Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 30

Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. janúar 2014 Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen þjóðfræðingur og garðyrkjufræðingur Þótt ótrúlegt megi virðast er sólin farin að hækka á lofti og kominn tími til að huga að sáningu fyrir sumarið. Í grunninn skiptir ekki máli hvort sá á sumarblómum, krydd- og matjurtum eða fjölæringum, aðferðin er sú sama. Í daglegu tali er það sem við kölluð sumarblóm fljótvaxnar, ein- eða tvíærar plöntur sem vaxa upp af fræi og blómstra um sumarið. Flest sumarblóm, eins og stjúpur, fagur- fífill, ilmbaunir og fiðrildablóm, eru ræktuð vegna blómfegurðar en önnur, til dæmis silfurkambur og skrautkál, vegna blaðanna. Krydd- og matjurtir eru ræktaðar til átu og í flestum tilfellum einærar plöntur hér á landi. Fjölæringar, eins og nafnið gefur til kynna, eru aftur á móti plöntur sem lifa í mörg ár og koma upp aftur og aftur við réttar aðstæður. Góður undirbúningur nauðsynlegur Auðveldara er en flesta grunar að rækta plöntur af fræi. Að vísu þarf að vanda allan undirbúning og gæta þess að verkfæri og pottar séu hreinir. Best er að nota sáðmold sem hægt er að kaupa í gróðurvöru- verslunum eða svokallaðar sáðtöflur sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir fræ. Í töflunum er sáðmold sem lyftir sér þegar hún blotnar og fræin skjóta rótum í hana. Í sáðmold eru öll næringarefni sem ungplönturnar þurfa og töflunum fylgir sá kostur að hægt er að planta moldarkögglinum í stærri pott án þess að hreyfa við plöntunni sjálfri. Þegar sáð er í gamla bakka eða potta verður að þvo ílátin með heitu sápuvatni og hreinsa vel svo engin óhreinindi verði eftir og til að koma í veg fyrir rótarhálsrotnum hjá ung- plöntunum. Rótarhálsrotnun stafar af sveppasýkingu sem lýsir sér í því að plönturnar verða svartar við rótarhálsinn og drepast. Sáning Gæta skal þess að kaupa fræ af plöntum sem dafna vel þar sem þeim er ætlað að standa um sum- arið. Lítið fæst með því að rækta upp plöntur sem þurfa mikla sól og setja þær síðan á skuggsælan stað í garðinum. Flestar sumarblóm þurfa birtu þrátt fyrir að sumar tegundir standi sig ótrúlega vel í skugga. Einnig verður að huga að hæð plantnanna og muna að lágvaxnar plöntur henta betur þar sem vindur blæs. Þegar búið er að setja sáðmold- ina í ræktunarílátið skal þjappa henni lauslega og vökva þannig að hún verði rök en ekki blaut í gegn. Einnig er hægt að setja venjulega gróðurmold í ílátið og tommuþykkt lag af sáðmold yfir hana. Fræin spíra í sáðmoldinni og vaxa síðan niður í gróðurmoldina. Þannig má spara sér að dreifplanta plöntunum í stærri potta um tíma. Fræinu skal sáldrað jafnt yfir moldina og þess gætt að það falli ekki of þétt. Að því loknu er þunnu moldarlagi, tvöfaldri stærð fræj- anna, stráð yfir. Séu fræin mjög smá er nóg að þjappa þeim laus- lega niður í moldina. Til að koma í veg fyrir að moldin og fræin fari af stað í bökkum við vökvun er gott að leggja blað yfir moldina og vökva varlega yfir það. Munið að setja pinna með nafni tegundarinnar og lit í ræktunarílátið. Hæfilegt hitastig við spírun hjá flestum tegundum er um 18 til 20 °C en gott er að lækka hitann um nokkrar gráður eftir að plönturnar koma upp. Annars vaxa þær of hratt og verða renglulegar. Þar sem lítillar birtu gætir er nauðsynlegt að notast við raflýsingu til að koma í veg fyrir svokallaðar myrkraspírur. Yfirleitt nægir þó að láta