Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 32

Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. janúar 2014 Notkun spenadýfu og annarra hjálparefna Til eru fjölmargar spenadýfur, júgurþvottalegir og sótthreinsiefni til notkunar fyrir og við mjaltir og eru margir duglegir við að benda bændum á „ómissanlegheit“ þeirra. Það er skoðun undirritaðs að nokkur þessara efna séu ofnotuð eða jafnvel óþörf. Varðandi júgurþvott við hefðbundnar mjaltir er áríðandi að þvo og sjóða júgurklútana eftir hvert mál, það drepur alla sýkla og klútarnir eru hreinir. Á Norður- og Austurlandi er þetta orðin regla og klútaþvottavélar í flestum fjósum. Notkun svokallaðra júgur- þvottaefna (júgurþvottalagar, eða klórhexedíns) er þá óþörf og gerir raunar sjaldnast nokkurt gagn, er að mestu leyti trúarbrögð. Varðandi mjaltaþjónamjaltir er landslagið örlítið öðruvísi, sér í lagi vegna þess að þar er enginn athugull mjaltamaður með prufubakka að skoða breytingar á mjólkinni sem benda til nýsmits eða einkenna sem benda til júgurbólgu. Mjaltaþjónninn leiðnimælir mjólkina og getur gert ýmsar mælingakúnstir sem eiga að benda bændum á að skoða viðkomandi grip en gallinn er bara sá að bóndinn þarf að vera meðvitaður og mikið inni á tölvuskýrslunum svo að honum verði ljós staðan frekar fyrr en síðar. Þannig getur þetta farið fram hjá bændum við skoðun fyrstu dagana. Mér vitanlega notar enginn bóndi þann möguleika mjaltaþjónanna að þeir hendi frá óeðlilegri mjólk upp á sitt eindæmi eftir matskerfi þeirra sjálfra, því það geta þeir ef þeir eru forritaðir þannig, en það virðist ekki til í dæminu að gefa mjaltaþjóninum leyfi til sjálfvirks fráskilnaðar heldur vill bóndinn koma auga á munstrið sem bendir til hækkandi frumutölu eða júgurbólgu og gefa þá skipun ef vill og setur viðkomandi kú á frátöku. Spenadýfur eru til í mörgum útgáfum og virðast flestar sæmilegar en það er með þær eins og mörg önnur efni að þær eru að mínu mati oft ofmetnar. Spenadýfu ætti ekki að þurfa að nota þar sem júgurheilbrigði er að staðaldri gott og nýsmit lítið (frumu tala < 160 þús.) og betra er að eiga hana inni ef upp koma tímabil júgurbólgu heldur en dýfa á öllum tímum eða „til öryggis“, en slíkt hlýtur að rýra gagnsemi dýfunnar ef upp koma aðstæður þar sem sannarlega er not fyrir hana. Þegar þörf er á spenadýfu ætti ef hægt er að nota úðaflösku til verksins og afleggja svokallaða spenadýfubelgi eða kreistiflöskur, sem eru oftar en ekki drullusafnarar og geta endað sem smitberar milli kúa. Ef nauðsyn krefur að nota dýfuglas þarf að þvo það daglega svo það verði ekki til meira ógagns en gagns. Þar sem ákveðið er að nota svokallaða filmudýfu verður því miður ekki komist hjá því að nota dýfuglas (kreistiflösku). Filmudýfa eða filma er dýfa sem myndar húð utan um spenaendann en slík efni eru í vaxandi mæli að ryðja sér rúms, sér í lagi í Skandinavíu, og hefur að því er virðist gert meira gagn en ógagn. Þetta segi ég því filmudýfur voru á tímabili og jafnvel enn nokkuð umdeildar vegna þess að hugsanlega geta filmur eins lokað sýkla inni þó að meiningin sé að halda þeim úti ef viðkomandi júgurhluti er með dulda sýkingu þannig að sár eða ákoma spenans grær ekki eðlilega, og hafa ætti samráð við dýralækni um notkun filmudýfu. Það er einnig ljóst að fram- leiðendur hjálparefna við mjaltir herma hver eftir öðrum því stór hluti vinsælustu spenadýfanna, svo ekki sé talað um filmudýfur, er byggður á joði og glýseríni auk uppb.efna. Nokkrar dýfutegundir sem byggja á öðrum efnum en joði eru til á markaði hérlendis, svo sem mjólkursýra, klórhexedín og vetnisperoxíð svo eitthvað sé nefnt og eru