Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 10

Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 10
Bændablaðið | Fimmtudagur 23. janúar 201410 Fréttir Ný vefsjá yfir skóglendi á Íslandi er nú aðgengileg á vef Skógræktar ríkisins, skogur.is. Þar má sjá útbreiðslu bæði ræktaðra skóga og náttúru legs birkilendis. Við- brögð hafa verið góð, en allur al menningur getur nýtt sér nýju vefsjána. Björn Traustason, sérfræðingur í landfræðilegum upplýsingum hjá Skógrækt ríkisins, hannaði og bjó vefsjána til og er hún nýkomin í loftið. „Vefsjá af þessu tagi er það sem koma skal í miðlun landupplýsinga. Í grunninn er þetta ekki ósvipað og til dæmis Google Maps, þ.e. land- upplýsingar úr gagnagrunni, sem hægt er að þysja niður og skoða í nálægð,“ segir Björn. Ræktuðum skógum er í vefsjánni skipt niður í tvo flokka; eldri skóga og yngri skóga. Þeir eldri eru ávallt yfir 2 m á hæð og eldri en 15 ára gamlir, en yngri skógar eru yfirleitt undir 2 m á hæð og yngri en 15 ára. Náttúrulegu birkilendi er einnig skipt niður í tvo flokka, annars vegar birkiskóga sem eru yfir 2 m á hæð og birkikjarr sem er lægra en 2 metrar. Flokkað eftir sveitarfélögum Skóglendið er flokkað eftir sveitar- félögum þannig að þegar til að mynda er smellt á fláka fyrir birkikjarr innan ákveðins sveitarfélags birtast m.a. upplýsingar um flatarmál kjarrlendis innan þess alls. Það sama gildir um hina skóglendisflokkana. Björn segir að í undirbúningi sé vefsjá þar sem hægt sé að skoða upplýsingar úr hverjum kortlögðum reit, bæði fyrir ræktaða skóga og náttúrulegt birkilendi. „Núna getur fólk skoðað vefsjána með þessum hætti, valið tiltekin sveitarfélög og séð þá t.d. allan þann birkiskóg sem innan þess er,“ segir hann. Undanfarin ár hefur farið fram mikil vinna í kortlagningu alls skóglendis á Íslandi, bæði ræktuðum skógum og náttúrulegu birkilendi. Þessum upplýsingum hefur verið safnað í samræmdan gagnagrunn við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá. Ýmsir aðilar senda inn upplýsingar um gróðursetningar trjáplantna á hverju ári og eru landshluta- verkefnin í skógrækt þar stærst, auk skógræktarfélaga um land allt. „Með því að koma okkur upp vefsjánni erum við að miðla upplýsingum um skóga Íslands áfram til almennings og gera þær aðgengilegar og vonandi þykir fólki það áhugavert. Fyrstu viðbrögð lofa góðu, þau hafa verið mjög jákvæð,“ segir Björn. Almenningur getur komið upplýsingum á framfæri Hann segir að vissulega vanti upp á að öllu sé til haga haldið varðandi skógrækt á Íslandi, en sem dæmi skorti enn ýmsar upplýsingar um einkaskógrækt, t.d. á sumarbústaðasvæðum. „Við yrðum mjög ánægð ef fólk sem skoðar vefsjána og sér að skógræktarsvæði sem því viðkemur og er ekki merkt inn hjá okkur, léti vita. Þá hefðum við tækifæri til að bæta úr og laga, það er einmitt það sem við viljum og erum að leita að farvegi svo allur almenningur geti á auðveldan máta komið á framfæri við okkur slíkum upplýsingum,“ segir Björn. Þá nefnir Björn að grunn- myndirnar í vefsjánni séu gervitungla myndir, stundum teknar