Skírnir - 01.09.1994, Page 265
SKÍRNIR
HAMINGJAN, SIÐFERÐIÐ, LÖGMÁLIÐ
535
En auðvitað er ekki hægt að banna honum að vera í mótsögn við
sjálfan sig fremur en það er hægt að banna mönnum að trúa því að mán-
inn sé úr gulum osti. „Osthyggjumaðurinn" getur t.d. neitað að viður-
kenna vitnisburð skynfæranna og sagt stjörnufræði svikamyllu af verstu
gerð. Hann getur viljað að máninn sé úr gulum osti án þess að sú skoðun
verði skynsamleg fyrir vikið. Og sama gildir um siðleysingjann. Hann
getur viljað segja skilið við siðferði og samfélag án þess að það breyti
nokkru um mögulegt réttmæti siðaboða.
Kristján segir að viljinn, ekki skynsemin, ráði því hvort við beygjum
okkur undir ok siðaboða. Og hann virðist telja þá meintu staðreynd
valda því að ekki sé hægt að ígrunda siðaboð skynsamlega (bls. 31).
En gegn þessari skoðun má tefla fram rökum lögmálshyggju. Burðar-
ás hennar er sá að annars vegar er hægt að rökstyðja siðaboð skynsam-
lega, hins vegar að okkur er í sjálfsvald sett hvort við tökum rökum. Ef
við ættum ekki þessa kosts völ væri breytni okkar algerlega skilyrt af or-
sökum en þá er hún ekki siðferðileg. Því eins og áður segir telja lögmáls-
sinnar að sé viljinn ekki frjáls sé ekki hægt að leggja siðferðilegan dóm á
gjörðir manna. Því er út í hött að tala eins og viljinn geti trompað skyn-
semina. Þau hafa hvort sitt verksvið sem ekki skarast.
Kristján gerir sig sekan um það sem ég nefni „viljavillu". Villan sú
felst í því að halda að sú staðreynd að viljinn varðar siðferðið miklu geri
hann að drottni siðaboðanna. „Vilji er allt sem þarf,“ sagði stjórnmála-
skörungurinn en þar skjöplaðist skírum.
Nú skipar Kristján gildismati við háborð skynseminnar, siðaboðun-
um á lægri bekkinn. Sumir gildisdómar eru sannir, t.d. dómar um gæði
Trabantbíla (bls. 31). En rétt eins og osthyggjumaðurinn getur efast um
ágæti stjörnufræða getur siðleysinginn efast um hlutlægni gildisdóma.
Hann getur sagt að „gildistrú" sé þáttur í sjónleiknum mikla sem lífsvilj-
inn sviðsetur, blekking og hjóm. Menn geta því efað að til séu sannir
gildisdómar, rétt eins og efast má um að til séu réttmæt siðaboð. Því er
vandséð hvers vegna skipa skuli gildisdómum ofar siðaboðum á virðing-
arstiga skynseminnar.
Kristján er vissulega hluthyggjumaður um gildismat en í reynd hug-
hyggjumaður um siðferði. Einstaklingurinn er í huga Kristjáns þokuvera
handan samfélags og siðaboða, vera sem getur kastað trú á siðferðið eins
og gatslitinni flík.
Því er engin furða þó að Kristján telji manneðlið alls staðar hið sama
(bls. 246-247). Slá ekki hjörtun eins í Súdan og Grímsnesinu? Meinið er
að Kristján slær þessari fullyrðingu fram án nokkurs eiginlegs rökstuðn-
ings. Ekki bætir úr skák að hann er tæpast samkvæmur sjálfum sér því
hann segir einnig að mannúð fari vaxandi í henni verslu. Vanþroska
menn og samfélög eru andvaralausari gagnvart hagsmunum annarra,
kaldlyndari, segir Kristján (bls. 138-139). En þá er nærtækast að líta svo