þau misöflug varnarlega séð. Joð er trúlega eitt besta sýkla- drepandi efni sem til er og notað í spenadýfur og sótthreinsun og því gott að eiga aðgang að fjölmörgum góðum spenadýfum. Joð er flokkað sem geislavirkt frumefni og er nauðsynlegt snefil- efni manna og dýra. Til dæmis framleiðir skjaldkirtillinn joð fyrir mannslíkamann og joð hefur í áranna rás verið bjargvættur við ýmsar læknisfræðilegar aðgerðir. Því skil ég ákafa spenadýfuframleiðenda að byggja á þessu lífs merkilega frumefni. Ef spenaop er laskað, útdregin slímhimna eða kross sprungur neðan á spena er líklegt að hin meðfædda sýkla og smitvörn kýrinnar í spenaopinu sé léleg eða jafnvel ónýt og þá er þrautarlendingin sú að dýfa að loknum mjöltum. Meðfædd vörn kýrinnar sem er til staðar í spenaopinu líkist helst geirneglingu þegar spenaopið hefur lokast eftir mjaltir og er gríðarlega öflugt fyrirbæri ef speninn er heill, og algjörlega atriði númer eitt,tvö og þrjú að reyna að halda því óskemmdu. Þarna skiptir mestu mjaltatæknin, soghæð við mjaltir og að ekki hangi of lengi á kúnni sé verið að mjólka í hefðbundnu mjaltakerfi og svo auðvitað að ekki sé eða hafi verið í gangi sogatferli (kýr sogin í uppvextinum, jafnvel sem smákálfur). Um júgursmyrsl gilda önnur sjónarmið, en áríðandi er að smyrslið, sé það notað, verði ekki að smitbera milli kúa þegar borið er á kú af kú án þess að þvo hendur í milli. Því miður er algengt að sjá stórar júgursmyrslfötur standa opnar með óhreinu smyrsli og menguðu af fjósgerlum. Almennt gott hreinlæti við mjaltir, mjaltaröð (júgurhraustar kýr fyrst) og suða júgurþvottaklúta er mikilvægara gegn júgursjúkdómum og millismiti en notkun hjálparefna. Og í mjaltaþjónafjósum er enn meiri þörf á hreinlæti, vel sköfnum flórum og steinbitum til að kýrnar séu hreinar og umhverfið eins hreint og þurrt og hægt er. Góður spenaþvottur getur verið vendipunktur í líkum á millismiti og líftölustöðu búsins. Það eru meiri líkur á millismit í lausagöngufjósum þar sem kýrnar flakka um og leggjast á hina og þessa bása. Sérstaklega er hættan meiri ef kýrin nær að leggjast innan hálfrar klukkustundar frá mjöltum, en það er u.þ.b. sá tími sem spenaopið þarf til að lokast. Sag og t.d. Staldren ætti að bera í bása því þurrir og hreinir básar minnka stórlega líkur á sýklasmiti. Að lokum: Passið upp á spenaopið, viðhafið gott hreinlæti á öllum sviðum og sjáið til þess að kýrnar nái 6-8 vikna geldstöðu og hvíld til að byggja sig upp fyrir næsta mjaltaskeið og að lokum. Notið góða spenadýfu ef þörf er á. Kristján Gunnarsson Ráðgjafi um mjólkurgæði hjá Bústólpa ehf. Vatnshlaupabretti úr Flóanum smíðuð fyrir veðhlaupahesta í Dubai og Ástralíu Vatnshlaupabretti fyrir hesta, sem eru smíðuð og framleidd hjá fyrirtækinu Formax á Gegnishólaparti í Flóahreppi, hafa heldur betur slegið í gegn en búið er að smíða 14 slík bretti frá 2010. Fjögur tæki hafa verið selt á Íslandi en tíu til útlanda, meðal annars Danmerkur, Svíþjóðar, Sviss, Frakklands og Hollands. Mesta athygli vekur að búið er að selja tvö bretti til Dubai og eitt fer til Ástralíu í mars 2014, en brettin í þessum löndum eru notuð við þjálfun á veðhlaupahestum. Krónprinsinn í Dubai, Sheikh Hamdan, keypti brettin þar, en hann er með risa hestabúgarð. Eigendur Formax eru þeir Helgi Friðrik Halldórsson og Bjarni Sigurðsson, sem er framkvæmdastjóri og hönnuðu brettanna. Á síðasta ári hófst markaðs- setning á brettum fyrir stærri hesta. Þá má geta þess að Formax er í samstarfi við Tækniþróunarsjóð um rannsóknir á vöðvavirkni hrossa, sem eru í vatnsþjálfun. /MHH - Myndir / MHH

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.