Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2002, Síða 77
Hvers kyns Biblía? - jafnréttisumrœðan og Biblíuþýðingin
og hið sama má segja um orð eins og manngildi og mannréttindi.8 Það
breytir því ekki að oft eru konur ekki menn, það er að segja þegar orðið
maður er notað einvörðungu í merkingunni karlmaður. Notkun orðsins
maður í málfari kirkjunnar, til dæmis í biblíutextum og játningum kirkjunn-
ar, er engin undantekning.
Það er af nógu að taka þegar leitað er að dæmum um notkun orðsins
maður í merkingunni karlmaður. Um er að ræða bæði gömul og ný dæmi.
Það fer ekki á milli mála hvað orðið maður merkir í heiti skáldsögu Jóns
Thoroddsen Maður og kona, sem fyrst var gefin út árið 1876. Annað dæmi
er KFUM, eða Kristilegt félag ungra manna, en merking þess er ljós í
samhenginu KFUM og K. En ekki er merking orðsins alltaf jafn augljós. Ef
sagt er: „Ég hitti mann hérna fyrir utan“, er ólíklegt að einhver svari: „Hvað
heitir hún?“ þó að ekkert í setningunni gefi til kynna hvort orðið sé notað
yfir bæði kynin eða bara annað. Annað dæmi um óljósa merkingu orðsins
maður er nýlegt og er að finna í eftirfarandi yfirskrift á veggspjaldi, sem ég
sá nýlega í kirkju hér í borg: Menn með markmið. Konunglegt prestafélag.
Ekkert í textanum gefur mér tilefni til að álykta að konur séu menn í þessu
samhengi. Athugun leiddi í ljós að hér er bara verið að tala um „karla með
markmið“. Þetta er enn eitt dæmið um það þegar konur þurfa að spyrja hvort
orðið maður vísi til þeirra, eða með öðrum orðum, þegar konur þurfa að
spyrja hvort þær séu menn eða ekki. Ég dreg í efa að karlar lendi oft í slíkri
stöðu.
Dæmi um tvíræða merkingu orðsins maður er að finna víða í sköpunar-
sögum Biblíunnar í 1. Mósebók 1.-3. kafla.9 Ég mun nú skoða nokkur dæmi
og bera saman gömlu og nýju þýðinguna á íslensku og enska þýðingu eins
og hún birtist í NRSV.
Fyrsta dæmið er úr fyrri sköpunarsögunni, úr 1. kafla 27. versi:
8 Athyglisvert er hvemig samtökin Amnesty International hafa í baráttu sinni íyrir auknum mannrétt-
indum kvenna, vísað til þessarar tvíræðni orðsins maður, í slagorðinu „kvenréttindi eru líka mann-
réttindi'1. Forsendan fyrir þessu slagorði hlýtur að vera sú að þetta sé ekki sjálfsagt mál! (Sjá Human
Rights are Women’s Rights. London: Amnesty Intemational Publications, 1995). Orðin forstöðu-
maður, starfsmaður, þingmaður og fleiri slík eru notuð fyrir bæði kynin. Hins vegar er athyglisverð
þróunin sem hefur orðið varðandi starfsheiti sem áður voru kvenkyns, en hefur verið breytt í karl-
kynsorð, um leið og karlmenn hafa komið inn í viðkomandi stéttir, sbr. hjúkrunarkona sem breytt
hefur verið i hjúkrunarfræðing og fóstrur, sem nú heita leikskólakennarar. Hið sama hefur ekki gilt
um karlastéttir sem konur hafa komið inn í, en þá hafa starfsheitin haldist óbreytt, sbr. ráðherra.
Mörg önnur dæmi em til, eins og prestur, kennari, læknir, forseti, o.sv.frv.
9 Sjá mjög gagnlega umræðu Phyllis Trible um 1M 1-3 í 1. og 4. kafla bókar hennar God and the
Rhetoric of Sexuality.
75