp á sig. „Hugsunin var að vera með þessa umboðssölu auk annars en ég hef varla komið heim til mín í þrjú og hálft ár. Þetta hafa oft verið 16 til 18 tíma vinnudagar.“ Nýlega stækkaði fyrirtækið enn við sig og setti upp bílalyftu þar sem hægt er að skipta um dekk og umfelga. Valdimar segir að mjög mikið sé um að fólk nýti sér þá þjónustu. Fjórir starfsmenn eru í fullri vinnu hjá fyrirtækinu og stefnt að því að fjölga upp í sex eða sjö á vori komandi. Taka við dekkjum úr bílskúrum og geymslum Dekkin og felgurnar sem til sölu eru hjá fyrirtækinu koma þangað með ýmsu móti. „Það er fólk sem er að taka til í geymslum og bílskúrum, selja bíla og annað í þeim dúr sem kemur með vörur hingað til okkar. Bílaleigur og aðrir sem eru í rekstri koma með dekk sem tekin eru undan þeirra bílum. Þó eru þetta í meirihluta einstaklingar sem koma með sín dekk til okkar, í kringum 70 prósent myndi ég áætla. Við förum í gegnum þetta, hendum því sem er ónothæft og tökum hitt frá. Þetta er síðan allt skráð í tölvukerfið á rétta eigendur, myndir teknar og dekkjunum komið fyrir hjá sambærilegum dekkjum. Við tökum við flest öllu sem ekki er ónýtt. Við tökum við stökum dekkjum, stökum felgum og öðru. Við erum þeir einu á landinu sem eru með stakar felgur, í það minnsta í einhverju magni. Það er orðið þannig að ef fólk lendir í tjóni á felgu eða einu dekki eru talsverðar líkur á að það endi hér hjá okkur, að því sé vísað áfram af verkstæðum til okkar, og þá eru talsverðar líkur á að við eigum það sem fólki vantar. Við erum til að mynda með á annað þúsund stök dekk og við erum með eitthvað um 3.000 felgur.“ Notuð dekk nýtast En það eru ekki bara þeir sem vantar stök dekk eða felgur sem leita til Valdimars. „Það er afar misjafnt hverju fólk er að leita eftir. Margir eru að spara sér peninga með því að skipta við okkur með öll sín dekk. Þó að dekk séu orðin eitthvað slitin geta þau nýst einhverjum. Ég get tekið sem dæmi fólk sem á negldan vetrardekkjagang en er á sumardekkjum sem eru orðin ónýt seinnipart sumars, kannski í ágúst. Þá vantar fólk dekk til að setja undir í tvo mánuði til að brúa bilið og þar getum við hjálpað. Sömuleiðis hefur komið til okkar fólk sem býr erlendis en á hér bíl sem það notar kannski lítillega yfir sumartímann. Það væri kostnaðarsamt fyrir það fólk að þurfa að kaupa ný dekk miðað við þá notkun.“ Bjóða líka vinnuvéladekk Dekkjasalan býður jafnframt upp á önnur dekk en fólksbíladekk, þótt í mun minni mæli sé. „Við höfum verið að taka aðeins á móti vinnuvéladekkjum og vörubíladekkjum. Þau taka hins vegar mjög mikið pláss og við höfum ekki getað þjónustað þessi stærri tæki við að setja undir dekk. Við reynum hins vegar að taka við flestu sem til okkar kemur eða koma fólki í samband við aðila þegar á þarf að halda. Við erum einnig með lista yfir dráttarvéladekk en höfum hins vegar ekki tekið þau hingað til okkar heldur haft milligöngu um að koma fólki í samband.“ Getur sparað fólki verulegar upphæðir Valdimar segir að efnahagsástandið hafi vissulega haft áhrif varðandi eftirspurn eftir notuðum dekkjum. „Þessi kreppa sem varð kallað kannski fram meiri nýtni í fólki. Það er hins vegar alltaf ákveðinn hópur sem áttar sig á hagfræðinni í þessu. Það eru dekk og felgur undir hverjum einasta bíl þannig að það eru kannski vel á aðra milljón dekkja í umferð. Fyrirtæki eins og þetta þarf ekki að fá inn háa prósentu af þeim öllum til að geta þjónustað fólk mjög vel. Á verkstæðum getur verið erfitt að halda utan um þessa hluti. Megnið af þessum dekkjum verður að vera hér á svæðinu til að fólk geti komið hingað og skoðað þau dekk sem það hefur augastað á.“ Fólk getur sparað sér talsverðar upphæðir með því að kaupa notað. „Segjum að þú kaupir þér dekk hér á verkstæðinu við hliðina á okkur, komir með bílinn hingað og látir taka þau undan og setja í sölu. Þá teljast þau vera notuð og verðið hefur fallið um 20 prósent eða svo. Það er ekki óeðlilegt að fólk geti sparað allt upp í þriðjung af því sem það væri að borga fyrir nýtt, og jafnvel meira,“ segir Valdimar. Algengt er að sjá varað við því að keypt séu notuð dekk undir bíla, til að mynda í sérblöðum um bíla eða neytendablöðum. Valdimar gefur lítið fyrir þá gagnrýni. „Jú, maður sér þessar greinar en ég gef ekki mikið fyrir þær. Fólk notar sjálft sín eigin dekk þar til þau eru ónýt. Það er því ekkert óeðlilegt við að notuð dekk séu á markaðnum. Við bjóðum upp á skilafrest þannig að bili eitthvað ganga kaupin bara til baka.“ Fyrst núna að þora að segja frá Ætla mætti að Valdimar hefði hrærst í dekkjabransanum svo árum skiptir. Svo er þó ekki. „Ég hafði aldrei umfelgað dekk áður en ég stofnaði fyrirtækið. Það er fyrst núna að maður er farinn að þora að segja frá þessu. Það er samt með þetta eins og allt annað, ef maður setur undir sig hausinn þá gengur það. Í þessu tilviki hefur það sannarlega gengið upp.“ /fr Valdimar segir að fólk geti sparað sér háar fjárhæðir með því að kaupa notuð dekk. Mikill kostnaður getur fylgt því ef eitt dekk skemmist og kaupa þarf ný dekk undir bílinn. Mikill kostnaður getur fylgt því ef eitt dekk skemmist og kaupa þarf ný dekk undir bílinn.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.