ræktunarílátið á bjartan stað því ekkert kemur í stað góðrar dagsbirtu. Spírunartími fræja er mis- munandi og því nauðsynlegt að hafa hann í huga þegar sáning er undirbúin. Sumum sumarblómum, eins og rauðum stjúpum, þarf að sá inni í janúar vegna þess hversu lengi þau eru að spíra, en fræi af kletta- salati er sáð beint í beð lok maí. Dreifplöntun og hersla Fyrstu blöðin koma yfirleitt upp úr moldinni nokkrum dögum eftir sáningu og eftir því sem plöntunar stækka verða þær fyrirferðarmeiri og þurfa meira rými. Skömmu eftir að venjuleg laufblöð taka við af kímblöðum, en svo nefnast fyrstu blöðin sem koma upp úr moldinni, er nauðsynlegt að dreifplanta eða prikkla plöntunum út í stærri pott eða auka bilið á milli þeirra í sáðbakkanum. Sé plöntunum dreifplantað í bakka fer bilið á milli þeirra eftir tegundum en í flestum tilfellum er það haft um fimm sentí- metrar. Skyr- og jógúrtdósir henta vel til dreifsáningar sé þess gætt að setja gat í botninn til að koma í veg fyrir ofvökvun. Þegar hér er komið sögu eru ung- plönturnar í miklum vexti og gott að vökva þær með áburðarblöndu að minnsta kosti einu sinni í viku. Plantað út í garð Áður en plönturnar eru settar út í garð er nauðsynlegt að venja þær við hitastigið utandyra til að koma í veg fyrir sjokk þegar þeim er plantað út. Þetta er gert með því að flytja plönturnar í vermireit eða með því að láta þær standa úti hluta dags, en verja fyrir næturfrosti og lengja útivistartímann eftir því sem hlýnar í veðri. Séu plönturnar hertar of hratt fá blöðin á sig bláan lit og vöxtur stöðvast. Stjúpur, fagurfífill og fjólur þola vel kulda og hægt að setja í útireit með yfirbreiðslu í byrjun apríl en flauels- og klæðis- blóm þola kulda afar illa. Sólin hækkar á lofti og það styttist í sáningu janúar Hnúðskáblað Begonia tuberhybrida janúar–febrúar Blóðdropar Krists Fuchsia x hybrid Fagurfífill Bellis perennis Fjallafjóla Viola cornuta & V. x williamsii Silfurkambur Senecio cineraria Sólboði Osteospermum-blendingar Sólbrúður Pericallis x hybrid Stjúpublóm Viola x wittrockiana rauðar Tóbakshorn Petunia x atkinsiana febrúar Stjúpublóm Viola x wittrockiana – aðrar en rauðar Drottningarfífill Zinnia elegans Ljónsmunnur Antirrhinum majus Mánafífill Gazania x hybrida Stjörnuklukka Campanula poscharskyana febrúar–mars Brúðarauga Lobelia erinus Frúarhattur Rudbeckia fulgida var. speciosa Meyjarblóm Clarkia amoena Svartauga Thunbergia alata mars Apablóm Mimulus cupreus Bláhnoða Ageratum houstonianum Brúðarstjarna Cosmos bipinnatus Daggarbrá Leucanthemum paludosum Fiðrildablóm Nemesia strumosa Garðajárnurt Verbena x hybrid Hádegisblóm Dorotheanthus bellidiformis Hengijárnurt Verbena tenuisecta Héraskott Lagurus ovatus Ilmskúfur Matthiola incana Skógarmalva Malva sylvestris Skrautkál Brassica oleracea var. acephala Sólblóm Helianthus annuus Sumarljómi Phlox drummondii Tígurblóm Mimulus luteus mars–apríl Aftanroðablóm Lavatera trimestris Dalía Dahlia x hortensis Flauelisblóm Tagetes patula Garðakornblóm Centaurea cyanus Klæðisblóm Tagetes erecta Morgunfrú Calendula officinalis Möggubrá Argyranthemum frutescens Paradísarblóm Schizanthus x wisetonensis Skrautnál Lobularia maritima var. maritima Sólbrá Coleostephus multicaulis Skjaldflétta Tropaeolum majus Þorskagin Linaria maroccana apríl Friggjarbrá Ismelia carinata Njarðarbrá Xanthophthalmum segetum Vinablóm Nemophila menziesii

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.