í mikilli hæð, allt að 500 kílómetrum. „Við höfum ekki tækifæri til að eiga við þessar myndir og það má vera að fólk taki eftir skekkjum þegar það skoðar myndirnar þar sem staðfræðilegri nákvæmni þeirra er stundum ábótavant. Þannig að ekki er ólíklegt að ár og lækir, hús og annað á einstaka jörðum komi ekki alveg hárrétt út, en ég vona að með tíð og tíma verði settar inn nýjar myndir með betri staðfræðilegri nákvæmni. “ segir Björn. Vefsjáin og landupplýsinga- gögnin eru í umsjá Rannsókna- stöðvar skógræktar á Mógilsá. Vefsjáin er byggð á ESRI- hugbúnaði og mynd gögnin lagskiptar gervitungla myndir með mismunandi upplausn eftir mælikvarða. /MÞÞ Ný vefsjá yfir skóglendi á Íslandi: Útbreiðsla ræktaðra skóga og náttúrulegs birkilendis Kristján Gunnarsson, fyrrum mjólkureftirlitsmaður, hefur verið ráðinn til starfa hjá Bústólpa á Akureyri. Kristján mun sinna ráðgjöf til bænda á starfssvæði Bústólpa um mjólkurgæði og meðferð og þrif mjaltabúnaðar. Kristján hefur áratuga reynslu af störfum sínum sem mjólkureftirlitsmaður og býr yfir yfirgripsmikilli og einstakri þekkingu á því sviði. Þá hefur hann ritað fjölda greina og leiðbeininga um málefnið á starfsferli sínum og hefur reynst bændum afar vel í starfi. Efla þjónustu við bændur Greint er frá þessu á vefsíðu Bústólpa og jafnframt að það sé fyrirtækinu mikill fengur að fá Kristján til starfa. „ Með tilkomu Kristjáns hyggjumst við efla enn frekar þjónustu okkar við bændur á svæðinu. Margir halda að ég sé galinn „Það halda margir að ég sé galinn, héldu að ég væri svo heilsutæpur að ég legðist fyrir og myndi hvorki hreyfa legg né lið framar,“ segir Kristján, en hann lét af störfum sem mjólkureftirlitsmaður hjá MS á Norður- og Austurlandi í lok síðasta sumars. Kristján hafði greinst með parkinson-veiki sem meðal annars olli því að langar ökuferðir sem fylgdu starfinu voru honum erfiðar. Um er að ræða 40% hlutastarf en hann er hlutlaus ráðgjafi sem bændur geta leitað til m.a. vegna vandamála ýmis konar sem upp kunna að koma á hans sérsviði. „Ég er þakklátur Hólmgeiri, framkvæmdastjóra Bústólpa, fyrir að sýna mér þetta traust og hafa það álit á mér að hann vilji fá mig til starfa á þessum vettvangi,“ segir Kristján. Kristján mun fyrst og fremst sinna ráðgjöf og þannig starfa við hlið núverandi DeLaval-þjónustumanna Bústólpa sem sinna viðhaldi og uppsetningu mjaltabúnaðar. Bændum mun standa til boða að ræða við Kristján án gjaldtöku um atriði er varða mjólkurgæði, þrif og val þvottaefna svo eitthvað sé nefnt, en einnig munum við bjóða bændum að fá Kristján til stærri úttekta á mjólkurgæðum sérstaklega ef um viðvarandi háa líftölu, frumutölu eða fríar fitusýrur er að ræða og þá gegn hóflegu gjaldi, segir enn fremur í frétt frá Bústólpa. /MÞÞ Kristján ráðinn til Bústólpa Rúnar Ísleifsson ráðinn skógarvörður á Vöglum Rúnar Ísleifsson skógverk- fræðingur hefur verið ráðinn skógarvörður á Norðurlandi frá og með 1. apríl næstkomandi með aðsetur á Vöglum í Fnjóskadal. Fjórir sóttu um og af þeim var Rúnar metinn hæfastur. Rúnar tekur við starfinu af Sigurði Skúlasyni, sem verið hefur skógarvörður á Vöglum frá 1987. Rúnar er skógverkfræðingur að mennt. Hann lauk grunnnámi í skógrækt frá Östboskolan í Värnamo í Svíþjóð 1986 og prófi í skógtækni frá sama skóla tveimur árum síðar. Árið 1989 lauk hann svo B.Sc.-prófi í skógverkfræði frá sænska landbúnaðarháskólanum í Skinnskatteberg. Hann hefur viðamikla reynslu af skógræktar- störfum hérlendis og þá aðallega á Austur- og Norðurlandi. Hann var skógræktarráðunautur Skógræktar ríkisins á Austurlandi 1990– 1997, þá skógræktarráðunautur Héraðsskóga til 2002 þegar hann tók við framkvæmdastjórn Barra hf. á Egilsstöðum. Frá árinu 2005 hefur hann verið skógræktarráðunautur Skógræktar ríkisins með aðsetur á Norðurlandi. Spennandi verkefni fram undan Rúnar segir mörg spennandi viðfangsefni fram undan hjá Skógrækt ríkisins á Norðurlandi sem tengjast grisjun, viðarvinnslu og bættri aðstöðu á útvistarsvæðum. Rúnar hyggst á vormánuðum flytja búferlum ásamt fjölskyldu sinni frá Espihóli í Eyjafjarðarsveit og að Vöglum í Fnjóskadal. Hann er reyndar alinn upp í skóginum og þekkir hann betur en margir aðrir því faðir hans, Ísleifur Sumarliðason, var skógarvörður á Vöglum í 38 ár, frá 1949-1987. /MÞÞ Samstarfsverkefni þýskra og íslenskra stjórnvalda, sem nefnist Örugg matvæli, hefur nú verið hrint úr vör. Megintilgangur verkefnisins er að auka matvæla- öryggi og neytendavernd á Íslandi með því að auka vöktun á óæskilegum efnum í matvælum. Í fréttatilkynningu frá MAST segir að „Örugg matvæli“ geri íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd, sem hefur nú þegar verið innleidd í gegnum EES-samninginn. „Verkefnið felur í sér kaup og uppsetningu á rannsóknatækjum og þjálfun í faggiltum efnagreiningum og eftirlitsstörfum. Með bættum tækjabúnaði verður hægt að framkvæma mun fleiri mælingar innanlands en nú er s.s. mælingar á þörungaeitri í skelfiski og mælingu 300 varnarefna í matvælum í stað þeirra 60 sem nú eru mæld.“ Örugg matvæli var upphaflega hluti af IPA-áætlun vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB en hefur nú verið hrint í framkvæmd í formi tvíhliða verkefnis milli þýskra og íslenskra stjórnvalda. Verkefnið er unnið í samvinnu Matís, Matvælastofnunar, Atvinnu- vega- og nýsköpunar ráðuneytisins, Bundesministerium für Ernährung und Landwirtschaft (BMEL), Bundesinstitut für Risikobewertung (BfR) og Niedersächsisches Landes- amtes für Verbraucherschutz und Lebensmittelsicherheit (LAVES) í Þýskalandi. Samstarfsverkefni þýskra og íslenskra stjórnvalda: Aukið matvælaöryggi á Íslandi Rúnar Ísleifsson skógarverkfræðingur hefur verið ráðinn skógarvörður á Norðurlandi og mun hafa aðsetur á Vöglum, þar sem þessi mynd var tekin þegar haldið var upp á 100 ára afmæli Vaglaskógar. Mynd / MÞÞ Kristján Gunnarsson, fyrrum mjólkureftirlitsmaður, hefur verið ráðinn til starfa hjá Bústólpa á Akureyri. Mynd / MÞÞ Höfuðborgarsvæðið í nýju vefsjánni. Björn Traustason, sérfræðingur í landfræðilegum upplýsingum hjá Skógrækt ríkisins.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.